09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5596 í B-deild Alþingistíðinda. (4889)

341. mál, Íslensk málnefnd

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé gott mál á ferðinni og vil þakka hæstv. menntmrh. þá forgöngu sem hann hefur haft um að flytja þetta mál. Ég vænti þess að deildin sjái sér fært að hraða framgangi þess og þetta geti orðið að lögum nú í vor.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að við lifum á þeim tímum þar sem straumarnir eru svo sterkir sem leika um íslenska menningu og íslenskt málfar að okkur veitir svo sannarlega ekki af því að fjölga þeim vökumönnum sem er ætlað það verkefni að gæta íslenskrar tungu.