10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5629 í B-deild Alþingistíðinda. (4930)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að þetta er merkilegt mál. Ég sagði það áðan í minni tölu og lagði ríka áherslu á það. Og ég sagði að þetta yrði að sjálfsögðu athugað í þingskapalaganefndinni sem er að störfum. Ég held að það sé alveg ástæðulaust, eins og hér hefur komið fram hjá sumum, að vera að reyna að fitja upp á einhverjum efnislegum ágreiningi um þetta mál. Ég tók það fram að ég ætlaði ekki að ræða efnislega um þetta mál, en vék að formhliðinni.

En formhliðin er nú ekkert aukaatriði í þessu efni. Þó að þessi till. væri samþykkt erum við engu nær. Við verðum skv. stjórnarskránni að breyta þingskapalögum til þess að geta tekið upp hina nýju skipan. Og það getur ekki talist neikvæð afstaða hjá þeim sem bendir á hver hin eina færa leið er til þess að koma málinu í höfn. Það er enginn vafi á um þetta og þessu hefur ekki verið mótmælt í þessum umr.

Ég tók fram að ég teldi að það ætti að ræða málið í þingskapalaganefnd. Nú hefur, eftir að ég talaði, hv. 1. flm. till. lagt til að till. yrði vísað til þingskapalaganefndar, þannig að það ber ekki mikið á milli efnislega um minn vilja í þessu efni og vilja hv. flm. Ég sé það ekki.

Það má þá kannske spyrja að því hvers vegna ég hafi borið fram dagskrártillögu þá sem ég hef hér lýst. Ég skýrði það raunar í þeim fáu orðum sem ég sagði áðan. En ég held að það sé ekki of mikil áhersla lögð á að það samrýmist ekki stöðu Alþingis Íslendinga að annar aðili en Alþingi sjái um framkvæmd þessara mála. Ég vil að það komi skýrt fram.

Mér er ekki kunnugt um það, ég get ekki fullyrt um það, en ég efast um það, að nokkru sinni hafi komið fram tillaga á Alþingi Íslendinga á þann hátt að svo þýðingarmiklum þætti í starfsemi þingsins væri vísað í einstöku framkvæmdaatriði til ríkisstj. Og mín dagskrártillaga er komin fram til þess að mótmæla þessu sjónarmiði. Mér finnst að það sé ekki hægt að láta neinn alþm. standa í þeirri villu að það sé einhver annar aðili en Alþingi sjálft sem hefur með þetta mál að gera.

Hv. 4. landsk. þm. sagði að ríkisstjórnin hefði verið tiltekin í þessari þáltill. — ja mér skildist vegna þess að ríkisstj. sæi um fjármálin. Þetta er grundvallarmisskilningur. Sá kostnaður sem leiðir af þessu verður færður á reikning Alþingis en ekki ríkisstj. Og ég bið menn að gera hér glöggan greinarmun á Alþingi og ríkisstj., hvað kær sem mönnum kann að vera ríkisstj.

Aðalatriði þessa máls er það að við erum öll, sem hafa látið til sín heyra, sammála um að þetta mál eigi að hljóta afgreiðslu. Og það er ekki höfuðatriði fyrir mig hvort þetta mál hafnar í þingskapalaganefnd eftir þeirri leið, sem hv. flm. leggur til, að málinu verði formlega vísað til þingskapalaganefndar eða eftir þeirri leið sem ég tjáði mig um áður. Ég lýsti yfir hér að málið yrði tekið fyrir í þingskapalaganefnd. Og ef mönnum finnst það eitthvert atriði til þess að undirstrika þá efnislegu samstöðu að við viljum öll athuga málið þá er mér að því leyti ekki dagskrártillagan föst í hendi.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að hann teldi að gott væri að ræða þetta frekar hér í Alþingi. Ég skal ekkert hafa á móti því. Og með því að það stendur þannig á núna, þá mundi ég leggja til að umr. yrði frestað. Við skulum ekki útiloka að fleiri sem kunna að vilja geti tjáð sig um þetta mál.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði beint að því hvað liði störfum þingskapalaganefndar og hvenær þeim yrði lokið. Þingskapalaganefnd, eins og hér hefur komið fram hjá hv. 5. landsk. þm., hefur starfað allnokkuð og hún hefur hugsað að þyngja róðurinn í því efni eftir því sem líður á sumarið. Í mínum huga væri ákaflega æskilegt að næsta haust gæti legið fyrir einhver árangur af því starfi. Ég orða þetta varlega. Það er ekki vegna þess að ég sé að draga úr í þessu efni. Ég tek undir það sem hv. 3. þm. Reykv. og fleiri hafa hér sagt um mikilvægi þess að endurskoða þingskapalögin. En ég segi þetta af því að ég vil að við gætum gert betur en við lofum nú á stundinni.