10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5623 í B-deild Alþingistíðinda. (4925)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég við lýsa eindregnum stuðningi Samtaka um kvennalista við þessa þáltill. Við kvennalistakonur höfum orðið áþreifanlega varar við það í vetur hversu örðugt það er að koma málflutningi og viðhorfum til skita út fyrir veggi Alþingishússins. Það hefur sýnt sig að slíkt er nánast ógerlegt hafi menn ekki fjármagn til að kosta reglulega útgáfu málgagns. Má með sanni segja að fjölmiðlar þessa lands hafi þagað þunnu hljóði um þann hluta kvennabaráttunnar sem fram fer hér í þingsölum og á það jafnt við um málgögn stjórnarflokka, stjórnarandstöðuflokka og ríkisfjölmiðla með örfáum undantekningum sem gera lítið annað en að sanna regluna. Ekki er mér það undrunarefni að málgögn rekin af stjórnmálaflokkum leitist við að þegja okkur kvennalistakonur í hel. Þar eiga stjórnmálaflokkar sinna sérstöku hagsmuna að gæta og skiptir engu í því efni hvort viðkomandi stjórnmálaflokkur er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Það hefur hins vegar verið mér nokkurt undrunarefni hversu einhliða fréttaflutningur ríkisfjölmiðlanna hefur verið af þingstörfum ef tekið er mið af hinu víðfræga hlutleysi þeirra sem kveðið er á um í núgildandi útvarpslögum. Í staðinn fyrir að gera öllum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði hefur fréttaflutningur ríkisfjölmiðla að mínu mati einatt hallast í þá átt að gera málflutningi stjórnarflokka ítarlegust skil. Er þar skemmst að minnast fréttaflutnings í sjónvarpi af umr. um byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði hér í Sþ. fyrir tveimur dögum síðan. Komu sjónarmið núv. hæstv. iðnrh. þar ítarlegust fram, því næst sjónarmið hæstv. fyrrv. iðnrh. og sú sem hér talar var heiðruð með einni setningu í fréttatíma sjónvarpsins en setti þó á langar ræður um þetta mál sem af spruttu ýmsar aðrar ræður. Þetta er aðeins nýlegasta dæmið um fréttamat af þessu tagi og það mundi æra óstöðugan að gera tilraun til að hafa þau öll uppi.

Málum er því í reynd þannig háttað að þeir fulltrúar á Alþingi Íslendinga, sem ekki eiga sjálfir eða samtök þeirra nóg af peningum til að gefa út eigið málgagn, eiga þess sáralítinn kost að koma störfum sínum og viðhorfum út til umbjóðenda sinna og landsmanna allra. Þetta mál, sem í fljótu bragði virðist ekki svo ýkja stórt, snertir því við grundvallaratriðum okkar þjóðskipulags. Það vekur þessa áleitnu spurningu: Við hvers konar lýðræði búum við raunverulega? Er það meiningin að það lýðræði, sem talað er um í 1. gr. stjórnarskrárinnar, sé lýðræði fjármagnsins? Mitt svar við því er nei. Þannig get ég ekki skilið 1. gr. stjórnarskrárinnar.

Því fagna ég af alhug þeirri þáltill. sem hér er fram komin. Með því að kveða á um að allir landsmenn hafi beinan aðgang að umr. á Alþingi án tillits til búsetu eða annarra aðstæðna tekur þessi þáltill. stórt skref í þá átt að tryggja betur en nú er gert að fullnægt sé ýmsum grundvallaratriðum lýðræðisskipulagsins, þ. e. rétti og skyldu þjóðkjörinna fulltrúa til að koma störfum sínum til skila til umbjóðenda sinna, sem aftur eiga heimtingu á því að fá að vita hvað fulltrúar þeirra eru að gera á Alþingi Íslendinga.

Ég vil síðan mælast til þess að hv. nefnd, sem ég mun styðja að fái málið til meðferðar, skili því fljótt og snarlega hingað aftur inn í þingið með nauðsynlegum formbreytingum.