09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5599 í B-deild Alþingistíðinda. (4894)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála segir að ríkisstj. muni taka til endurskoðunar löggjöf um viðskiptabanka og um Seðlabanka Íslands. Sömuleiðis segir í þeirri sömu grein að yfirstjórn bankanna skuli færð á eina hendi.

Unnið hefur verið mikið starf að endurskoðun bankalöggjafarinnar og hófst það reyndar í nefnd sem fyrrv. viðskrh. skipaði og haldið hefur áfram undir yfirstjórn núv. viðskrh. Sú nefnd hefur skilað frumvarpsdrögum sem eru til meðferðar hjá ríkisstj. Hins vegar þótti ekki rétt að leggja þau drög fram á þessu þingi. Það er skoðun okkar að málið þurfi að skoðast betur í þinghléi og er að því stefnt að slík heildarlöggjöf verði lögð fram í upphafi næsta þings.

Hins vegar þykir af ýmsum ástæðum rétt að framkvæma síðara ákvæði stjórnarsáttmálans, að færa yfirstjórn bankanna á eina hendi. Að ýmsu leyti er betra að vinna að þeirri samræmingu sem nauðsynleg er á bönkunum með þá alla á einni hendi. Má í því sambandi benda á aðfinnslur sem fram hafa komið um stofnun útibúa, sem núv. ríkisstj. varð að vísu í upphafi ásátt um að ekki yrðu fleiri nema ríkisstj. samþykkti. Sömuleiðis er ekki talið rétt að framkvæma ákvæði stjórnarsáttmála um flutning á afurðalánum til viðskiptabankanna nema að litlu leyti á meðan verkefnaskipting milli viðskiptabankanna er með þeim hætti sem hún er nú. Flutningur afurðalána mundi valda misjafnlega miklum erfiðleikum hjá viðskiptabönkunum eins og nú er. Af þessum og fleiri ástæðum er talið rétt að færa yfirstjórnina á eina hendi eins og stjórnarsáttmáli gerir ráð fyrir.

Undanfarin ár hefur mikið verið talað um fækkun ríkisbanka. Úr því hefur ekki orðið. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að að því beri að stefna. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að fækka eigi ríkisbönkum, en þó er ekki síður mikilvægt og kannske mikilvægara að um leið fari fram tilfærsla á verkefnum á milli bankanna þannig að þeir hafi sem jafnasta aðstöðu á hinum almenna útlánamarkaði.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta lengri framsögu, en vil geta þess, áður en ég lýk þessari framsöguræðu fyrir frv. um Búnaðarbanka Íslands, að um annað mál á dagskránni, Iðnaðarbanka Íslands, gilda sömu rök og óska ég ekki eftir því að flytja framsögu um það mál, en vísa til þess sem ég hef nú sagt um Búnaðarbankann og einnig til þeirrar tillögu, sem ég vil nú gera, að eftir þessa umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.