10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5615 í B-deild Alþingistíðinda. (4920)

270. mál, afnám tekjuskatts á almennum launatekjum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að tekjuskatturinn er ranglátasti skatturinn sem lagður er á hér á landi. Það er vegna þess að hann er fyrst og fremst skattur á launþega, og þá sér í lagi á starfsmenn ríkis og bæjarfélaga, jafnframt því að það er alkunna að aðrir .hópar ýmsir í þjóðfélaginu borga minni tekjuskatt en þeim ber og raunar sumir alls engan. Þetta óviðunandi ástand leiðir af eðli þeirrar skattheimtu sem við búum við í dag, skattkerfi sem á sér rætur í fortíðinni en hæfir ekki nútímaaðstæðum í þjóðfélaginu. Afleiðingin er sú að tekjuskatturinn leggst með miklum þunga á tiltölulega launalágar stéttir en margir aðrir sem betur mega sín búa við miklu léttvægari skattbyrði.

Skattastefnan í þjóðfélaginu hefur sífellt gengið í átt til óbeinna skatta á undanförnum árum. Það er vegna þess að menn hafa í vaxandi mæli talið það æskilegt að skattleggja neysluna í stað þess að taka ákveðna prósentu af tekjum manna til ríkisins án tillits til þess hverjar aðstæður þeirra eru að flestu leyti. Tekjuskatturinn sker sig úr í þessu efni og vegna þess hve erfitt hefur reynst á undanförnum árum að leggja hann á með jafnræði, sem er grundvallarregla skattalaga, á alla landsmenn hafa launamenn orðið að greiða hann af tekjum sínum í miklu þyngra mæli en ella hefði verið og eðlilegt getur talist. Þetta eru meginástæðurnar til þess að Sjálfstfl. hefur staðið að þeirri stefnumörkun á síðustu misserum að það sé réttlætismál að tekjuskatturinn verði afnuminn á almennum launatekjum.

Í kosningastefnuskrá flokksins á síðasta vori sagði eftirfarandi um þetta efni, með leyfi forseta: „Tekjuskattur á almennar launatekjur verði afnuminn, jafnframt því sem persónufrádráttur nýtist láglaunafólki að fullu. Tekjum hjóna verði skipt á milli þeirra fyrir álagningu skatts.“

Þessari stefnu hélt Sjálfstfl. fram í stjórnarmyndunarviðræðunum að kosningunum loknum og í samkomulagi núv. stjórnarflokka við myndun ríkisstj. segir um þetta atriði að miða skuli að afnámi tekjuskattsins á almennum launatekjum og að tekjur hjóna skuli jafnaðar fyrir skattlagningu.

Í framhaldi af þessu ályktaði 15. landsfundur Sjálfstfl. einnig um skattamál en hann var haldinn sex mánuðum eftir kosningar í nóvembermánuði s. l. Í ályktun landsfundarins sagði orðrétt um afnám tekjuskattsins, með leyfi forseta: „Tekjuskattur af almennum launatekjum verði afnuminn í áföngum.“

Svo sem sjá má af þessu liggur það ljóst fyrir hver er ætlan og vilji Sjálfstfl. í þessum efnum og raunar ríkisstj. allrar, þ. e. að launamannaskatturinn, tekjuskatturinn, verði afnuminn á almennum launatekjum nú á næstunni. Það er margítrekað markmið sem ekki verður horfið frá. En þá er eðlilegt að spurt sé: Hvað líður framkvæmd þessa fyrirheits sem gefið var á s. l. vori? Hvað dvelur Orminn langa í þeim efnum? Ég held að það sé ekki vafi á því að fullur vilji var fyrir því að hefja framkvæmd á þessu ákvæði stjórnarsáttmálans þegar á síðasta sumri eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Fyrsta skrefið var raunar stigið strax á þeim tíma þegar ríkisstj. létti persónubundnum sköttum af landsmönnum sem námu alls 250 millj. kr. Var það einn liðurinn í efnahagsráðstöfunum ríkisstj., svo sem menn muna, sem þá komu til framkvæmda.

Það var hins vegar fljótt ljóst þegar í ljós kom hvert var ástandið í ríkisfjármálunum á síðasta sumri að ekki mundi mikið ráðrúm gefast til annarra skattalækkana við gerð fyrstu fjárlaga þessarar ríkisstj. Við það bættist síðan fyrirsjáanlegur aflabrestur í sjávarútvegi og áframhaldandi minnkun þjóðartekna annað árið í röð. Við þessar aðstæður í þjóðfélaginu reyndist óhjákvæmilegt að fara hægar í sakirnar en upphaflega hafði ráð verið fyrir gert. Dreg ég enga dul á það að það olli vonbrigðum okkar sjálfstæðismanna og annarra stuðningsmanna ríkisstj. Á hinn bóginn tókst að haga málum svo að þrátt fyrir hið ógnvænlega ástand í stöðu ríkisbúsins var ekki gripið til nýrra skattaálaga heldur er skattbyrði tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds hin sama í heildartekjum greiðsluárs á þessu ári og hún var á síðasta ári, 1983. Miðað við afkomu ríkissjóðs má telja það nokkurn áfanga, þar sem jafnan hefur áður verið gripið til verulegra skattahækkana við sams konar eða sambærilegar aðstæður. Jafnvel nú á þessum síðustu vikum, er fjárhagsvandi ríkissjóðs hefur verið til umfjöllunar, hefur því markmiði verið fylgt að leysa þann vanda án nýrra skatta svo sem kunnugt er og er sú lausn þó á engan hátt óumdeild.

Innan skamms munu störf hefjast við gerð nýrra fjárlaga fyrir árið 1985. Það er því orðið tímabært að hefjast handa um framkvæmd þeirra áætlana sem gerðar voru á síðasta vori um lækkun tekjuskattsins á almennum launatekjum. Það er ástæðan til þess að ég hef borið fram eftirfarandi þáltill. á þskj. 516 ásamt 5 öðrum þm. Sjálfstfl.:

„Alþingi ályktar að skora á fjmrh. að skipa nefnd þriggja manna til þess að gera tillögur um á hvern hátt hagræða megi og spara í rekstri ríkisins og ríkisstofnana með tilliti til þess að tekjuskattur verði afnuminn í áföngum á almennum launatekjum. Skulu tillögur nefndarinnar lagðar fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.“

Meðflm. mínir að till. þessari eru þeir Friðrik Sophusson, Salome Þorkelsdóttir, Eggert Haukdal, Pétur Sigurðsson og Ólafur G. Einarsson.

Svo sem í till. segir er ráð fyrir því gert að tillögur nefndarinnar verði lagðar fram í upphafi næsta þings og verði þá grundvöllur þess að unnt sé að hefjast handa um lækkun tekjuskattsins og afnám hans í áföngum. Hagræðing og sparnaður í rekstri ríkisins er ein meginforsenda þess að þar náist árangur og því er að þeim atriðum sérstaklega vikið í till. Það fer vitanlega eftir framvindunni í efnahagsmálum þjóðarinnar hve skjótum árangri verður unnt að ná í þessum efnum. Það er augljóst að ekki árar vel fyrir framkvæmd skattalækkana meðan atvinnu- og efnahagslífið er í slíkum öldudal sem verið hefur og á tímum minnkandi þjóðartekna. Engu að síður er hér um svo mikilvægt stefnumark að ræða, svo mikilvægt hagsmunamál launþega í landinu, að ekki verður því öllu lengur skotið á frest að hefjast hér handa.

Ef við lítum nokkru nánar á það hvað felst í þeirri þáltill. sem hér er til umr. má fyrst nefna að þar er rætt um almennar launatekjur. Almennar launatekjur hafa ekki enn verið skilgreindar sem eitt ákveðið tekjumark en í því efni er ekki óeðlilegt að miðað sé við tekjur iðnaðarmanna, sjómanna og verkamanna sem upplýsingar liggja fyrir um hjá kjararannsóknanefnd. Einnig má hafa stuðning af því hverjar meðaltekjur landsmanna hafa verið þegar hugað er að því við hvaða tekjumörk eigi hér að miða. Skv. upplýsingum hagdeildar Framkvæmdastofnunar voru meðaltekjur á árinu 1982 172 þús. kr. Nákvæmar tölur um meðaltekjur á síðasta ári liggja ekki enn fyrir, en þær eru áætlaðar 270–300 þús. kr. eða um 25 þús. kr. á mánuði. Á þessu ári mundi sambærileg tala vera u. þ. b. 30 þús. kr. á mánuði.

Ef litið er í framhaldi af þessu á fjölda framteljenda á árinu 1983 kemur í ljós að þeir sem höfðu 300 þús. kr. árstekjur, þ. e. meðaltekjur Íslendinga á því ári eða minna voru alls 137 700. Framteljendur, sem höfðu yfir 300 þús. kr. árstekjur á síðasta ári, voru hins vegar aðeins 32 100. Af þessum tölum er ljóst að ef tekjumarkið við afnám tekjuskattsins væri sett við meðaltekjur manna — án þess að ég sé hér að gera sérstaka tillögu um það tekjumark, það má vera að mönnum finnist það heldur lágt — mundu engu að síður um 80% skattgreiðenda hafa orðið tekjuskattslausir á þessu ári. Sýnir þetta glöggt hve mikilvægt mál er hér á ferðinni fyrir þorra landsmanna.

Þegar rætt er um afnám tekjuskattsins á almennum launatekjum er óhjákvæmilegt að reyna að gera sér nokkra grein fyrir því jafnframt — og annað væri í rauninni ábyrgðarleysi — hvaða áhrif slík ráðstöfun mundi hafa á tekjuöflun ríkissjóðs. Tvær spurningar eru þar efstar á blaði. Í fyrsta lagi: Hve mikið er hægt að spara í ríkisrekstrinum til þess að mæta slíkum skattalækkunum? Í öðru lagi: Á hvern hátt er hægt að bæta ríkissjóði það tekjutap sem hann verður óhjákvæmilega fyrir og ekki er unnt að vinna upp með hagræðingu og sparnaði?

Hér er mergurinn málsins sá að mikilvægi tekjuskattsins í fjáröflun ríkissjóðs hefur farið æ minnkandi á undanförnum árum. Beinir skattar hafa verið á undanhaldi en óbeinir komið í staðinn. Ef litið er á fjárlög þessa árs kemur í ljós að þar eru beinir skattar samtals áætlaðir 2 milljarðar og 900 millj. kr. Af þeim er tekjuskatturinn á einstaklinga áætlaður 1 milljarður og 790 millj. kr. Óbeinir skattar eru hins vegar áætlaðir alls 14.5 milljarðar kr.

Af þessum tölum sést að tekjuskattur einstaklinga er ekki nema um eða innan við 10% af tekjum ríkissjóðs. Sú staðreynd ber það með sér að hér er hægra um vik um lækkun þessa skattstofns en ella væri þar sem aðrir tekjustofnar standa undir þorra útgjalda ríkissjóðs. Ég gat um það áðan að í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér á hvern hátt tekjutapi ríkissjóðs yrði mætt og nefndi að þar yrði fyrst og fremst um þessar tvær leiðir að ræða, sparnað í rekstri ríkisins eða nýja tekjustofna. Skynsamlegast væri ugglaust að fara báðar þessar leiðir til þess að ná því markmiði sem hér er talað um. Ekki er á þessari stundu hægt að fullyrða um það hvert tekjutap ríkissjóðs yrði við afnám tekjuskattsins á almennum launatekjum en ætla má að afnám hans á þeim hefði í för með sér að tekjurnar mundu lækka u. þ. b. um einn milljarð kr. miðað við þetta ár.

Beinast liggur við að mæta því tekjutapi ríkissjóðs með sparnaði og niðurskurði í ríkisrekstrinum. Einhver mun eflaust segja að það sé ekki vinnandi vegur, það sé einfaldlega ekki hægt. Sú fullyrðing fær þó ekki staðist. Þessa dagana liggur fyrir Alþingi frv., bandormurinn víðkunni, um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem gert er ráð fyrir að spara og skera niður ríkisútgjöldin um tæpan milljarð kr. Það sýnir að slíkar ráðstafanir eru framkvæmanlegar ef vilji er fyrir hendi. Það er einmitt kjarni þessarar þál. að slíkar ráðstafanir verði undirbúnar og komi til framkvæmda strax á næsta ári. Þar við bætist að unnt er að vinna að þessu máli í áföngum ef menn vilja afnema tekjuskattinn í áföngum, t. d. á tveggja eða þriggja ára tímabili. Yrði þá um sparnað og niðurskurð að ræða sem ekki þyrfti að nema nema 300–500 millj. kr. á ári eftir því hve hratt væri farið í sakirnar.

Ég held að engum blandist hugur um það að slík áætlun er í fyllsta máta framkvæmanleg án þess að til vandkvæða og röskunar þurfi að leiða í ríkisfjármálum þegar á heildina er litið.

Sú leið kemur einnig hér til greina að sameina sparnaðarleiðina og nýja tekjustofna til þess að vega upp á móti tekjutapi ríkissjóðs við afnám tekjuskattsins. Þá á hiklaust að fara leið óbeinna skatta sem miklu réttlátari eru og léttbærari fyrir hinn almenna launþega eins og hér hefur áður verið bent á. Í því sambandi er fróðlegt að hafa það í huga sem dæmi í þessu efni að hvert söluskattsstig gefur ríkissjóði rúmlega 300 millj. kr. í tekjur. Það sýnir að ekki þarf að koma til nema sáralítil hækkun óbeinna skatta til þess að vega upp á móti afnámi tekjuskattsins og því minni sem sparnaði og niðurskurði ríkisútgjalda er beitt í meira mæli. Miðað við að tekjuskatturinn á almennar launatekjur verði afnuminn t. d. á þremur árum verður árlegt tekjutap ríkissjóðs ekki nema 300–400 millj. kr. miðað við stöðuna í dag. Það sýnir glöggt og ótvírætt að hér er ekki um neinn óyfirstíganlegan vanda að ræða heldur mál sem öll tök eru á að framkvæma sé pólitískur vilji fyrir hendi.

Á annað atriði er rétt að minnast í þessu sambandi. Það eru augljós rök fyrir afnámi tekjuskattsins að við það munu ráðstöfunartekjur alls almennings í landinu aukast verulega. Það hlýtur að hafa bein áhrif á samninga launþega um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði þar sem afnám tekjuskattsins veldur umtalsverðri kaupmáttaraukningu. Slíkt er ekki lítils virði í áframhaldandi baráttu við verðbólgu í landinu og framhald skynsamlegrar efnahagsstjórnar. Jafnframt mun tekjuskattsbreytingin hafa í för með sér aukna veltu í þjóðfélaginu sem augljóst er. Það mun tvímælalaust hafa hagstæð áhrif í för með sér, ekki síst fyrir iðnað, verslun og þjónustugreinar. Sú veltuaukning mun jafnframt auka tekjur ríkissjóðs og koma á þann hátt að nokkru til móts við tekjumissi þann sem af skattbreytingunni leiðir.

Að lokum vil ég ekki láta hjá líða að geta um nauðsyn þess að komið verði í framkvæmd öðru atriði í tillögum sjálfstæðismanna sem upp er tekið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, þ. e. að tekjur hjóna verði jafnaðar fyrir skattlagningu. Í dag er það svo að mikill munur er á sköttum hjóna eftir því hvort aðeins annað þeirra aflar teknanna eða bæði. Dæmi skal hér tekið af barnlausum hjónum — og raunar skiptir ekki máli hvort hjónin eru barnlaus eða ekki — sem samtals höfðu árstekjur á síðasta ári, 550 þús. kr. Ef aðeins annað þeirra aflar teknanna verður tekjuskattur þeirra og sjúkratryggingagjald á þessu ári 110 þús. kr. Ef á hinn bóginn annað þeirra hefði haft 300 þús. kr. í tekjur en hitt 250, samtals 550 þús., væru skattar þeirra aðeins 70 þús. kr. Af sömu tekjum greiðast því 40 þús. kr. stærri skattar ef fyrirvinnan er aðeins ein. Það má öllum vera ljóst að í þessu felst mikið óréttlæti sem verður að leiðrétta. Hér er verið að refsa gróflega eiginkonunni eða hinum makanum sem ekki á þess kost af einhverjum ástæðum að vinna utan heimilis. Slíkan refsiskatt verður að afnema og það er unnt með því að jafna tekjum heimilisins milli beggja hjónanna. Þá sitja allir við sama borð.

Herra forseti. Það er von okkar flm. þessarar þáltill. að hún muni fá góðar undirtektir hér á Alþingi og það ber að fagna því ef hv. þm. Alþfl. hafa borið fram till. sem stefnir að þessu sama markmiði. Hér er um mál að ræða sem snertir langflestar fjölskyldur landsins, mál sem ég hika ekki við að fullyrða að er eitt þýðingarmesta málið sem fram hefur komið á þessu þingi. Það er hið mesta réttlætismál, ekki síst nú þegar allur almenningur hefur orðið að sæta verulegri skerðingu á kjörum sínum. Því leggjum við mikla áherslu á að það nái fram að ganga hér fyrir þinglok svo að unnt verði að hefjast handa um aðgerðir þær sem gert er ráð fyrir í till. Vil ég að lokum mælast til að þessu máli verði vísað til allshn. Sþ.