10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5665 í B-deild Alþingistíðinda. (4975)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér hefur verið mælt fyrir, varðar fjárhagslega endurskipulagningu Íslenska járnblendifélagsins hf. vegna verksmiðju þess á Grundartanga. Mál þetta hefur verið á döfinni frá því haustið 1982, eins og rakið var í máli hæstv. ráðh. hér áðan, en raunar hefur sú glíma staðið lengur að halda þessu fyrirtæki gangandi og í tíð fyrrv. ríkisstj. var ítrekað gripið til aðgerða, til að hlaupa undir bagga með fyrirtækinu vegna taprekstrar, þannig að ekki þyrfti að koma til stöðvunar þess. Ég ætla hér ekki að fara að rekja þá sögu þótt lærdómsrík sé. Íslenska járnblendifélagið og verksmiðjurekstur þess á Grundartanga er dæmi um misheppnaða fjárfestingu í stóriðju og mjög gallaða samninga sem gerðir voru við erlenda aðila þegar stofnað var til fyrirtækisins og lög sett um það á árinu 1976.

Ástæður fyrir erfiðleikum í rekstri fyrirtækisins eru fleiri en ein, en einna afdrifaríkast hefur verið að afurðir verksmiðjunnar hafa ekki selst við því verði sem áætlað var þegar áætlanir voru gerðar um fyrirtækið og ákvarðanir teknar um það. Þar var byggt á óhóflegri bjartsýni og það er vert að minnast þess nú að það voru ekki íslenskir aðilar sem fyrst og fremst lögðu á ráðin í sambandi við þetta fyrirtæki, heldur var það byggt á erlendri ráðgjöf að verulegu leyti og í veigamestu atriðum varðandi rekstrarhorfur, afurðaverð og sölumöguleika. Afurðir járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, kísiljárn, eru sem kunnugt er notaðar í stáliðnaði til blöndunar til að ná fram ákveðnum eiginleikum og stáliðnaður hefur verið í lægð og hnignandi grein á undanförnum árum. Horfur eru á því að ekki verði þar veruleg breyting á, heldur er hér á ferðinni þróun sem tengist m. a. hækkandi verði á orku um og fyrir miðjan síðasta áratug og kröfum til léttari málma til ýmissa nota. Það getur verið einhver afsökun þeim sem að ákvörðunum stóðu um þetta fyrirtæki á sinni tíð að þessi þróun hafi ekki verið orðin mönnum auðsæ á þeim tíma eins og nú er orðið, en hún hefur vegið þungt í afkomu þessa fyrirtækis.

Þar við bætist vissulega að fyrirtækið hóf rekstur 1979 þegar þungaiðnaður og reyndar efnahagur iðnríkja var að sigla inn í lægð, verulega kreppu sem ríkt hefur á undanförnum árum og hefur gætt í lágu verði fyrir afurðir ýmissa greina iðnaðar, ekki síst í frumframleiðslu eins og þungaiðnaði. Við þetta bætist hár fjárfestingarkostnaður sem hefur bitnað á fyrirtækinu þar sem lánabyrði þess er eðlilega í hámarki og fjármagnskostnaður á fyrstu rekstrarárum. Við þetta hafa bæst ókjör í samningum við hinn erlenda samstarfsaðila, Elkem, samningum sem gengið var frá um leið og stofnað var til fyrirtækisins og varðar það bæði raforkusölu, tæknisamning og markaðssamning, en sem kunnugt er selur Elkem allar afurðir verksmiðjunnar og þar kemur meirihlutaaðilinn, íslenska ríkið, nánast ekkert við sögu.

Varðandi rafmagnssamninginn kom það áþreifanlega í ljós á árinu 1978, veturinn 1978–1979, að inn í rafmagnssamninginn var byggt stöðvunarvald sem Elkem hefur, þótt minnihlutaaðili sé í fyrirtækinu, og það olli því að meirihlutaaðilinn, íslenska ríkið, gat ekki frjáls og með eðlilegum hætti tekið ákvörðun um eða svarað ákvarðandi spurningunni um hvort reistur skyldi annar ofn verksmiðjunnar 1979, en hann mun hafa verið tekinn í rekstur snemma á árinu 1980 eða á fyrri hluta þess árs ef ég man rétt.

Það var eitt af fyrstu viðfangsefnum mínum í starfi sem iðnrh. að fjalla um þetta atriði og ég gerði um það tillögu í ríkisstj. og við samstarfsaðilann Elkem og stjórn félagsins, að a. m. k. yrði dokað við með fjárfestingu varðandi annan ofn verksmiðjunnar um nokkurt skeið á meðan séð yrði hver framvinda yrði varðandi markaðsverð og söluhorfur á kísiljárni. En þessum tilmælum neitaði samstarfsaðilinn Elkem og bar fyrir sig stöðvunaratriði í raforkusamningnum sem tekið hafði verið inn að kröfu Elkem þegar leitað var til þess sem samstarfsaðila um fyrirtækið eftir að Union Carbide gekk út úr samstarfi sem undirbúningur hafði verið hafinn að.

Atriði sem þessi þurfa að vera okkur Íslendingum til lærdóms í sambandi við hugsanlegt samstarf við erlenda aðila um atvinnurekstur. Þetta á ekki síður við um markaðssamninginn varðandi fyrirtækið, sem ber öll einkenni hálfnýlendustefnu í samskiptum, þar sem það er falið þessum minnihlutaaðila á vald að sjá um alla afurðasölu verksmiðjunnar og meirihlutaaðilinn, íslenska ríkið, hefur enga heimild til að semja um sölu eða sjá um sölu á neinu af afurðum verksmiðjunnar hingað til eins og frá samningum hefur verið gengið. Fyrir þessa sölu fær Elkem 40 norskar kr. á tonn eða nálægt 1% af söluandvirði. Engin breyting hefur á þessu orðið við þennan samning sem hér er um að ræða varðandi þóknun, en látið er að því liggja að hugsanlegt sé að ná einhverju fram í sambandi við hlutdeild Íslendinga að markaðsfærslunni og er það vissulega til bóta hversu lítið sem er. En þarna hefði þurft að verða á veruleg breyting.

Tæknigjaldið, sem er hvorki meira né minna en 3% af veltu verksmiðjunnar, gengur skv. samningi til Elkem óháð því hvernig gengur í fyrirtækinu. Og þannig hefur þessi samstarfsaðili haft sitt býsna vel á þurru í þeim erfiðleikum sem yfir þetta fyrirtæki hafa gengið með því að hirða með þessum hætti út úr rekstri fyrirtækisins 5–6 millj. n. kr. árlega eða 15–20 millj. sem tæknigjald og sölugjald vegna markaðsfærslu. Þetta ætti að vera þeim mun ljósara nú fyrir okkur, hvers konar viðskipti þetta eru, með hliðsjón af tillögu um fyrirtækið sem nú er fjallað um hér á Alþingi vegna þáltill. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þar er gengið frá þessum málum með allt öðrum hætti. Þar er gert ráð fyrir að reikna þurfi með nokkrum kostnaði vegna tækniþjónustu fyrstu þrjú ár fyrirtækisins eða svo og minnkandi á fjórða ári, en síðan ekki gert ráð fyrir neinni aðkeyptri þjónustu í sambandi við tæknimál fyrirtækisins. Það reyndist kleift í sambandi við kaupsamninga á vélbúnaði að kaupa í rauninni öryggi og þjónustu af þeim aðilum sem samið var við um vélbúnað til verksmiðjunnar, og segir okkur þetta sína sögu um það hversu fráleitt þetta atriði er í samningi við Elkem varðandi tækniþjónustuna á Grundartanga. Mönnum var talin trú um það, virðist vera, þegar samningur var gerður að þessi tækniþjónusta væri svo stór og ómissandi þáttur að réttmætt væri að greiða fyrir hann hvorki meira né minna en 3% af veltu fyrirtækisins. Þessi niðurstaða á sinni tíð sýnir okkur hversu dýrkeypt er að ætla að treysta á forsjá erlendra aðila í sambandi við uppbyggingu atvinnurekstrar hér á landi. Gildir þar raunar einu hvort um er að ræða uppbyggingu okkar eigin atvinnurekstrar eins og vera ber eða hitt að farið yrði að þeirri stefnu, sem við höfum kallað orkusölustefnu og Sjálfstfl. enn þá hangir í sem sinni stefnu, þ. e. að kalla eftir erlendu áhættufjármagni, helst að meiri hluta eða að öllu leyti í sambandi við iðnað í stærri stíl hér í landinu. Ef menn ætla að ganga frá samningum þar að lútandi af einhverju viðskiptalegu viti verða menn a. m. k. að kunna fótum sínum forráð. Það krefst ekki að mínu mati í rauninni minni þekkingu á öllum aðstæðum en ef við ætluðum sjálfir að bera alla ábyrgð eða meginhluta ábyrgðar eins og við Alþb.-menn teljum rétt og skynsamlegt í sambandi við slíkan rekstur. Samningurinn um álverið í Straumsvík og síðan járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga er lýsandi dæmi um þetta, hversu dýrkeypt það er fyrir litla þjóð að ætla sér að ráðast í slík stórvirki, og það í samstarfi við erlenda aðila, án þess að vera nánast læsir á frumatriði þess sem við á að éta í slíkum rekstri til þess að átta sig á hvað er á ferðinni og hvað menn eru að gera.

Það gildir vissulega einu um það hvort þarna eru útlendingar einir á ferð eins og í álverinu í Straumsvík, en þeir hirða nú í formi tæknigjalds og sölugjalds 3.7% af veltu fyrirtækisins áður en skattar koma til útreiknings, skattar sem litlir hafa verið vegna þess að fyrirtækið hefur komið arði sínum undan með aðferðum sem nú eru þekktar því að þó við eigum meirihlutann í járnblendiverksmiðjunni er svona gengið frá hnútunum sem snerta mjög þýðingarmikla þætti í rekstri og rekstrarforsendum fyrirtækisins. Þannig nægir meirihlutaeignaraðildin ein ekki til þess að eðlilega sé staðið að málum.

Alþb. greiddi sem kunnugt er atkvæði gegn því að ráðist yrði í járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga vegna þess að það mat aðstæður svo og forsendur þessa fyrirtækis að ekki væri í það leggjandi, ekki væri á það hættandi að fara út í það fyrirtæki. Það hefur sannast á þeim árum sem liðin eru síðan að mat Alþb. að þessu leyti var rétt. Þeir flokkar sem báru ábyrgð á þessum samningi á sinni tíð og að honum stóðu koma nú með þennan samning hér útfærðan og óska eftir samþykki á honum — samningi sem endurspeglar í rauninni þær staðreyndir sem fyrir liggja varðandi reynsluna af rekstri fyrirtækisins til þessa.

En þó að þetta hafi verið viðhorf Alþb. á sínum tíma varðandi samninginn um járnblendiverksmiðjuna og ákvarðanir þar að lútandi hefur flokkurinn að sjálfsögðu viljað horfa raunsætt á þær staðreyndir sem fyrir liggja, uppbyggingu þessa fyrirtækis og starfrækslu og atvinnulega þýðingu þess og vegið og metið í sambandi við ákvarðanir sem við höfum komið að, m. a. í tíð tveggja ríkisstj., hvort skynsamlegt væri fyrir íslenskan þjóðarbúskap og fyrirtækið sem slíkt að stöðva rekstur þess tímabundið eða til lengri tíma eða reyna að halda því á floti og stuðla að því að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækisins. Þetta hefur verið metið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á undanförnum fimm árum, og ég hef hér mælt fyrir frv. um fjárhagslega björgunarstarfsemi fyrir fyrirtækið vegna þess að niðurstaðan hefur verið sú, að það væri þjóðhagslega óskynsamlegt og í rauninni lakara dæmi að fara að stöðva rekstur þess og gera það upp sem gjaldþrota fyrirtæki, þó að það gæti út af fyrir sig hafa verið aðferð til þess að komast út úr því samstarfi sem samið var um á sínum tíma, gat verið álitaefni að því leyti og ríkið leitaðist svo við að halda rekstrinum áfram eitt sér eða í samvinnu við aðra sem tekið yrði upp samstarf við.

Þetta sé ég ástæðu til að rifja upp hér og nú þegar fyrir liggur tillaga um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, og ég vil taka það fram að ég tel, þrátt fyrir mikla ágalla á niðurstöðu samninga um þessi atriði, að það sé réttmætt eða til bóta að gera þær ráðstafanir sem frv. þetta felur í sér. Það þýðir ekki að við teljum ekki gagnrýnisvert, Alþb.-menn, eins og raunar hefur komið fram við afgreiðslu málsins í Ed., gagnrýnisvert hvernig á einstökum þáttum máls hefur verið haldið við undirbúning þessara samninga.

Hæstv. ráðh. rakti það í sínu máli hvernig þetta mál var upp tekið haustið 1982 og ég þarf ekki að fjölyrða um það. Ég minni á að þegar Elkem leitaði eftir því við iðnrn. að viðræður yrðu hafnar við japanskan aðila með það fyrir augum að hann keypti hluta af Elkem í fyrirtækinu var við því brugðist með þeim hætti sem fram kemur í bréfi rn. frá 1. nóv. 1982, skilyrt að íslenska ríkið héldi meiri hluta og jafnframt að í tengslum við athuganir á sölu hlutafjár og markaðstryggingu eða sölu afurða á Japansmarkað yrðu teknar til athugunar æskilegar og nauðsynlegar breytingar á gildandi samningum, m. a. varðandi sölu, orkukaup og tæknisamvinnu.

Um þessi mál var fjallað nokkuð veturinn 19821983 og rétt fyrir stjórnarskipti vorið 1983, fyrir tæpu ári, fékk ég frá þeim, sem höfðu átt fundi með aðilum, skýrslu um stöðu málsins, dags. 25. maí, og að henni stóðu þeir sem höfðu farið með samningaviðræður fyrir hönd rn., fyrst og fremst ráðuneytisstjóri og Ragnar Árnason, sem ég hygg að hafi samið þessa stöðulýsingu, lýsingu á stöðu samninga, til að það lægi fyrir og til glöggvunar fyrir þann ráðh. sem við tæki. Ég mun ekki lesa þá grg. en tel ástæðu til að rifja hér upp það sem mestu skiptir í henni varðandi hugsanlega þátttöku þriðja aðila í Íslenska járnblendifélaginu, með leyfi forseta:

„Í því skyni að freista þess að ráða bót á rekstrarerfiðleikum Íslenska járnblendifélagsins til frambúðar hófu eignaraðilarnir, íslenska ríkið og Elkem als, viðræður við Sumitomo Corporation í lok árs 1982 um hugsan

lega þátttöku síðarnefnda aðilans í rekstri Íslenska járnblendifélagsins. Elkem als átti frumkvæðið að þessum viðræðum. Elkem átti þá og á raunar enn í miklum fjárhagserfiðleikum og hefur hug á að selja Sumitomo hluta af hlutafé sínu í Íslenska járnblendifélaginu, allt að 25% af 45% eign Elkem, með þeim skilyrðum að söluandvirði renni til fjárstuðnings við Íslenska járnblendifélagið og gegn því að Sumitomo taki við verulegum hluta af framleiðslugetu Íslenska járnblendifélagsins á viðunandi verði. Þrír viðræðufundir þessara þriggja aðila hafa nú verið haldnir og er sá fjórði áætlaður á Íslandi í fjórðu viku júní n. k. Einnig hafa verið haldnir allmargir samráðsfundir íslenska eignaraðilans og Elkem. Í viðræðum þessum hefur íslenski aðilinn lagt áherslu á eftirfarandi:

1. Ísland getur fallist á eignaraðild Sumitomo að Íslenska járnblendifélaginu ef vissum skilyrðum, til þess föllnum að tryggja hagsmuni Íslands og Íslenska járnblendifélagsins, er fullnægt.

2. Helstu atriði af þessu tagi eru:

1. Ísland haldi meirihlutaeign sinni í Íslenska járnblendifélaginu.

2. Elkem verði áfram næststærsti eignaraðilinn að Íslenska járnblendifélaginu.

3. Sumitomo kaupi fast lágmarksmagn af framleiðslu Íslenska járnblendifélagsins, t. d. 15–20 þús. tonn árlega, á verði sem nemi framleiðslukostnaði að viðbættum eðlilegum hagnaði.

4. Full nýting afkastagetu Íslenska járnblendifélagsins verði tryggð.

5. Samningar Íslenska járnblendifélagsins og Elkem varðandi tækniþóknun og söluþóknun verði endurskoðaðir. Óskað er eftir því að tækniþóknun lækki úr 3% í 0.5% og söluþóknun lækki eða falli niður.

6. Rafmagnssamningur Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar verði endurskoðaður með eftirfarandi fyrir augum:

a. Forgangsorkuverð hækki í 17.5 mill.

b. Orkuverðið verði verðtryggt.

c. Orkuverðið verði ákveðið í SDR (Special Drawing Rights mun það heita á ensku).

d. Hlutfalli forgangs- og afgangsorku verði hugsanlega breytt.

7. Íslenska járnblendifélagið taki virkan þátt í markaðsfærslu afurða sinna.“

Síðan segir:

„Viðræðurnar hafa leitt í ljós að möguleikar virðast á samkomulagi við Sumitomo sem orðið getur Íslenska járnblendifélaginu og íslenska eignaraðilanum mikil hagsbót. Til þess að slíkt samkomulag nái fram að ganga virðist þó nánast nauðsynlegt að fram fari mjög veruleg endurfjármögnun fyrirtækisins í því skyni að auka líkurnar á jákvæðri rekstrarafkomu þess í framtíðinni. Japanski aðilinn gerir þessa endurfjármögnun og arðsemi fyrirtækisins nánast að skilyrði fyrir þátttöku sinni. Á hinn bóginn virðist hann reiðubúinn til að fullnægja óskum Íslands hvað sölusamning snertir. Einnig er þess að geta að hagsmunir hans og Íslands fara saman hvað kröfur gagnvart Elkem varðandi sölumál og tæknigjald snertir. Endurfjármögnun Íslenska járnblendifélagsins þýðir að líkindum verulegar nýjar fjárhagslegar skuldbindingar af Íslands hálfu. Þessar skuldbindingar má skoða sem nýja fjárfestingu og meta arðsemi hennar. Þeir reikningar sem unnir hafa verið benda til þess að endurfjármögnun sem þáttur í langtímasölusamningi við sumitomo geti verið íslenska eignaraðilanum mjög hagstæð.“

Ég læt þessa tilvitnun í stöðuskýrslu nægja, en í henni er einnig gerð grein fyrir því hvernig skynsamlegt væri að standa að endurfjármögnun, og ýmsir fleiri hlutir, m. a. varðandi það þýðingarmikla atriði að skattinneign eða tapreikningur Íslenska járnblendifélagsins, eins og hann var í árslok 1983, verði felldur niður og segir þar: „Þetta er nánast skilyrði fyrir hagkvæmni endurfjármögnunarinnar frá sjónarmiði Íslands.“ Það verður ljóst þegar þess er getið að þessi tapreikningur er nú hvorki meira né minna en upp á um 1200 millj. kr., að ég hygg uppfærður, þannig að hugsanlegar auknar skatttekjur, miðað við að þessi tapreikningur yrði sléttaður út og byrjað á núlli, gætu numið allt að 600 millj. kr. á starfrækslutíma verksmiðjunnar umfram það sem ella yrði. Hér er því um afar þýðingarmikið atriði að ræða, en þetta atriði eins og mjög mörg önnur hefur ekki náðst fram í sambandi við þessa samninga.

Nú er það svo að stjórnarandstaðan, þar á meðal Alþb., hafði enga möguleika til þess að fylgjast með þessum samningum. Það var sett í það sérstök nefnd og hún vann sitt verk í kyrrþey mikilli og engar upplýsingar sem komu til þings eða stjórnarandstöðu um gang mála, þannig að við stöndum hér frammi fyrir gerðum hlut að þessu leyti. Ég vil að sjálfsögðu ekki fullyrða í einstökum atriðum um möguleika manna til að ná fram þeim þáttum sem mestu hefðu skipt og áhersla var lögð á þann tíma sem ég kom nærri þessu máli, m. a. í sambandi við raforkusamning, tæknigjald og söluþóknun og þennan tapreikning. En afskipti þeirra aðila sem um þetta hafa vélt, sem eru hinir sömu og hafa staðið í samningum af hálfu Íslands við Alusuisse vegna Íslenska álfélagsins hf., reynslan af því bendir ekki til þess að það sé haldið á málum af þeirri festu og sækni sem nauðsynlegt er fyrir Ísland í sambandi við sína hagsmunagæslu og sókn til þess að knýja fram sína hagsmuni og ná því sem frekast er unnt í slíkum efnum. En eins og ég tek fram hef ég ekki aðstöðu til að leggja mat á einstök skref eða málafylgju samninganefndarinnar vegna þess að ekkert liggur fyrir um það opinberlega hvernig á málunum var haldið af hálfu nefndarinnar í einstökum atriðum á einstökum stigum mála. En ég bendi á að varðandi raforkusamninginn hefur lítið náðst, lítið fengist umfram þessa von í arði af rekstri fyrirtækisins sem skipt yrði milli raforkusala, Landsvirkjunar og félagsins eftir ákveðnum reglum. Vissulega er það betra en ekkert, en það er lítill ávinningur. Menn spyrja: Hvað um það að vera að krefjast hærra raforkuverðs fyrir fyrirtæki sem þarf að rétta við með fjárhagslegum aðgerðum? Ég bendi á að þarna er minnihlutaaðili með 45% eignaraðild, sem þyrfti að standa undir sínum hluta af raforkukostnaði, og það er ekkert áhorfsmál fyrir íslenska ríkið og raforkufyrirtæki eins og Landsvirkjun að knýja á um hækkun raforkuverðsins, jafnvel þó að við þurfum að leggja til með því með einhverjum hætti um tíma, vegna þess að þarna eru aðrir aðilar sem mundu leggja í það púkk. Sama gildir um tæknisamninginn. Það þykir mér nú reyndar afleitast við þennan samning, ásamt þessu með tapreikninginn og skattlagningarmöguleika fyrirtækisins í framtíðinni, að þetta tæknigjald skuli standa óbreytt, 3% af veltu fyrirtækisins á samningstímanum — þessi nýlenduskattur, sem ég verð að kalla svo, sem við erum að borga til samstarfsaðila okkar fyrir nánast ekki neitt. Það hefur verið talað um að það eigi að auka eitthvað ráðgjafarþjónustu eða þróunarstarfsemi. Ég tel að það sé nánast yfirklór sem þar er á ferðinni. Og sama gildir um söluþóknunina sem helst þarna óbreytt og þeir skipta í bróðerni með sér, Sumitomo og Elkem, í sambandi við söluna hvor á sínum stað. Þá vil ég benda á að ekki er tryggð sala af þessum aðilum, sem hafa tekið að sér að selja afurðir verksmiðjunnar, á allri framleiðslu hennar miðað við full afköst. Með samningnum er aðeins tryggð sala á 50 þús. tonnum, en fyrir liggur að verksmiðjan getur afkastað a. m. k. 54–55 þús. tonnum, jafnvel meira, og það er þetta magn umfram 50 þús. tonn sem getur alveg skipt sköpum um afkomu verksmiðjunnar og að hún gefi arð. Það hefði vissulega skipt afar miklu að geta tryggt þennan hluta einnig í sambandi við þennan samning. En svo er ekki og því er mjög hætt við því að þegar þrengir á markaði liggi þessi hluti eftir og safnist upp.

Vegna þessara ágalla á samningi þessum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins og nýjan eignaraðila inn í samstarfið tel ég rökrétt af hálfu Alþb. að bregða ekki fæti fyrir framgang málsins, vegna þess að við teljum að þetta sé þó til bóta fyrir fyrirtækið fjárhagslega miðað við hinn kostinn að stöðva rekstur þess, sem hefði getað við blasað. En til þess að undirstrika að við teljum að ekki sé um að ræða þann árangur út úr þessum viðræðum sem efni stóðu til geri ég ráð fyrir að við fylgjum sömu afstöðu í þessari deild og í Ed. að sitja hjá við afgreiðslu málsins.