10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5607 í B-deild Alþingistíðinda. (4907)

Um þingsköp

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að vera vitni að því, a. m. k. öðru hverju, að það leynist eitthvert líf með Alþfl., a. m. k. þingflokksformanninum. En svo að ég víki sérstaklega að þessari umr. þá hefur hann reyndar rifjað upp hvernig þetta mál bar að og einnig hvernig um það hefur verið fjallað í landbn. Ed. Alþingis.

Málið var sent allmörgum aðilum til umsagnar og umsagnir bárust fljótlega upp úr að þing hóf störf sín að loknu jólaleyfi alþm. Síðasta umsögnin barst þegar Búnaðarþing hafði lokið sínum störfum. Þessar umsagnir voru með tvennum hætti. Annars vegar voru þær jákvæðar gagnvart samþykkt frv. en hins vegar bentu þær á að framleiðsluráðslögin væru í heild sinni í endurskoðun af þar til kvaddri stjórnskipaðri nefnd og þar af leiðandi væri það hinn eðlilegi vettvangur að fjalla um þessi tilskildu frv. sem hafa verið flutt til breytinga á framleiðsluráðslögunum í sambandi við þá endurskoðun. M. a. með tilliti til þess gerði ég það að tillögu minni, þegar umr. fór fram um afgreiðslu málsins í landbn. Ed. Alþingis, að till. þremur sem fjalla um þessar breytingar yrði vísað til ríkisstj. og þá með því orðalagi að við endurskoðun á framleiðsluráðslögunum yrði um þær fjallað með tilliti til þess að efnisatriði þessara frv. yrðu þar upp tekin eftir atvikum.

Þetta tilkynnti ég hv. 1. flm. Eiði Guðnasyni, og annar 1. flm. að frv. um breytingu á framleiðsluráðslögunum, Eyjólfur Konráð Jónsson, tók við uppkasti að bókun frá mér um frv. sem hann óskaði að hafa hjá sér fram yfir páskaleyfi og athuga í samráði við Eið Guðnason hvort þeir féllust á þessa málsmeðferð. Þetta var till. mín um afgreiðslu málsins í Ed. Alþingis. Þegar ég kom aftur til baka þá sagði hv. þm. Eiður Guðnason mér það, að hann kysi frekar að málið lægi óafgreitt en að það yrði afgreitt með þeim hætti sem ég hafði lagt til. Ritari landbn. Ed. Alþingis sagði m. a. frá því, svo að fleiri eru vitni að, að með því að Eiður Guðnason hefði valið þann kostinn að láta sitt frv. bíða heldur en að afgreiða það með tilvísan til ríkisstj., þá óskaði hann eftir því að sitt mál hlyti sömu afgreiðslu. Báðir þessir menn hafa þannig fallist á þá málsmeðferð sem ég lagði til að yrði höfð í landbn. Ed. Alþingis. Og satt að segja fékk það nánast einróma undirtektir að því er ég met, nema þá helst hjá Eyjólfi Konráði Jónssyni sem tók sér þennan frest.

Þá var aðeins eftir eitt málið af þessum þremur. Það var till. BJ, og ég hafði samband við 1. flm. þess máls um það, hvort hann óskaði að mál hans yrðu afgreidd með sama hætti. Hann gat þess að þá stæði fyrir dyrum fundur hjá BJ og eftir það gæti hann svarað mér um þetta. Það svar hefur enn ekki borist enda hefur ekki eftir því verið leitað. Svona standa nú þessi mál.

Það er svo annað mál, sem er náttúrlega alveg nauðsynlegt að rifja hér upp líka, að í þingflokkum fer eðlilega fram umræða um afgreiðslu mála. Það hefur verið æðimikið að gera í þingflokkum að undanförnu, a. m. k. í þingflokki Sjálfstfl., og ég hef ekki fengið mín mál þar öll útrædd. Þessi mál voru m. a. rædd í þingflokknum í gær, en þau voru þar ekki útrædd. Svo einföld eru þessi mál. Það hefði því verið a. m. k. alveg óhætt fyrir hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að hætta sínum hlaupagangi í kringum nefndarstörf í morgun og þau vinnubrögð sem hann viðhafði í landbn. Ed. Alþingis voru honum sett að segja ekki til mikils sóma. Ég tel það ekki merkilegt hlutverk fyrir þm. Sjálfstfl. að vera sérstakur hlaupasnati fyrir Alþfl.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. Ég hef skýrt það út með mjög nákvæmum hætti hvernig það hefur verið unnið í Ed. Alþingis. Þingflokkur Sjálfstfl. gerir út um það hvort þessi mál verða flutt og með hvaða hætti og þá skýrist málið.