09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5598 í B-deild Alþingistíðinda. (4892)

341. mál, Íslensk málnefnd

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að svara nokkrum athugasemdum sem hér hafa komið fram og vil þá taka fram að spurningar og athugasemdir í ræðu hv. 10. landsk. þm., síðasta ræðumanns, voru að langmestu leyti á misskilningi byggðar. Hv. þm. spurði hvernig stofnun þetta yrði. Eins og ég tók raunar fram í framsöguræðu minni er ekki verið að setja nýja starfsemi á fót heldur verið að halda áfram starfsemi. Hv. 10. landsk. þm. spurði um atriði sem ég skýrði í frumræðu minni. Vil ég svara því núna. Þetta er ekki ný starfsemi heldur er verið að halda áfram starfsemi sem hefur verið rekin í mörg ár. Ekki er um það að ræða að opna nú skrifstofu þar sem starfslið sé við. Það er svo nú, slík skrifstofa hefur verið rekin í allmörg ár. Ætlunin er að lögfesta þessa starfsemi. Ekki er unnið að þessu verkefni í íhlaupum heldur hefur forstöðumaður þessarar skrifstofu, þ. e. formaður málnefndar, Baldur Jónsson dósent, verið í kennsluleyfi frá 1981 til þess að starfa að þessu verkefni alfarið. Þannig er þetta mál vaxið.

Að því er varðar útgáfustarfsemi nefndarinnar, sem hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni og að er vikið í 6. tl. 2. gr., vil ég t. d. nefna að nú í vetur kom út á vegum nefndarinnar sérstakt tölvuorðasafn sem er mjög þarft rit því að á því er veruleg hætta að tölvuvæðingin mengi íslenskt mál ef ekki er spyrnt við fótum í tæka tíð. Þarna hefur verið unnið mikilsvert starf og þetta orðasafn liggur fyrir. Þetta er nýyrðasafn og fleiri slík nýyrðasöfn væri mjög þarft að gefa út. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt og það er æskilegt að heimilt sé að afla sértekna fyrir stofnanir sem þær geta svo varið til þess að auka og bæta starfsemi sína. Það ætti að vera á fleiri sviðum hjá opinberum stofnunum.

Hv. þm. vék að því hvernig greina ætti á milli verkefna Orðabókar annars vegar og málnefndar hins vegar og svo á hinn bóginn Málvísindastofnunar annars vegar og málnefndar hins vegar. Að því er varðar verkefnaskiptingu milli Orðabókar og málnefndar þá er það svo að Orðabókin hefur löngum fengist við sögulegt orðasafn en málnefndin við nýyrði. Málnefndin hefur einnig um alllangan tíma unnið verulegt starf við máltölvun og er fyrsti aðili hér á landi mér vitanlega sem slíka starfsemi hefur rekið. Nú hefur málvísindastofnun einnig tekið tölvu í sína þjónustu og er það vel, en hún hefur aftur á móti mjög miklum vísindalegum verkefnum að gegna svo og rannsóknarverkefnum. Í þessu liggur aðalmunurinn á verkefnum þessara stofnana. Það má vera að í fljótu bragði virðist sum verkefni hugsanlega geta skarast en það er ekki annað en verið hefur á undanförnum árum.

Hér er verið að lögfesta tilvist þessarar starfsemi sem ég tel að verði með breyttum atvinnuháttum og þjóðlífsháttum æ nauðsynlegri í okkar þjóðfélagi. Ég vil undirstrika eitt verkefni t. d. sem málnefnd er hér ætlað, en það er umfjöllun um nýjar reglur, þegar þær eru settar um íslenskt mál. Það er mjög alvarlegur hlutur að unnt sé með ráðherrafyrirmælum án þess að spyrja kóng eða prest að umbylta íslenskri tungu, annaðhvort með stafsetningu, greinarmerkjasetningu eða á annan veg. Það er sjálfsagt að til séu fastar reglur um meðferð til þess að gera slíkar aðgerðir traustari. Það má vel vera að það þurfi að gera betur í því efni og skapa enn fastari reglur um þau efni í framtíðinni.

Að því er varðar athugasemdir hv. ræðumanns á undan hv. 10. landsk. vil ég sérstaklega benda á það að vitanlega hafa þær stofnanir, sem hv. þm. nefndi í máli sínu, fjallað um þetta efni og rætt þau í mörg herrans ár þó að ekki hafi legið fyrir þetta frv. Það var líka svo og mér er um það kunnugt að háskólarektor sendi heimspekideild þetta frv. þannig að það liggur þar til umfjöllunar. Þetta mál er ekki alveg nýstárlegt í þeirri stofnun þannig að það ætti ekki að taka ýkja langan tíma að koma með ábendingar um efnið.

Hitt er svo annað mál og varðar meira lagatækni í heild sinni, það sem hv. þm. nefndi um samband reglugerða og laga. Þar er aftur á móti vikið að máli sem ég gæti flutt um langa, langa tölu, en það verður ekki gert nú. Það er vissulega greinileg sú tilhneiging í lagasetningu á okkar landi og hefur verið nú í nokkur ár að það færist í vöxt að hafa í lögum ákvæði sem eiga heima í grg. frumvarpa fremur en í frumvörpum sjálfum. Mér finnst þessa gæta um of. En það er enn þá annað atriði en það sem ræðumaður minntist á, hann var að tala um samband laga og reglugerða. Þetta er út af fyrir sig atriði sem fjalla mætti um, en þau ákvæði sem þannig eru sett inn í lög fjalla þó um framkvæmd laganna. En þegar verið er að lögfesta ýmiss konar yfirlýsingar og stefnumið, sem eru matsatriði hverju sinni, þá hefur það harla litla þýðingu í framkvæmd og ég tel það ekki til bóta að lögfesta mikið af slíkum ákvæðum sem eru meira í ætt við alþjóðasamninga en lög sem eiga að koma til framkvæmda. Það er enn þá annað mál og er ekki hér á dagskrá, herra forseti. g bið afsökunar á því að ég freistaðist til að víkja að því. Það er e. t. v. tækifæri til að ræða það einhvern tíma síðar og í allt öðru samhengi.