10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5626 í B-deild Alþingistíðinda. (4927)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að geta þess að ég gleymdi að leggja fram till. um nefnd. Ég ætlaði að leggja til að málinu yrði vísað til starfsnefndar um þingsköp eða þingskapanefndar svokallaðrar.

Varðandi þessar umr., sem hérna hafa farið fram, harma ég ef ágreiningur um form verður til þess að menn ræði ekki nánar um þennan þátt í upplýsingu landsmanna. Það er slæmt að það skyldu þá ekki hafa verið gerðar þessar aths. strax þegar málið var lagt fram. En við sem stóðum að framlagningu þess vorum raunar meira að hugsa um lýðræðislegt gildi þess en formlegt útlit, án þess að ég geri lítið úr formi. Það á að hafa rétt. Hins vegar veltum við þessu svolítið fyrir okkur á sínum tíma og við settum ríkisstj. þarna inn vegna þess að við töldum að ef Alþingi, í umfjöllun Sþ. og nefndar, kæmist að þeirri niðurstöðu að það bæri að hefja þetta beina útvarp væri það ríkisstj. að sjá um framkvæmdahlið þess, gera tillögur í sambandi við fjármál og í sambandi við uppbyggingu dreifikerfis og annað sem til þyrfti. En ég ætla ekki að ræða meira um formlegt útlit.-

Ég held að nauðsynlegt sé að fram fari umræða um þessi mál hérna í þinginu, ekki bara vegna þess upplýsingagildis fyrir framkvæmd lýðræðisins, sem ég gerði að umræðu áðan, heldur og ekki síður til þess að lagfæra ýmsar ranghugmyndir sem virðast vera á sveimi um starfsemi þingsins — ranghugmyndir sem í flestum tilfetlum eru vegna skorts á upplýsingum. Eins og ég vék að í byrjun er því miður ekki nema mjög takmarkaður hluti þjóðarinnar sem vill eða getur sótt þingpalla og því vita mjög fáir um það hvernig störf fara hérna fram, hvernig umræður fara fram, hvernig skoðanaskipti og skoðanamyndun verður. Tilviljanakennd lýsing einstakra fréttapunkta, eins og oft vill brenna við að sé það eina sem heyrist fá þessari stofnun út í frá, gefur alls ekki þá mynd af skoðanaskiptum og skoðanamyndun sem þarf að skila sér til fólks, þannig að það geti gert upp hug sinn þegar þess þarf í kosningum og það geti myndað sér sjálfstæðar skoðanir um það sem hér gerist.