09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5570 í B-deild Alþingistíðinda. (4826)

81. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli frsm. sjútvn., formanns n. Valdimars Indriðasonar, hefur þetta mál verið til allmikillar og ítarlegrar umr. í sjútvn. Formaðurinn hefur gert allt sem óskað hefur verið eftir til að leita upplýsinga og stjórnað umr. um þessi mál á breiðum vettvangi, eins og kom fram í ræðu hans.

Eins og frv. ber með sér, og það kom einnig fram í ræðu frsm., er hér fyrst og fremst verið að breyta stjórn Hafrannsóknastofnunar. Það má svo sem um það deila hvað þarna er um veigamiklar breytingar að ræða, en segja má að ánægjulegt sé að hreyfing er í kringum þessa stofnun.

Það kemur þá í hugann um leið að þessi stofnun er meira en skipulagið og nauðsynlegt að hún sé svolítið meira. Við urðum vissulega vör við, þegar við vorum að fjalla um þetta málefni, að það þyrfti að mörgu leyti að hlúa betur að stofnuninni en gert hefur verið og þá fyrst og fremst að henni væri búinn rýmri og betri fjárhagur til þeirra verkefna sem henni eru ætluð.

Við þessa umr. vil ég undirstrika að við erum sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég geri ráð fyrir að n. hafi verið jafnsammála um að það sé grundvallaratriðið að þessi stofnun verði efld á öllum starfssviðum og ekki síst nú, þegar ýmsir þættir í sjávarútvegi standa nokkuð höllum fæti.

Það kom fram í umr. — líkast til á fundi í stofnuninni sjálfri — að sjávarútvegur mun standa langt að baki öðrum aðalatvinnuvegi okkar, landbúnaði, í sambandi við vísindalega ráðgjöf.

Það kom einnig fram á fundi n. varðandi það nýmæli sem er í frv. um stofnun útibúa utan Reykjavíkur að ráðnir hafa verið til starfa hinir færustu vísindamenn, en þeir hafa rekið sig á að menntun þeirra nýtist ekki sem skyldi og m. a. á þann veg að þeir, — menn sem hafa mjög mikla menntun, margra ára menntun og eru kannske hinir færustu vísindamenn okkar á sviði hafrannsókna, — eru einir í þessum stofnunum og verða þar af leiðandi að vinna þau verk sem undir flestum kringumstæðum væru í höndum ritara eða einhvers annars aðstoðarmanns, t. d. að mæla fiska. Séu svo upplýsingar um stærð og þyngd fiska lesnar inn á segulband, þá þarf vísindamaðurinn, þegar hann kemur inn á skrifstofu sína, að skrá þær upplýsingar sem hann hefur áður lesið inn á bandið. Þannig er greinilegt að ákveðnar skipulagsbreytingar þarf til þess að starfsmenn nýtist betur en raun ber vitni um.

Ég þakka formanni n. fyrir góða forustu í þessu máli og öll n. stendur að því að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem formaður n. gerði grein fyrir.