09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5603 í B-deild Alþingistíðinda. (4896)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um breyt. á lögum um Búnaðarbanka Íslands. Hv. 3. þm. Norðurl. e., sem er formaður bankaráðs Búnaðarbankans, hefur nú gert aths. við þetta frv. og lofar lengri ræðu síðar. Það er rétt að það er e. t. v. ekki ástæða til að flytja langt mál um þetta frv. nú, enda harla fátt um alþm. í þingsölum. Ég vil samt leyfa mér að gera um þetta nokkrar aths.

Á undanförnum árum hefur allmikið verið rætt um skipan bankamála hér á landi. Þá umræðu má rekja langt aftur í tímann. Ég hygg að óhætt sé að nefna 10–20 ár í því sambandi. Að undanförnu hefur enn einu sinni verið unnið að heildarendurskoðun löggjafarinnar um bankakerfið og hefur bankamálanefnd skilað tillögum sínum til ríkisstj. Þær tillögur eru nú til athugunar á sínum stað. En í þessu frv. er einn lítill angi úr því tillögusafni tekinn og um það flutt þetta frv., sem felur það í sér að yfirstjórn bankans færist í hendur þess ráðh. sem fer með bankamál og að yfirstjórn bankamála verði framvegis sameinuð í einu rn.

Það mun rétt vera að þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá 26.maí 1983. Þar er að því vikið að stefnt skuti að þessu skipulagi til frambúðar. Hins vegar er hvergi sagt hvenær það á að gerast á ferli ríkisstj. Hún er nú ekki nema tæplega ársgömul enn svo að ég ætla að hún búist við nokkrum árum í viðbót. Hvergi er sagt í stefnuyfirlýsingunni að þetta atriði skuli framkvæmt á fyrsta ári. Það er talið að þetta horfi til mikils hagræðis, augljósir séu kostir þess að allir viðskiptabankar heyri undir sama ráðh. og talað um að önnur skipan sé öldungis óeðlileg. Það er talið m. a. í grg. þessa frv. að núverandi skipan mála, þ. e. að hæstv. landbrh. fari með yfirstjórn Búnaðarbanka og iðnrh. með yfirstjórn Iðnaðarbanka, svo það sé nefnt í teiðinni, hafi átt sinn þátt í örri fjölgun bankaútibúa á undanförnum árum. Ég tel að um þetta séu nokkuð skiptar skoðanir. Að vísu hefur verið viðhöfð nokkuð hörð gagnrýni um allt of mikla fjölgun útibúa og peningastofnana á liðnum árum. Ég hygg þó að þegar þessi mál eru skoðuð og krufin til mergjar megi nú sitt hvað um þau segja á báða bóga. A. m. k. veit ég það um Búnaðarbankann að stjórn hans hefur aldrei óskað eftir því að setja upp útibú þar sem hann hefur ekki verið velkominn. Stofnun útibúa út um byggðir landsins hefur yfirleitt farið fram með þeim hætti að heimamenn hafa óskað þess eindregið að bankinn kæmi og starfaði á viðkomandi stað. Þess vegna hefur það oft gerst að í stað þess að á ákveðnum stað, á ákveðnu svæði, starfaði sparisjóður frá gamalli tíð, þá hefur sá sparisjóður gert um það samning við Búnaðarbankann að framvegis yrði samvinna þessara aðila og rekið útibú frá Búnaðarbanka Íslands. Á þann hátt hefur þetta oftast nær verið, að peningastofnunum hefur ekki fjölgað, þær hafa aðeins skipt um form að þessu leyti.

Við vitum að margir af sparisjóðum okkar eiga langa og merka sögu að baki, sumir allt að hundrað árum eða þar yfir. Saga þeirra er gagnmerk, en margir þeirra voru það litlir að enda þótt þeir gætu rekið sitt hlutverk ágætlega framan af þessari öld hafa viðhorfin breyst svo nú að varla þykir fært annað en að í hverju byggðarlagi sem eitthvað blaktir, þar sem atvinnustarfsemi er allmikil og peningaviðskipti hröð, — þá þykir varla annað við hæfi en þar starfi bankaútibú eða a. m. k. einhver peningastofnun sem fær er um að sinna atvinnulífinu og þeim íbúum sem þar búa.

Ég vil geta þess að Búnaðarbankinn hefur ekki óskað eftir því að stofna ný eða fleiri útibú frá því sem nú er. Hvarvetna sem Búnaðarbankanum hefur verið heimilað að reka starfsemi á tilteknu svæði hefur hann sinnt öllum þörfum atvinnulífsins í byggðarlaginu. Það er rétt að hver viðskiptabanki á auðvitað að sinna atvinnulífinu í heild þar sem hann starfar en ekki vera að miklu leyti bundinn þjónustu við tiltekna atvinnugrein, atvinnurekstur eða hagsmunahópa. Ég get fullyrt að þar sem Búnaðarbankinn starfar tekur hann fullt tillit til allra þátta atvinnulífsins og þar sem honum hefur verið valinn staður við sjávarsíðuna, á útgerðarstöðum, hefur hann sinnt sjávarútveginum ekki síður en öðrum atvinnugreinum. M. ö. o. að Búnaðarbankinn er fyrir löngu, þó að hann sé kenndur við búnað eða landbúnað, orðinn alhliða viðskiptabanki sem sinnir þörfum einstaklinga og atvinnugreina á hverjum stað. Það væri mjög fróðlegt að skýra frá og fjalla um töflu um lánaflokkun eða hlutföll úttána sem Seðlabankinn tók saman um s. l. áramót. Hún sýnir gjörla hvernig útlán ríkisbankanna skiptast milli tiltekinna atvinnugreina. En það er kannske ástæðulaust að messa yfir þeim fáu hv. alþm. sem hér hafa enn þá viðdvöl, að eyða löngum tíma í þetta. Eigi að síður er það hægt og verður kannske gert við síðari umr. málsins því þar mun ýmislegt koma fram ef menn nenna að hlusta á þá skýrslu og hugleiða hana. Þá mun eitt og annað koma fram sem hv. alþm. hafa, að ég held, ekki gert sér fulla grein fyrir. Og þá mun það verða deginum ljósara að Búnaðarbankinn er alhliða viðskiptabanki.

Ég veit að það hefur verið ofarlega í hugum manna bæði nú og fyrr að sameina banka og fækka ríkisbönkunum. Ég hef aldrei fordæmt þá kenningu eða þær skoðanir. Á hinn bóginn hef ég ásamt fleirum óskað eftir því að reynt yrði að leggja á borðið hvort af þessu yrði mikill sparnaður eða hagræðing að öðru leyti. Það er talið í grg. að bankamálanefndin hafi verið sammála um að sameining viðskiptabanka væri til mikilla hagsbóta og þá væntanlega til mikils sparnaðar. En ég hygg nú satt að segja að aldrei hafi verið lögð skýlaus gögn á borðið að því er þetta varðar og mætti margt um það segja. Þess vegna verð ég að láta þá skoðun mína í ljós að ég tel óeðlilegt að taka þetta eina atriði út úr áliti bankamálanefndar. Mér finnst að það hefði mátt bíða ásamt áliti bankamálanefndarinnar í heild, sem vafalaust verður tekið til rækilegrar meðferðar og umr. á næsta þingi, á haustþinginu. Það er margt sem þarf að athuga í þessu efni. Búnaðarbankinn er nú 54 ára gamall og það gerist margt á langri leið. Hann hefur þróast á sinn hátt. Ég hygg að margir telji að sú þróun hafi verið býsna jákvæð á margan veg. Hér er eitt með öðru að athuga. Það eru lagaákvæði, sérstök ákvæði, um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Hún starfar nú á grundvelli laga nr. 45 frá 1971 ásamt síðari breytingum. Mér skilst að allir sem um þetta hafa eitthvað fjallað séu á því máli að Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi hér eftir sem hingað til að lúta yfirstjórn landbrh. Við í yfirstjórn Búnaðarbankans höfum á liðnum árum og áratugum alltaf lagt mjög ríka áherslu á það að Stofnlánadeild landbúnaðarins væri ein af höfuðdeildum Búnaðarbankans. Við höfum reynt að skýra það mál og styðja rökum, að mjög vel fari á því að þetta samband sé náið. Búnaðarbankinn hleypur undir bagga með stofnlánadeildinni þegar hún þarf á að halda, þegar nauðsyn krefur. Jafnframt styrkir stofnlánadeildin að sjálfsögðu Búnaðarbanka Íslands. Þess vegna höfum við lagt megináherslu á að stofnlánadeildin yrði hér eftir sem hingað til undir sömu yfirstjórn og bankinn sjálfur.

Þessi atriði vildi ég sérstaklega gera að umræðuefni. En þar sem klukkan er nú þegar orðin hálfátta og menn fara að þreytast á löngum ræðum held ég að þessi orð verði ekki fleiri að sinni. Ég ætla ekki að lofa langri ræðu við 2. umr. málsins, eins og hv. formaður bankaráðs gerði. Þó má það vel vera. Það veltur á því hvað kemur upp í málinu við nánari athugun þess.