09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5572 í B-deild Alþingistíðinda. (4829)

329. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. sjútvn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, með síðari breytingum. Frv. þetta felur það í sér að í Fiskveiðasjóði verði stofnað til nýs lánaflokks, þ. e. skuldbreytingalána vegna stofnlána útvegsins. Þarna er um að ræða lánalengingu sem getur numið frá einu til sjö árum og vaxtalækkun.

Í 11. gr. laga nr. 44 frá 1976 er ákvæði um að Fiskveiðasjóði sé óheimilt að lána út á nema 75% af veðhæfni eða tryggingarmati skipa, en í þessu frv. er gert ráð fyrir að þessi heimild sé hækkuð í 90%. Fjárhagsvandi útgerðar er mikill, eins og öllum er kunnugt, og er samþykkt þessa frv. einn liður í því að leysa þann vanda.

Eins og fram kemur í nál. er sérstaklega undirstrikað af n. að í þeirri reglugerð sem gera þarf vegna hinna fyrirhuguðu skuldbreytinga verði réttur þilfarsbáta undir 20 tonnum einnig hafður í huga. Þetta er komið fram vegna þess að í viðræðum við forstjóra Fiskveiðasjóðs hefur það verið rætt að miða skuli við 20 tonna markið þegar til þessara afgreiðslna kemur, en því miður eru skuldamál nokkurra hinna minni þilfarsbáta í Fiskveiðasjóði ekki eins og vera skyldi.

Sjútvn. þessarar hv. deildar er sammála um að mæla með samþykkt frv.

Árni Johnsen var fjarstaddur afgreiðslu málsins.