10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5624 í B-deild Alþingistíðinda. (4926)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég held að við séum komin hér að ákveðnu grundvallaratriði í starfi löggjafarsamkomunnar og þess stjórnmálalega umræðuvettvangs sem Alþingi er. Hér erum við ekki að fjalla um vandamálið stjórn eða stjórnarandstaða fyrst og fremst heldur erum við almennt að ræða um möguleika kjörinna fulltrúa þessarar samkomu til þess að koma málflutningi sínum á framfæri. Ég þekki það frá liðnum árum og þessum vetri að það er oft mjög vandasamt og það á við um alla þm. að mínu mati. Ég er sannfærður um það að þm. stjórnarflokka á hverjum tíma telja sig búa við mjög svipað vandamál að þessu leyti og þm. stjórnarandstöðuflokka gera líka. Ég held þess vegna að hér sé um að ræða miklu víðtækara mál en svo að stundum sé það þannig að þessi og hinn séu í sviðsljósinu eftir því hvort menn eru stuðningsmenn ríkisstj. eða ekki. Hér er um það að ræða hvort umræður á Alþingi nái út til fólksins yfir höfuð og hvort frásagnir af umr. á Alþingi skili sér með eðlilegum hætti. Ég held að þær geri það ekki og hafi ekki gert það um margra ára skeið, það er engin nýlunda út af fyrir sig á þessum vetri. Ég held að þetta hljóti hins vegar að hvetja til þess að hv. Alþingi taki á þessum málum alveg sérstaklega því að okkur er skylt að koma okkar málflutningi á framfæri við okkar kjósendur og gefa þeim kost á því að meta það sem við segjum.

Í þeim efnum gildir það í raun og veru ekki og dugir ekki sem röksemd að það verði að bíða eftir því að hver þm. segi frétt þá og þá þegar hann stígur í ræðustól eftir mati einstaks fréttamanns hverju sinni. Það sem þm. er að segja á hverjum tíma er iðulega ekki frétt heldur aðeins innlegg í málefnalega umr. og flokkast því ekki endilega undir frétt að mati fjölmiðla á hverjum tíma.

Ég er sannfærður um að þeir þm., sem eru aðilar að stjórnmálaflokkum sem gefa út málgögn finna þennan vanda ekki síður en aðrir þm. Ég held að við eigum öll óskipt mál í þessu efni. Þess vegna hafa hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna hreyft hér mjög þörfu máli og ég tel það mjög miður að hæstv. forseti sameinaðs þings skuli bregðast við með jafn neikvæðum hætti og hann gerði áðan, að gera till. um að þessari till. sé vísað frá, svo að segja út í hafsauga, fyrst og fremst af formlegum ástæðum. Þessi till. er allrar athygli verð og á góða umr. og meðferð skilið. Formlegir gallar á till. eru vafalaust til en það er ekki aðalatriði málsins heldur hitt að hér er hreyft máli sem skiptir miklu að við tökum afstöðu til.

Í þessum efnum er nauðsynlegt að það verði kannað rækilega hvaða kostnað samþykkt slíkrar till. hefði í för með sér, hvernig framkvæmdinni verði tæknilega fyrir komið, hvernig hagað yrði útvarpi frá Sþ., Nd. og Ed. og hvernig sagt yrði frá málum sem eru í nefndum á hverjum tíma og þar fram eftir götunum. Allt þarf þetta að ræða og ákveða tæknilega í einstökum atriðum sem stundum er vafalaust miklu flóknara en þessi einfalda till. til þál. gefur tilefni til að ætla. Þess vegna væri mjög eðlilegt að þessari till. til þál. yrði vísað til þingskapanefndarinnar. Ég held að ekki sé bætandi á þann haug sem liggur fyrir hjá hv. allshn. eins og komið hefur fram hér á fundum hv. Sþ. í dag. Þess vegna væri eðlilegt að þingskapanefndin fjallaði um þetta mál.

Ef það er hins vegar skoðun meiri hl. Alþingis að á till. séu svo miklir formlegir gallar að henni verði vísað frá bið ég menn um að athuga aðeins sinn gang og íhuga hvort ekki væri réttara að láta till. liggja án afgreiðslu og að málið komi fyrir í þingskapanefndinni og verði þar tekið upp, m. a. af þeim þingflokki sem hér er að flytja mál og á fulltrúa í þingskapanefndinni og þá öðrum þingflokkum ef ástæða sýnist til. Það væri afskaplega rangt að fara að vísa þessari till. frá með snubbóttum, formlegum afgreiðsluhætti eins og hæstv. forseti Sþ. lagði til áðan. Ég skora á hæstv. forseta Sþ. að íhuga það mjög vandlega hvort hann vill ekki fara varlegar í sakirnar áður en hann gerir endanlega upp hug sinn í þessu efni. Hér er hreyft þörfu máli sem á skilið mikla og vandaða umr. og það á ekki að afgreiða það fyrst og fremst á formlegum grundvelli. Þetta mál á skilið að fá ítarlega umr.

Hins vegar væri fróðlegt að heyra frá hæstv. forseta Sþ., úr því að hann er hér í salnum og tekur þátt í umr. hvað líður starfsemi þingskapanefndarinnar. Hvenær má ætla að hún skili niðurstöðum? Ég er þeirrar skoðunar að það sé eitt brýnasta verkefnið í stjórnkerfi Íslendinga að laga starfshætti Alþingis. Ég hef setið hér um nokkurra ára skeið, nú í vetur sem stjórnarandstöðuþm., og ég tel að ýmsir þættir í starfsemi þingsins séu satt að segja með þeim ólíkindum að ég hygg að enginn utan þings gæti látið sér detta í hug að hlutirnir gangi fyrir sig eins og þeir gera hjá okkur stundum. Í þeim efnum eigum við öll jafna ábyrgð í rauninni sem enginn getur skotið sér undan. Vinnubrögð nefnda þingsins eru t. d. oft býsna sérkennileg. Þar eru mál afgreidd öðruvísi en vera þyrfti ef betur og skipulegar væri haldið á taumunum. Umr. hjá hv. Sþ. og í deildum reyndar líka er ekki heldur með þeim hætti að kallast geti skilvirk vinnubrögð fyrir þessa virðulegu samkomu. Þess vegna legg ég á það áherslu að það er mín skoðun að lagfæring á þingsköpum Alþingis sé eitt brýnasta verkefnið sem við okkur blasir í raun og veru ef við viljum gera Alþingi Íslendinga að þeirri samkomu sem við eigum að krefjast og þjóðin á heimtingu á.