10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5630 í B-deild Alþingistíðinda. (4931)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Vegna þessara ummæla hérna síðast um formlegu hliðina á þessari tillögu vil ég segja að það hefur aldrei nokkurn tíma vakað fyrir mér að gera á hluta Alþingis eða gera nokkuð sem gæti orðið því til álitshnekkis. Þvert á móti höfum við bandalagsmenn reynt að bera hag þess, að því er við töldum, jafnvel meir fyrir brjósti en margir þeir sem hér hafa gengið um sali.

Þessi till., eins og hún er orðuð, er sett fram til að vekja umr. um grundvallaratriði þessa máls, sem er upplýsingamiðlun, lýðræði, útrýming ranghugmynda og ýmislegt sem hefur verið vikið að í umr. og fengið jákvæðar undirtektir flestra ræðumanna. Þessi till., eins og menn sjá, víkur ekki að einstökum framkvæmdaatriðum. Það er augljóst að það var aldrei ætlan okkar að Alþingi framseldi á nokkurn hátt sinn rétt til að segja fyrir í nákvæmum smáatriðum hvernig staðið yrði að framkvæmd þessa máls. Hins vegar ímynduðum við okkur að að því gæti komið að þekkingar eða tækjabúnaðar Ríkisútvarpsins væri þörf. Við töldum þess vegna að skynsamlegt væri að vísa framkvæmdinni til ríkisstj. að því gerðu að Alþingi hefði ákveðið sinn hug um þetta mál og gert um þetta þær samþykktir og gert þær ráðstafanir sem það teldi að þyrfti að gera.

Ég játa að hæstv. forseti Sþ. er mér fremri í fundarsköpum og því sem því viðvíkur og það má vel vera að við hefðum þurft að gera nánari grein fyrir málsmeðferð, en ég harma að mér finnst að þetta hafi orðið til þess að draga athyglina frá efnislegu mikilvægi málsins sem ég tel að sé verulegt.