09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5597 í B-deild Alþingistíðinda. (4891)

341. mál, Íslensk málnefnd

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðh. hefur borið fram frv. til l. um Íslenska málnefnd. Það var tími til þess kominn. En ég hlýt að taka undir athugasemdir sem fram hafa komið hér m. a. frá síðasta ræðumanni. Ég vil a. m. k. aðeins setja smáspurningarmerki við málið hér við framsögu áður en það fer í nefnd. Það er óljóst fyrir mér hvers konar stofnun í raun og veru þessi málstöð verður. Hér segir í 6. tölulið í 2. gr.:

„Íslensk málnefnd gefur út rit til fræðslu og leiðbeiningar um íslenskt mál, þ. á m. stafsetningarorðabók og önnur hagnýt orðasöfn.“

Ég tek undir það sem hv. þm. Bjarni Guðnason minntist á áðan, mér finnst dálítið óljóst hvar skarast verkefni t. d. Orðabókar Háskólans og þessarar stofnunar. Síðan er talað um hér í 3. gr. að Íslensk málstöð sé skrifstofa Íslenskrar málnefndar og miðstöð þeirrar starfsemi sem hún hefur með höndum. Það er alveg ljóst að þetta ákvæði felur í sér að þarna verður að vera starfsfólk viðlátið á venjulegum vinnutíma og það segir sig sjálft að forstöðumaðurinn, sem hefur hlutakennslu og jafnvel þó að hann hafi frí frá kennslu, ræður ekkert við þau verkefni sem stöðinni eru falin, enda er síðan talað um í 4. gr. að forstöðumaður stjórni daglegum rekstri og lausráði starfsfólk. Ég get því ekki betur séð en þarna hljóti að verða um verulegan rekstur að ræða og ég er ekki að hafa á móti því. Það er hins vegar meira til að hugsa um hvort ekki hefði verið eðlilegt að samnýta að einhverju leyti starfsfólk Orðabókar Háskólans. Þar er nú t. d. eftir því sem ég best veit verið að tölvuvæða. Hvers konar aðbúnað eða aðgang að slíkum tækjum mundi starfsfólk málnefndar hafa?

Hér segir í 5: gr. að reksturinn verði greiddur af ríkisfé skv. því sem veitt er í fjárlögum. síðan komi til styrkir til einstakra verkefna, síðan eigi stofnunin að hafa tekjur af eigin útgáfu. Ég get ekki hugsað mér að þær tekjur geti orðið slíkar að þær standi undir kostnaði enda hlýtur þá að verða að koma til verulegt starfslið.

Ég vil minna á Menningarsjóð og bókaútgáfu hans. Mér finnst einhvern veginn að það hefði verið unnt að sameina meira þessar stofnanir. Við höfum Örnefnastofnun, við höfum Orðabók Háskólans, við höfum Menningarsjóð, við höfum Málvísindastofnun Háskólans. Nú skal ég ekki gerast sérfræðingur í þessu og hér er hv. þm. Bjarni Guðnason miklu betur að sér en ég, en ótti minn er sem sagt að þarna verði jafnvel of margir aðilar að vinna að því sama í stað þess að tækjabúnaður og starfsfólk nýttist betur í samvinnu.

Ég vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri vegna þess að mér finnst verulega óljóst hvort þessi málstöð er hugsuð sem stofnun eins og t. d. Orðabók Háskólans þar sem starfsfólk er viðlátið allan daginn og unnið er að veigamiklum verkefnum eða hvort þessi málstöð yrði aldrei annað en, eins konar íhlaupaverk manna sem væru að fást við önnur störf. Það má vel vera að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu þarna en ég held að þessar spurningar hljóti að leita á hugann þegar þetta frv. er lesið.