10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5646 í B-deild Alþingistíðinda. (4946)

83. mál, lögræðislög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lét svo um mælt, 2. þm. Austurl., að ekki hefði verið tillit tekið til ábendinga þess áhugahóps sem hér um ræddi af ástæðum sem hann vildi ekki tilgreina. Ég verð að segja alveg eins og er að mér koma þessi ummæli svolítið á óvart. Ég á sæti í þeirri nefnd þessarar hv. deildar sem fjallaði um þetta mál og sem ræddi ítarlega við þá sem staðið höfðu að gerð þessa frv. Hún ræddi líka við fulltrúa þeirra áhugaaðila sem hv. þm. Helgi Seljan minntist á. Í mínum huga var það alveg skýrt að þau rök, sem þessi hópur hafði fram að færa máli sínu til stuðnings, voru ekki mjög sannfærandi. Um þetta var, ef ég man rétt, alger samstaða í nefndinni. Ef við í þessari hv. deild breytum þessu frv. aftur í þá veru sem það var þegar það fór frá n. held ég að við séum tvímælalaust að færa málið til meiri skynsemdarvegar að nýju. Ég er engan veginn sannfærður um að þessi háttur, sem hafa skal á um þessa hluti, að þarna komi eins konar nýr dómstóll til sögunnar, sé til bóta í tilvikum sem þessum.

Ég held að mig misminni það ekki að komið hafi fram þegar þetta mál var rætt í allshn. að þar sem þessi háttur hefur verið tekinn upp hefði það ekki þótt gefa sérstaklega góða raun. Nú skal ég að vísu játa að minni mitt kann að bregðast mér um þetta, en hvað sem því líður voru þau rök sem fram voru sett af hálfu þess áhugasama fólks sem myndar félagsskap sem starfar að þessum málum og áreiðanlega hefur ýmislegt gott látið af sér leiða einfaldlega ekki nægilega sannfærandi að mati allshn. þessarar hv. deildar. Þess vegna verð ég að skýra frá því umbúðalaust að mín skoðun á þessu máli er alveg óbreytt frá því sem var þegar nefndin afgreiddi þetta mál frá sér, að ég er ekki viss um að í tilvikum sem þessum sé þessi háttur til bóta. Og nú spyr ég t. d.: Hvernig á að velja einn fulltrúa hins almenna borgara? Þetta er orðatag sem ég felli mig ekki við. Hver er hinn almenni borgari á þessu sviði? Af hverju er þá ekki sagt: Velja á einn fulltrúa annan. Og strax hér rek ég mig á það sem ég tel Nd. hafa gert þessu máli til miska. Ég kann ekki við svona orðalag í löggjöf. Ég veit raunar ekki nein fordæmi fyrir því að það sé kveðið á með þessum hætti.

Kannske má íhuga að gera einhverjar aðrar breytingar en að koma þarna á fót einhverjum sérstökum dómstól sem skipaður er með þessum hætti. Það má vel íhuga það frekar. Ég skal alls ekkert útiloka það. Ef ég man rétt hafði formaður nefndarinnar, hv. 9. þm. Reykv. Ólafur Jóhannesson, framsögu í þessu máli af hálfu nefndarinnar og okkur blandaðist hreint ekkert hugur um að við værum að gera rétt þegar við skiluðum okkar nál. Ég held að sú afstaða, a. m. k. að því er mig varðar og ég hygg flesta nm., sé algerlega óbreytt.

Ég viðurkenni fúslega að hér er um mjög erfið mál að ræða, ítreka að ég held að í þeim tilvikum þurfi oft skjótt við að bregða. Nú segir í 17. gr.: , Dómsmrn. leitar umsagnar hjá trúnaðarnefndinni ef þörf krefur áður en það veitir heimild til vistunar manna skv. 13. gr.“ — Hér þarf oft mjög skjótt við að bregða. Hvernig skal þá bregðast við ef ekki næst til allra þeirra aðila sem sitja í þessum trúnaðardómstól? Ég sé ekki nein ákvæði um það hér.

Ég ítreka, herra forseti, að ég held að eins og svo oft áður þegar hv. Nd. breytir málum Ed. sé það ekki ævinlega til bóta.