10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5651 í B-deild Alþingistíðinda. (4961)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér hefur verið tjáð að við skrifarar höfum verið atyrtir hér í þinginu í gær fyrir að mæta ekki á réttum tíma, en nú er svo þröngt setið í skrifarasætum að þó maður sé mættur kemst maður ekki að.

Ég vil geta þess hér að vegna skörulegrar framgöngu hv. 5. þm. Norðurl. e. stóð fundur í menntmn. það lengi, og við vorum með gest á fundinum, að við komumst ekki hingað út fyrr en ca. tveimur mínútum eftir að fundur var settur í Nd. Ég vænti þess að forseti taki tillit til þess að stundum stendur svo á eftir að búið er að boða menn á fundi til n. að ekki er auðgert að segja þeim að hypja sig út hið snarasta þegar þeir þurfa að koma á framfæri miklum fróðleik við nefndir.