09.05.1984
Neðri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5587 í B-deild Alþingistíðinda. (4868)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér stendur dálítið einkennilega á. Komið er fram frv. til stjórnskipunarlaga sem ku hafa það höfuðmarkmið að jafna kosningarrétt í landinu, en tekur jafnframt af öll tvímæli um að Ólafsvíkurkaupstaður skuli ekki teljast til neins kjördæmis á Íslandi og þar með að íbúar Ólafsvíkurkaupstaðar skuli engan kosningarrétt hafa. Taki Alþingi aftur á móti þá ákvörðun að breyta þessu atriði og setji Ólafsvíkurkaupstað inn í Vesturlandskjördæmi hefur það jafnframt ákveðið að breyta frv. hæstv. forsrh. á þann veg að hann er að leggja til að stjórn hans fari frá strax og Alþingi hefur samþykkt þetta frv. Því eins og þingheimi er ljóst ber um leið og stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Alþingi er þess vegna stillt upp við vegg á þann veg að annaðhvort skal óbreytt frv. fram ganga með þeim annmarka, sem hér er á, að Ólafsvíkingar hafa engan kosningarrétt eða að þm. taka ákvörðun um að stjórnin lifi ekki nema fram á vorið. Ég verð að segja eins og er að sem stjórnarsinni hef ég ekki lent í miklu meiri vandræðum en að meta stöðuna út frá þessu.

Mér þykir það einnig dálítið sérstakt að hæstv. forsrh. skuli sækja það mál jafnfast og hann gerir þar sem þannig er ástatt um málið og einnig má það furðulegt heita að félmrh. skuli láta það óátalið að slíkt mál sé flutt hér í þinginu og ber þá nýrra við ef hann telur það ekki skyldu sína að gæta hagsmuna þeirra á Vesturlandi og m. a. þeirra sem búa í Ólafsvík. En hvað er það á milli vina þó einn kaupstaður sé ekki talinn með á Íslandi lengur þegar landinu er skipt niður í kjördæmi.

Þetta er auðvitað aðeins sýnishorn af því hvílíkt fljótræði er hér á ferðinni. Þetta mál er sett fram án þess að á því sé nein skiljanleg skýring hvernig standa beri að þessum hlutum. Ég hygg að Alþingi hafi margt annað þarfara við sinn tíma að gera nú á vordögum, en að afgreiða frv. sem ekki er betur unnið en það sem hér liggur fyrir Nd. Og ég vænti þess að þó að menn séu nú kröfuharðir um að jafna beri kosningarrétt sé ekki svo vasklega fram gengið að menn telji sanngjarnt að íbúar í heilum kaupstað hafi engan kosningarrétt.

Það hefur komið hér fram að þessi tillaga sé málamiðlun. Menn hafa viljað ganga svo langt að kalla hana þjóðarsátt. Að mínu mati má segja að niðurstaðan verði alveg þveröfug. Þessi tillaga á eftir að halda öllum þeim eldum logandi sem loga í dag milli einstakra hagsmunahópa í þessu þjóðfélagi og sú ákvörðun að setja öll ójöfnunaratriði í salt, sem verið er að gera með því að segja að leiðrétta beri mismun á milli búsetukostnaðar í þessu landi, leiðrétta beri hann með nýrri stjórnarskrá þegar ný stjórnarskrá verði tekin fyrir. Það vill nú svo til að við höfum átt stjórnarskrárnefnd starfandi nokkurn veginn eða alveg frá þeim tíma að lýðveldið var stofnað. Það hefur verið sameiginlegt með þeim öllum að þær hafa fengið nýjan formann þegar sá sem áður gegndi formennsku hefur verið á brautu kvaddur. Ég er ekki búinn að sjá að þar á verði nem breyting í framtíðinni. Það er enginn áhugi hjá stjórnmálaflokkunum að breyta stjórnarskránni sem heild. Ef sá áhugi væri til staðar væru menn búnir að leggja fram brtt. við stjórnarskrána í þinginu um þau atriði.

Ég hef aftur á móti aldrei fengið skilið hvaða rök mæla með því að skattleggja beri landsbyggðina alveg sérstaklega til að greiða með hinum orkufreku iðjuverum þessa lands. Það verður að segjast eins og er, að þeir sem bera á því ábyrgð að leyfa Landsvirkjun að hækka sína raforkutaxta eins og gert hefur verið til þess að hún geti komið út með hagnaði, þrátt fyrir þá staðreynd að hinir orkufreku kaupendur borga hlægilega lágt verð fyrir sinn hluta af raforkunni, þeir sem bera ábyrgð á þessari ákvarðanatöku hafa í sjálfu sér ákveðið að leggja á stóriðjuskatt í landinu sem er þannig greiddur að sá sem borgar aðeins raforku til venjulegra heimilisnota, en hefur heitt vatn til upphitunar, borgar hálfan skatt á við þá sem nota raforku líka til upphitunar. Ég hygg að það sé ærið umhugsunarefni hvort þetta geti talist réttlátt. Og það er dálítið skrítið að á sama tíma og t. d. í sjávarútvegi er verið að greiða stórfé með vissum veiðum, eins og t. d. karfaveiði, sem sennilega er hreint lögbrot að gera í dag, eru menn í reynd að taka fé frá útgerðarsvæðunum úti um land og færa það til suðvesturhornsins til þeirrar togaraútgerðar sem þar er. Og mér er spurn: Er það virkilega niðurstaðan, þegar menn halda jafnákveðið á þessum málum, að þeir telji eðlilegt að sú útgerð sem ber sig úti á landi eigi að borga skatt til hinnar sem löngum hefur verið á höfði? Er það það sem menn telja rétt? Og flytja svo á eftir íbúana af þessum svæðum hingað suður?

Mér er ljóst að þeir sem standa að flutningi þessa frv. telja að þeir séu að leggja til eitthvað sem muni standa næstu ár. Þar er um mikinn misskilning að ræða. Ég hygg að þessi stjórnarskrárbreyting verði af sögunni talin með stærri mistökum sem Alþingi Íslendinga hefur gert, ef hún kemst til framkvæmda. Menn hafa löngum spurt: Er það sanngjarnt að atkvæðisrétturinn úti á landi sé meiri en á höfuðborgarsvæðinu? Um þetta má vissulega deila, en sú spurning sem vaknar, ef við sláum því föstu að svo skuli ekki vera, er aftur á móti þessi: Er það sanngjarnt að íbúar höfuðborgarsvæðisins skuli ráða yfir landinu öllu? Það er söguleg staðreynd að landsbyggðin, þegar hún hafði þetta mikla vald og réð hér málum, veitti ákveðnum svæðum, með því að veita þeim kaupstaðarréttindi, mjög veruleg forræði eigin mála. Eitt af þeim svæðum sem fékk slík réttindi var Reykjavík. Og Alþingi gekk svo langt í upphafi, undir hinu danska valdi, að það var beinlínis stuðlað að því að hér yrði látin rísa byggð. Við spyrjum í dag: Hvað er það sem þéttbýlið ætlar að gera ef það fær þetta meirihlutavald? Hvers vegna leitar það eftir því að fá meirihlutavald á Alþingi Íslendinga? Hvað er það sem það vill gera við það vald? Það er ekki óeðlilegt að þessi spurning komi fram.

Ég hygg að það verði ákaflega skiptar skoðanir um hvað eigi að gera við þetta vald. Sumir munu e. t. v. segja að þeir vilji vinna að því að koma hér á réttlátum lausnum á ýmsum sviðum. Aðrir munu tvímælalaust halda því fram að þeir ætli að nota þetta vald til að drottna yfir landsbyggðinni. Og það hefur ekki farið neitt leynt hjá mörgum að það er það sem þeir vilja. Ég er þeirrar skoðunar, og rakti það í ræðu hér í Alþingi í vetur, að eigi af sanngirni að taka á þessu máli sé það vonlaust á annan veg en þann að veita hinum ýmsu svæðum á Íslandi mjög verulega sjálfstjórn allra sinna mála. Það væri ákvarðanataka um það að breyta lýðveldinu Íslandi í sambandslýðveldi og skipta því í fimm lýðveldi sem réðu í öllum aðalatriðum sínum málum. Menn mega kalla þetta fylki og það er gamalt og gott orð. Ég fæ ekki séð að neitt landssvæði á Íslandi gæti hafnað því að það fengi forræði sinna mála, réði sínum málum eins og er í þeim löndum þar sem um sambandslýðveldi er að ræða. Sambandslýðveldin hafa aftur á móti náð miklu betri árangri í því að draga úr miðstýringu en það form sem við erum með. Hvers vegna tel ég rétt að ræða þetta í þessu samhengi? Vegna þess að það er tómt mál að tala um að það eigi að setja nefnd til að vinna að breytingum á ýmsum atriðum sem varða hagsmuni hinna dreifðu byggða eftir að búið er að standa þannig að málum að þéttbýlið hefur fengið meirihlutaaðstöðu á Alþingi Íslendinga.

Mér er líka ljóst að því miður er ekki til staðar á Alþingi sú rólega umhugsun sem þyrfti að vera um þessi mál. Menn líta nánast þannig á að verið sé að eyða tíma þingsins, það sé málaþóf eða að það sé verið að tefla máli í tvísýnu ef menn taka upp á því að ræða um stjórnarskrána. Það er orðið svo ríkt í hugum þm. að líta á Alþingi sem afgreiðslustofnun en ekki sem löggjafarsamkomu. Menn fela sig í vaxandi mæli á bak við það að frv. eigi að útbúa út í bæ af einhverjum sérfræðingum, svo eigi að flytja þau hér á þinginu og afgreiða þau. Og það er athyglisvert hvernig fréttamenn halda á þessum málum. Þeir tala um að það sé verið að tefja þessi mál í þinginu. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja ræðumann hvort hann geti lokið ræðu sinni á mjög stuttum tíma.) Mér er nú ljúft að svara forseta því, að ég gæti lokið ræðunni á nokkuð stuttum tíma, en mér er ekki ljóst hvort það er nokkuð sem mælir með því að eyða þingtíma í annað en að halda áfram með þessa ræðu. (Forseti: Þá vildi ég óska eftir því að hv. þm. frestaði ræðu sinni.) Ég verð við þeirri ósk.