10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5613 í B-deild Alþingistíðinda. (4918)

267. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Á þskj. 512 flytjum við þm. Alþfl. till. til þál. um afnám tekjuskatts af launatekjum. Í þessu sambandi hljóta menn að spyrja sig fyrst þeirrar spurningar: Hvers konar skattur er tekjuskatturinn, hvaða hlutverki gegnir hann í hagkerfinu hjá okkur? Því er fljótsvarað, að honum er í fyrsta lagi ætlað að afla tekna til ríkisins til sameiginlegra þarfa, en í annan stað hefur verið litið á hlutverk skattsins sem tekju- og afkomujöfnunartækis í þjóðfélaginu. M. a. af þessum sökum lögðu jafnaðarmenn framan af mikla áherslu á notkun tekjuskattsins sem tækis við hagstjórn, ekki bara til tekjuöflunar heldur líka til þess að jafna kjörin í landinu, og að skatturinn væri þannig úr garði gerður að hann færi stighækkandi með vaxandi tekjum.

Markmiðið var þannig alveg augljóst og margir taka nú orðið undir þau markmið, sem jafnaðarmenn settu sér í upphafi í þessum efnum um að jafna kjörin í þjóðfélaginu, og benda einmitt á þessar röksemdir fyrir því að vera með tekjuskattinn. En ef við lítum örlítið nánar á þetta atriði og svipumst um í kringum okkur verðum við þess greinilega vör að þjóðfélagið hefur breyst svo mjög að það markmið sem menn settu sér í upphafi varðandi það að ná jöfnuði með tekjuskattinum er úrelt orðið. Hann hefur í þess stað á undanförnum árum, og gerir í sífellt vaxandi mæli, stuðlað að misrétti í þjóðfélaginu. Hann gerir það. Við sjáum þess greinilega merki vegna þess að það eru svo margir hópar í þjóðfélaginu sem komast greinilega undan því að borga eðlilegan tekjuskatt, a. m. k. ef tekið er mið af því hvernig lífsstíl þeir temja sér.

Þá er þannig komið, að það tæki sem menn ætluðu til þess að jafna kjörin í landinu er farið að valda miklu misrétti, mér liggur við að segja argasta órétti. Þegar svo er komið hljóta menn að endurskoða afstöðu sína til þessa skatts. Það er það sem við Alþfl.-menn höfum gert. Á mörgum undanförnum árum höfum við flutt till. um það í einu eða öðru formi að leggja niður tekjuskattinn, oftast í því formi að hann yrði lagður niður af almennum launatekjum.

Samkv. þeirri till. til þál. sem hér er flutt gerum við ráð fyrir að hann yrði afnuminn af öllum launatekjum. Skýringin á því er m. a. sú, að við teljum að það sé nauðsynlegt að menn taki grundvallarákvörðun um hvort menn telji að tekjuskatturinn sé ekki orðinn svo óréttlátur, að það sé ekki rétt að vera með hann sem álagningarstofn á fólkið í landinu. Það er þetta sem liggur til grundvallar hjá okkur. Þess vegna leggjum við til að það verði kannað alveg sérstaklega samkv. þessari þál. að afnema tekjuskatt af launatekjum.

Nú er það vitaskuld hugmynd okkar að atvinnurekstur greiði áfram tekjuskatt, og þá hlýtur það að gilda um atvinnurekstur í hvaða formi svo sem hann er, hvort sem hann er á vegum einkaaðila eða á félagaformi.

Við teljum líka, Alþfl.-menn, að þetta verk eigi að vera þeim mun auðunnara þar sem tekjuskatturinn er ekki lengur mjög stór þáttur í tekjum ríkisins. Hann hefur verið á bilinu 10–13% af tekjum ríkisins á undanförnum árum. M. ö. o. kemur langstærstur hluti af tekjum ríkisins úr öðrum áttum. Þess vegna ætti það viðfangsefni að deila byrðunum upp á nýtt, miðað við að tekjuskatturinn sé ekki tekjustofn til ríkisins og sé ekki lagður á almennar launatekjur, að verða þeim mun léttara.

Okkar skoðun er sú, eins og rakið er í grg. með þessari þáltill., að það sé rétt að taka grundvallarákvörðun um að tekjuskattur verði ekki lagður á launatekjur. Texti till. er hins vegar saminn með tilliti til þess að það megi sem frekast takast að ná almennri samstöðu hér í þinginu um þetta mál. Þess vegna er textinn sá, að Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja frv. til laga um afnám tekjuskatts af launatekjum ásamt grg. og leggja það fyrir næsta löggjafarþing. Hugmyndin er sú, að þegar slík till. lægi fyrir, og í henni koma vitaskuld fyrir ýmis tæknileg atriði, vegna þess að atvinnureksturinn á áfram, í hvaða formi sem hann er, að greiða tekjuskatt samkv. þessum hugmyndum, gæfist einnig þar tækifæri til að líta á rök og gagnrök í málinu og ríkisstj. gæti þar litið á þau atriði, sem hún teldi nauðsynlegt að koma til skila í þessu sambandi, þar á meðal hvort menn teldu nauðsynlegt að nálgast þetta verkefni í einhverjum áföngum.

Það er von okkar flm. að með því að flytja málið í þessum búningi, og það er nýjung af okkar hálfu að flytja það í þessum búningi, verði auðveldara að ná samstöðu um málið og þess er freistað með þessari till.

Við teljum að það sé fyllilega tímabært, eftir allar þær umr. sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu um þetta mál, að því verði meiri gaumur gefinn af hálfu ríkisvaldsins en hefur verið að undanförnu.

Nú er það svo, herra forseti, að stuðningur við þessa hugmynd kemur ekki einungis frá Alþfl.-mönnum, heldur höfum við orðið þess varir að hún nýtur víðtæks stuðnings í öðrum flokkum líka, m. a. og kannske ekki síst í Sjálfstfl. Hér liggur fyrir þinginu till. frá nokkrum þm. Sjálfstfl. sem gengur að hluta til í sömu átt eins og þessi. Manni sýnist því að það sé verulegur stuðningur við þessar hugmyndir innan þingsins.

Herra forseti. Ég vil að lokum árétta það, sem oft hefur komið fram í málflutningi okkar Alþfl.-manna og ýmissa annarra reyndar líka, að tekjuskatturinn, eins og hann er á lagður nú á einstaklinga, er fyrst og fremst skattur á launafólk, en það blasir við hvarvetna í þjóðféfaginu að aðrir hópar, sem með einum eða öðrum hætti, löglegum eða ólöglegum, hafa tækifæri til þess að ráða því sjálfir hversu miklar tekjur þeir telja fram til skatts, greiða lágan eða jafnvel engan tekjuskatt þó þeir hafi greinilega verulega fjármuni milli handanna og geti tileinkað sér háan lífsstíl. Menn hafa í leit að réttlæti í skattalögunum sett sífellt flóknari reglur um framkvæmd þeirra. En einmitt um leið og menn hafa leitað réttlætisins með þessum hætti hafa menn á ýmsan hátt aukið misréttið, þannig að úr því réttlæti sem menn sóttust eftir hefur oft orðið argasta óréttlæti vegna þess m. a. að nýjar smugur opnuðust jafnóðum og upp í aðrar var fyllt. Það er af þessum sökum, það er vegna þess að við sjáum óréttlætið í tekjuskattinum af launatekjum, sem þessi till. er flutt.

Ég vil að lokum, herra forseti, einungis leggja áherslu á að með því að fara þá leið, sem flutt er í þessu frv., ætti að gefast tækifæri til ítarlegrar umfjöllunar um málið á Alþingi á grundvelli þeirrar faglegu vinnu sem yrði unnin af hálfu ríkisstj. Það gerir málið vitanlega auðveldara viðfangs. Og ég vænti þess að menn geti sameinast um þetta þjóðþrifamál.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn. og hljóti þar góða umfjöllun.