10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5609 í B-deild Alþingistíðinda. (4910)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þau ummæli sem hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson viðhafði hér um þingbróður sinn og flokksbróður, hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólf Konráð Jónsson, eru með því ómaklegasta og óþinglegasta sem ég hef heyrt nokkurn mann segja hér úr þessum ræðustól. Ég hef starfað í vetur í fjh.- og viðskn. Ed. þar sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er formaður. Sú n. hefur haldið um 40 fundi. Undir hans stjórn hafa verið lýðræðisleg vinnubrögð. Það hafa verið lýðræðisleg vinnubrögð og til fyrirmyndar í hvívetna. Ef allir nefndarformenn hér á hinu háa Alþingi störfuðu með sömu ágætum og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem formaður í fjh.- og viðskn. hefur gert og afgreiddu mál með sama hraða og jafn lýðræðislega, þá væri staðan hér öðruvísi nú við þinglokin. Ég ítreka það, herra forseti, að þetta eru einhver ómaklegustu ummæli sem ég hef heyrt nokkurn þm. láta falla um þingbróður sinn hér í ræðustól. Ég skil satt að segja ekki hvað mönnum gengur til með slíkum málflutningi. Menn geta haft um hann ýmis orð en a. m. k. er hann ekki drengilegur.

Varðandi það svo sem hv. þm. Egill Jónsson sagði um afgreiðslu þess máls sem ég gerði að umtalsefni hér áðan er það auðvitað rétt að oft velta menn því fyrir sér hvort sé vænlegri kostur, að láta mál daga uppi í n. eins og það heitir, eða drepa það með því að vísa til ríkisstj. Ég hugsaði um þetta þegar mér bárust skilaboð um að völ væri á þessu. Ég tek það fram að það var ekki formaður n., hv. þm. Egill Jónsson, sem talaði um það við mig. En þriðji kosturinn var auðvitað alltaf fyrir hendi og hann var sá að óska eftir því að málið yrði látið ganga til atkv. Ég veit ekki til hvers við erum að leggja hér fram mál og vísa þeim til n. í athugun ef þau eiga ekki að koma þaðan aftur svo að þm. geti tjáð sig um þau. Til hvers erum við kjörnir til starfa á hinu háa Alþingi? Mín niðurstaða varð sú að láta þetta mál ganga til atkvæða. En mér hafa engin skilaboð borist um þetta mál frá formanni. Mér barst vitneskja um það frá öðrum nm., það er alveg rétt. Þetta er sem sagt nákvæmlega staða málsins. Og ég ítreka það, að þetta mál á auðvitað að fá að ganga hér til atkvæða eins og önnur mál. Menn geta valið ýmsar leiðir til að ná sínum málum fram, og hv. þm. Egill Jónsson veit auðvitað hvernig mál ganga fyrir sig, en ég hygg bara hreint út talað að honum sé ekkert sérstakt kappsmál að þetta mál nái fram að ganga. Ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi sérstakan áhuga á því. Og kannske endurspeglast það í störfum hans sem formanns n., kannske.

Ég ætla, herra forseti, að sinni ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég endurtek það enn einu sinni að ég vonast til að þurfa ekki að sitja hér og hlýða á þm. tala með þeim hætti um aðra þm. sem hér var gert áðan.