10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5640 í B-deild Alþingistíðinda. (4935)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hann hefur hér veitt, svo langt sem þau ná. En ég geri ráð fyrir að fleiri en ég hafi tekið eftir því að ekki voru þau sérstaklega ítarleg í sambandi við þetta mál og mínar fsp. Hæstv. ráðh. gaf sínar skýringar á því. Vissulega er leitt til að vita ef þessari umr. á að ljúka án þess að við fáum t. d. vitneskju um það, hvers er að vænta í sambandi við frambúðarorkuverð til núverandi álbræðslu í Straumsvík, hvort hæstv. ráðh. getur ekki tilkynnt um eitthvert enn ótrúlegra afrek í þeim efnum en hann vann á haustdögum. Þar var um þetta tímabundna viðbótarálag á orkuverðið að ræða sem Alusuisse getur sagt upp eftir rúmlega mánuð skv. því bráðabirgðasamkomulagi sem þá var gert. Ég líkti því við snöru sem ráðh. hefði látið smeygja um háls sér þegar ég túlkaði mitt álit á þessu samkomulagi því að annað er það ekki í rauninni. Þó að menn geti vel þegið krónurnar sem þetta gefur á meðan það varir er það hverjum manni ljóst hvernig í þessum málum liggur. Annar samningsaðilinn hefur búið þannig um hnúta að semja um viðbótarálag í nokkra mánuði og hefur þá hótun uppi í erminni gagnvart gagnaðilanum hvenær sem er að 9 mánuðum liðnum að ef hann fallist ekki á sín viðhorf í þeim stóru málum sem verið er að takast á um sé auðveldur leikur að fella þetta viðbótarálag niður, það sé samningsbundið, samningsbundinn réttur.

Það hefur farið svo um fleira, að í reynd hefur þessi bráðabirgðasamningur ekki reynst haldmikið plagg til þessa en í rauninni ætti að vera kominn punkturinn aftan við hann skv. þeim tímaramma sem upp var dreginn af þeim sem að samningnum stóðu. Skýringin á þessu kom frá hæstv. ráðh. í upphafi hans máls. Hann orðaði það svo: „Mál eru öll þyngri í vöfum en menn skyldu ætla við fyrstu kynni.“ Það er gott að menn verða reynslunni ríkari og vonandi vitrari að henni fenginni. Ég minnist þess að nokkrir valdir menn hér á hv. Alþingi veturinn 1982–83 sáu ástæðu til þess í febrúarmánuði síðla að bera fram sérstaka vantrauststillögu á þann aðila sem fór með þessi mál þá fyrir hönd Íslands, vegna þess að hann gæti ekki komið böndum á Alusuisse varðandi þær kröfur sem allir tóku undir í orði en grófu undan á borði margir hverjir, þannig að vonlaust var að auðhringurinn bifaðist á þeim tíma.

Það væri ástæða til að gera margar athugasemdir við það sem fram kom h á hæstv. ráðh. og inna hann eftir frekari skýringum. Ég ætla að stikla hér á fáeinum atriðum. Ég veit að hæstv. forseti væntir þess að þessi umr. taki ekki mjög langan tíma og ég hef skilning á önnum þingsins og vil ekki ganga hér óeðlilega á starfstíma þess þó að sumt af því sem rætt hefur verið hér fyrr í dag hefði kannske mátt bíða, en ég ætla ekki um það að fjalla.

Hæstv. ráðh. vék að dómnefndunum sem samið var um með bráðabirgðasamkomulaginu og taldi að þess væri að vænta að þar fengjust mál til lykta leidd með ekki ósvipuðum hætti og ef notaður hefði verið hinn samningsbundni farvegur ICSID-gerðardómsins sem aðalsamningurinn við Alusuisse gerir ráð fyrir. Ég túlkaði mitt viðhorf til þessa í umr. um skýrslu hæstv. ráðh. í nóvembermánuði og benti á það, að með þessari breytingu hefði staða Íslands í þessari deilu öll verið gerð óvissari og hefði raunverulega breyst mjög verulega frá því sem orðið hefði ef málið hefði verið látið hafa þann gang sem það var í á s. l. sumri eftir að íslenskir aðilar í maímánuði 1983 féllust á kröfu Alusuisse um að málið yrði tekið upp skv. samningi í gerðardómi. Ég bendi á að ekki er ýkja vænlegt til þess að tryggja sinn hag í máli sem þessu að kalla til fjölda aðila til að taka á mismunandi þáttum, aðila sem ekki hafa heildarsýn til málsins né taka heildstætt á málinu, en dreifa því á þrjár dómnefndir eins og hér var niðurstaðan. Um þetta atriði var tekist á á sínum tíma þegar ég starfaði sem ráðh. Þegar um það var fjallað var okkur alveg ljóst að til þess að fallast á kröfur Alusuisse að þessu leyti yrðu að koma stórir ávinningar á móti. Þeir ávinningar komu ekki með þessu bráðabirgðasamkomulagi t. d. hvað snerti orkuverð. Ég bendi á það að staða Íslands í þessari deilu fyrir þessum nefndum sem kallaðar hafa verið dómnefndir en heita panelar á ensku, er að því leyti ólík frá því sem var hinum samningsbundna farvegi að hér er máli vísað í sameiginlega gerð í stað þess að Alusuisse hefði þurft að standa í gerðardómi frammi fyrir einhliða ákvörðun íslenskra skattyfirvalda. Það kom fram þegar hæstv. ráðh. lýsti hér stöðu mála í þessum skjótvirka farvegi — réttara væri að segja farvegum — sem málið var sett í að það er þegar komið út fyrir þann tímaramma sem þar var dreginn og ekki von til að það verði til lykta leitt fyrr en síðsumars eða á komandi hausti miðað við þær upplýsingar sem hæstv. ráðh. gaf hér.

Ég ætlaði að öðru leyti ekki að fjalla um þetta mál hér, enda hæstv. ráðh. örðugt um vik þar sem sú dómnefnd, sem fjallar um eitt meginatriði málsins, starfar lokað og þar sem dómnefndin hefur fallist á kröfu Alusuisse eftir því sem hér var upplýst að um lokaða málafærslu yrði að ræða. Það eitt segir nokkuð um stöðu okkar fyrir þessari dómnefnd að það skuli vera krafa auðhringsins, gagnaðilans, um lokaða málafærslu sem orðið hefur ofan á.

Ég kem þá að hinu tímabundna álagi á raforkuverðið. Ég vek enn athygli á því að hækkunin upp í 10 mill hefur ekki orðið að veruleika þó að samninganefndin túlkaði það svo í skýrslu sinni til Alþingis með þessum orðum:

„Og virðist ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að innan fárra vikna verði verðið komið upp í 78 cent þannig að hækkun orkuverðsins í 10 mill á hverja kwst. taki gildi á allra næstu mánuðum.“

Þetta haldreipi hefur ekki gengið fram og það ber vissulega að harma.

Þá kem ég að hinum eiginlegu samningaviðræðum sem átti að leiða til lykta fyrir 1. apríl s. l. og varða hin stóru mál, frambúðarraforkuverð, stækkun álversins og annað sem samningurinn gerir ráð fyrir að fjallað verði um. Hæstv. ráðh. greindi okkur frá því að það væru veikindi aðalsamningamannsins sem hefðu komið í veg fyrir að eðlilegur gangur væri í þessum viðræðum. Fundir hefðu af þeim sökum fallið niður í mars og aprílmánuði, og það væri fyrst nú í lok maímánaðar sem næsti fundur yrði haldinn. Alusuisse hafi talið erfitt að skipta um samninganefndarmann.

Já, fyrr höfum við heyrt og séð slík viðbrögð á þeim bænum. En ég vek athygli á því að það er ástæða fyrir íslensk stjórnvöld nú sem fyrr að gjalda varhuga við slíku. Ég er ekki að gera því skóna að umræddur forstjóri Alusuisse hafi verið lagður að ástæðulausu inn á sjúkrahús. (Gripið fram í: Þú ert að því.) Nei, ég er ekki að gera því skóna að umræddur forstjóri Alusuisse hafi verið lagður inn á sjúkrahús þó að það gæti verið býsna arðvænlegt fyrir fyrirtækið. Miðað við það að hæstv. ráðh. ætlaði að ná myndarlegum árangri í samningaviðræðunum gæti það nú borgað sig fyrir Alusuisse að halda dr. Ernst nokkuð lengi inni á sjúkrahúsinu. Það væru bærilegir dagpeningar sem þannig fengjust skulum við ætla.

Hér er ekki um fyrirtæki að ræða sem hefur 2–3 menn í þjónustu sinni eða bara einn forstjóra. Ég hugsa að þeir teljist í hundruðum, starfsmennirnir í aðalstöðvum fyrirtækisins í Zürich. Dettur nokkrum í hug að það sé ekki auðvelt fyrir fyrirtækið, ef einhver alvara og áhugi væri á því að þoka þessum samningaviðræðum áfram, að setja einhvern mann í staðinn fyrir dr. Ernst á meðan hann er að ná sér af veikindum? Ég veit ekki betur en þeir tvíburar, doktorarnir Müller og Meyer, séu enn á kreiki í aðalstöðvunum í Zürich og eitthvað vissu þeir um þetta mál hér á árum fyrr. Ég heyrði ekki betur, þó að dr. Müller væri kominn í eins konar eftirlaunastöðu en hann væri til þess kvaddur sérstaklega að fylgjast áfram með samningamálum við Ísland vegna álbræðslunnar í Straumsvík. Ég frétti af því að í einu virtasta blaði Svisslands, Neue Züricher Zeitung, hefði verið heilsíða um það í síðasta mánuði að þessir gömlu tvíburar, dr. Müller og Meyer, héldu enn þá að verulegu leyti sínum völdum, og væri uppi veruleg gagnrýni vegna þess að þeir væru enn þá hinir raunverulegu valdamenn í fyrirtækinu þótt eftirlaunaþegar væru kallaðir á pappírnum.

Það getur að sjálfsögðu ekki gengið að íslensk stjórnvöld uni því að hringurinn geti látið það dragast að ræða með eðlilegum hætti skv. samningi um okkar hagsmunamál vegna þess að einn úr hópnum hjá þeim forfallist sökum veikinda. Við skulum vona að slíkt endurtaki sig ekki og lögð verði áhersla á það sem mestu skiptir í þessum samningum og það helsta sem ég legg áherslu á og minn flokkur, að eðlileg leiðrétting náist fram á núverandi samningum um álverið í Straumsvík, á raforkuverðinu alveg sérstaklega.

Tæpt hefur verið á álitlegum tölum, sagði hæstv. ráðh. En meira fengum við ekki að heyra. Viðbótin var heldur dapurlegri í mínum eyrum því að hinar álitlegu tölur, ef ég skildi ráðh. rétt, áttu ekki við núverandi álver í Straumsvík heldur fyrst og fremst stækkunina sem virðist vera sameiginlegt áhugamál íslenskra stjórnvalda og auðhringsins ef marka má texta samkomulagsins. Geta menn þá áttað sig á því hver er okkar staða til þess að ná fram eðlilegum samningum, eðlilegu lágmarki, ef menn á annað borð eru á höttunum eftir samkomulagi um frekari útfærslu á umsvifum Alusuisse hérlendis. (Gripið fram í.) Ég er ekki í hópi þeirra sem mæla með því að auka þau samskipti með stækkun álversins í Straumsvík.

Hæstv. ráðh. talaði um 18–20 mill sem framleiðslukostnaðarverð úr virkjunum hérlendis. Ég held að við eigum að halda til haga þeim tölum sem fyrir liggja. Hér er um að ræða nokkuð mismunandi verð eftir því við hvaða virkjun er miðað. Þar hefur Landsvirkjun dregið upp rammann 18-22 mill sem framleiðslukostnaðarverð en ekki 20. Þannig vill til, ef marka má upplýsingar Landsvirkjunar, að það eru einmitt Þjórsárvirkjanirnar, stækkun Búrfells og Sultartangavirkjun, sem eru þarna í hærri kantinum, þær virkjanir sem knúið verður á um að ráðist verði í, ef gerð verður alvara úr því að semja um stækkun álversins í Straumsvík, eins og núverandi ríkisstj. virðist keppa að.

Að bera saman orkusölu til álvers í eigu erlends auðhrings og kísilmálmverksmiðju, sem vonandi verður íslenskt fyrirtæki þegar upp er staðið, það tel ég ekki skynsamlega málafylgju, þó svo að kísilmálmverksmiðja eigi og beri að greiða a. m. k. framleiðslukostnaðarverð. En það er nokkur munur á slíkum kaupendum fyrir þann aðila sem selur honum orkuna. Álver gera aðrar og mun harðari kröfur um afhendingaröryggi á raforku en málmblendiverksmiðjur, þ. á m. kísilmálmverksmiðja. Menn skulu einnig fara með allri gát í afslátt af þeim sökum og nota vítin frá Grundartanga til að varast í þeim efnum.

Hæstv. ráðh. vék að frv. sem samningurinn gerir ráð fyrir að lagt yrði fram í okt. s. l. Hann var að velta því fyrir sér fram eftir vetri hvort hann ætti að leggja það fram. Ég skil það þannig að eftir að læknisvottorðin bárust um veikindi dr. Ernst hafi hann alveg hætt við þetta á þessum vetri vegna þess að sýnilega yrðu tafir á málum. Ekki syrgi ég það. .g benti á það í nóv. s. l. að það væri með fádæmum að stjórnvöld skyldu taka inn í bráðabirgðasamkomulag sem þetta ákvæði um það að ætla Alþingi að afgreiða heimild af því tagi sem þarna var gert ráð fyrir, heimild til fyrirtækisins um að selja hlutabréf og framselja hlutabréf til aðila sem verið væri að leita eftir frekara samstarfi við.

Ég hef ekki margt að þakka hæstv. ráðh. í sambandi við gerðir hans til þessa í þessu máli en ég þakka honum fyrir það að hafa látið það ógert að sýna þetta frv. hér á Alþingi. En menn hljóta að spyrja: Hvers virði er sá pappír sem ríkisstj. og Alusuisse skrifuðu undir — að vísu bara enska textann — 23. sept. s. l., þegar það er bara matsatriði frá degi til dags hjá aðilum, hvernig með einstök ákvæði er farið? Það er kannske ekki að undra þó að tímasetningarnar reynist eitthvað teygjanlegar í sambandi við að framfylgja þessu samkomulagi sem þá var gert.

Hæstv. ráðh. gerði sér von um að nú færi að aukast hraðinn í samningum við Alusuisse og unnt yrði að spretta úr spori í sumar. Ég get látið það verða mín síðustu orð í þessari umr., nema sérstök tilefni gefist til að kveðja sér aftur hljóðs, að ég vona að sumarið færi okkur eitthvað annað en það, að íslensk stjórnvöld fari að ganga í þá gildru sem auðhringurinn hefur komið þeim í með þessu bráðabirgðasamkomulagi. Á ég þá við þá þætti sem varða aukin umsvif Alusuisse hérlendis. Hvaða skoðun sem menn annars hafa á stóriðjumálum og þátttöku eða samstarfi við erlenda aðila held ég að við ættum að gæta þess að dreifa þar nokkuð áhættunni. Ég tel að vísu sjálfsagt að við reynum að koma samskiptum við Alusuisse um núverandi rekstur í Straumsvík í eðlilegt horf, svo sem allur réttur okkar stendur til. En ég hef ekki séð það að reynslan bjóði okkur að fara út í stórkostlega aukningu á samstarfi við þennan aðila með því að tvöfalda orkusöluna til hans, heimila honum að kalla til þriðja eða fjórða aðila til þátttöku í álbræðslu í Straumsvík, annast þannig eins konar umboðsstarf í sölu íslenskra auðlinda. Ég tel að reynslan eigi að hafa kennt okkur til þessa að það er ekki ýkja freistandi að hleypa þessum aðila lengra inn í íslenskar auðlindir. Það á ekkert að draga úr eðlilegri kröfu okkar á leiðréttingu mála varðandi þann samning sem við gerðum 1966 og endurskoðaður var 1975. Til þess að fá hann leiðréttan stendur allur okkar réttur og rök.

Ég vænti þess að hæstv. ráðh. hafi þegar lært á þeim tíma sem hann hefur tekist á við þennan auðhring, sem hann lýsti réttilega í desember s. l. að væri mjög erfiður í samskiptum og þungur í togi, og gæti sín í áframhaldandi samskiptum og haldi þar fast á íslenskum hagsmunum og bæti ekki við afrekaskrá sína hina ótrúlegu með þeim hætti sem fitjað var upp á 23. september s. l.