10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5671 í B-deild Alþingistíðinda. (4977)

212. mál, skógrækt

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um skógrækt nr. 3 6. mars 1955 eins og það er á þskj. 775, en í meðferð Ed. á málinu voru gerðar nokkrar breytingar á frv.

Með samþykkt laga nr. 54 22. nóvember 1907 um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands var af hálfu hins opinbera hafið skipulegt starf að skógræktarmálum. Markmið þess starfs hafa jafnan verið þau hin sömu og lýst var í 1. gr. áðurnefndra laga, en þar sagði:

„Skógrækt skal hefja með því markmiði að friða og bæta skóga þá og skógaleifar sem enn eru hér á landi, rækta nýja skóga og leiðbeina landsmönnum í meðferð skógs og gróðursetningu.“

Að þessu verkefni hafa skógræktarstjóri og Skógrækt ríkisins unnið en hlutur skógræktarfélaga og einstaklinga er einnig stór. Þeir þættir skógræktarstarfsins sem mest áhersla hefur verið lögð á er verndun skógarleifa og ræktun nýrra skóga til að bæta og fegra landið. Reynslan hefur líka sýnt að á ýmsum svæðum landsins má rækta skóg til viðarframleiðslu, horfa menn þar m. a. til þess árangurs sem náðst hefur í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu, en á árinu 1969 veitti Alþingi 500 þús. kr. fjárveitingu til framkvæmda við sérstaka áætlun um skógrækt á bújörðum þar. Skógræktargirðingar skv.

Fljótsdalsáætlun taka nú til 12 jarða og ná yfir um 450 hektara. Fyrst var plantað þarna 1970 og hafa hæstu lerkitrén þegar náð 5 metra hæð.

Mikill og vaxandi áhugi er nú fyrir því meðal forvígismanna skógræktarmála að hafist verði handa um enn frekari skógrækt í þeim tilgangi að koma upp nytjaskógum á bújörðum og leggja þannig grunninn að nýrri búgrein hér á landi. Er fyrirhugað að unnið verði að slíkri ræktun með skipulegum hætti á grundvelli sérstakra áætlana um nytjaskóga.

Með ræktun nytjaskóga er verið að leggja í sjóð fyrir framtíðina. Slík fjárfesting fer oftast ekki að skila tekjum fyrr en eftir 25 til 30 ár og er því talið nauðsynlegt og eðlilegt að hið opinbera stuðli að því að þessi nýja búgrein geti orðið að raunveruleika hér á landi. Því er þetta frv. flutt. Með frv. er lagt til að inn í skógræktarlögin komi nýr kafli, 4. kafli, undir fyrirsögninni Um ræktun nytjaskóga á bújörðum og eru meginatriði frv. þessi:

1. Ríkissjóður styrki ræktun nytjaskóga á bújörðum í þeim héröðum landsins þar sem skógræktarskilyrði eru vænleg eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni.

2. Styrkur ríkissjóðs má nema allt að 80% stofnkostnaðar við undirbúning skógræktarlandsins.

3. Sett eru ýmis skilyrði fyrir styrkveitingunni, svo sem að gerð hafi verið skógræktaráætlun fyrir viðkomandi svæði og fyrir liggi samningur milli Skógræktar ríkisins og viðkomandi bónda um skógræktarlandið og framkvæmdir.

4. Þá eru settar reglur um meðferð skógræktarlandsins, aðilar skipta réttindum yfir því, og umráð Skógræktar ríkisins, sé út af brugðið. Er þessum ákvæðum ætlað að tryggja að framlög ríkisins til ræktunar nytjaskóga nýtist til þessa verkefnis. Ræktun nytjaskóga tekur langan tíma og því er nauðsynlegt að frá upphafi séu til staðar skýrar og ótvíræðar reglur um það land sem ráðstafað hefur verið til slíkrar skógræktar.

5. Skv. frv. skal nefnd heimamanna vera Skógrækt ríkisins til aðstoðar við undirbúning og framkvæmd skógræktaráætlunar en yfirumsjón með ræktun nytjaskóga verður í höndum Skógræktar ríkisins. Tekið er fram að Alþingi skuli árlega skipta því fé sem veitt er til ræktunar nytjaskóga milli hinna einstöku skógræktaráætlana.

Eins og áður sagði er frv. þessu ætlað að vera grundvöllur nýrrar búgreinar hér á landi. En þessi búgrein verður ekki stunduð hvar sem er á landinu og náttúrleg skilyrði til skógræktar á Íslandi eru mjög misjöfn eftir landshlutum svo og svæðum innan landshluta. Skv. frv. eru það skilyrði styrkveitinga að skógræktarskilyrði séu vænleg í viðkomandi héraði og verður við gerð skógræktaráætlana að leggja mat á þetta atriði. Í grg. frv. eru nefnd fimm svæði sem vænlegust þykja til skógræktar með viðarframleiðslu að markmiði en önnur svæði kunna þar einnig að koma til greina. Gerð sérstakra skógræktaráætlana skv. frv. á að tryggja að framlög til ræktunar nytjaskóga verði veitt til þeirra staða þar sem árangur af skógræktinni er næsta viss hvað varðar náttúrleg skilyrði og veðurfar.

Erlendis hefur víða verið farin sú leið á þeim stöðum þar sem skilyrði til skógræktar eru áþekk því sem hér gerist að hið opinbera hefur með sérstökum framlögum styrkt menn til að koma upp skógi. Horfa menn þá ekki síst til þeirra jákvæðu áhrifa sem skógræktin hefur á umhverfi sitt og þess að langur tími mun líða þar til skógræktin fer að skila viðkomandi skógareiganda tekjum. Í flestum tilvikum er ræktandinn að leggja í sjóð fyrir komandi kynslóðir. Hann friðar land sitt og leggur í kostnað við skógræktina og umhirðu skógarins.

Í þessu frv. er lagt til að ríkið veiti sérstök framlög er geti numið allt að 80% af stofnkostnaði við ræktun nytjaskóga. Frá Norður-Noregi og Norður-Svíþjóð höfum við dæmi um að slík framlög nemi allt að 90%. Eins og fram kemur í fskj. 1 með frv, er kostnaður við að koma upp nytjaskógi umtalsverður. Þar eru plöntukaup stærsti kostnaðarliðurinn eða rúm 50% af stofnkostnaði.

Sú viðmiðun frv. að framlag ríkisins geti numið allt að 80% af stofnkostnaði er við það miðaður að ræktendur þurfi ekki sjálfir að leggja fram verulegt eigið fé í upphafi heldur geti þeir með eigin vinnuframlagi að mestu greitt sinn hlut. Mikilvægt er líka að bændur og fólkið í sveitum vinni að þessu skógræktarstarfi undir handleiðslu kunnáttumanna og þekking á þessari nýju búgrein breiðist út í sveitunum og verði grundvöllur aukinna atvinnutækifæra þar. En ræktandinn verður sjálfur að annast viðhald og hirðingu skógarins og girðinga eftir að plöntun er lokið og bera kostnað af því.

Þá er rétt að undirstrika að frv. gerir ekki ráð fyrir sjálfvirkum framlögum ríkisins til nytjaskóga heldur þarf Alþingi hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga að ákveða hversu miklu fé verði varið til þessa málaflokks.

Ég rek hér ekki efni einstakra ákvæða frv. en vil þó vekja sérstaka athygli á þeim ákvæðum þess sem lúta að meðferð á því landi sem ráðstafað hefur verið til ræktunar nytjaskóga. Í sumum tilvikum eru þetta ströng ákvæði og leggja kvaðir á skógræktarlandið og eiganda þess. Slíkt er hins vegar nauðsynlegt með tilliti til þess langa tíma sem ræktun nytjaskóga tekur og framlag samfélagsins sem heildar við upphaf ræktunar.

Þá er í frv. lagt til að 20. gr. skógræktarlaganna frá 1955 verði felld niður, en skv. henni er heimilt að styrkja ræktun barrskóga á jörðum og jarðarskikum þó tilgangur þeirrar ræktunar sé ekki eingöngu til beinna fjárhagslegra nytja. Er talið eðlilegra að fella þessa heimild niður samhliða upptöku ákvæða um ræktun nytjaskóga. Einnig er lagt til að 23. gr. skógræktarlaganna verði breytt í þá veru að orða greinina sem heimild miðað við það fé sem veitt er til þessa verkefnis á fjárlögum hverju sinni.

Fyrir nokkrum árum var hafist handa við að endurskoða skógræktarlögin frá 1953 í heild, en nefnd sú sem unnið hefur að því verkefni hefur ekki lokið störfum. Ég taldi hins vegar ekki rétt að láta lagasetningu um ræktun nytjaskóga á bújörðum bíða eftir endurskoðun skógræktarlaganna í heild.

Ég nefndi hér fyrr að áhugi bænda og Skógræktarinnar á því að hefjast handa um ræktun nytjaskóga er mikill. Þannig hafa 40 bændur í Eyjafirði lýst sig reiðubúna til að hefja slíka skógrækt á 900 hektörum lands. Hópur bænda í Árnessýslu er einnig tilbúinn að hefjast handa og í Suður-Þingeyjarsýslu og Borgarfirði hefur verið unnið að könnun og möguleikum ræktunar nytjaskóga. Á öllum þessum stöðum hafa búnaðarsamböndin og skógræktarfélögin unnið að málinu í samráði við Skógrækt ríkisins. Alþingi hefur líka stigið fyrsta skrefið í framgangi þessa máls með 500 þús. kr. framlagi til ræktunar nytjaskóga við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984.

Málið fékk ítarlega athugun í hv. landbn. Ed. þar sem gerðar voru nokkrar breytingar á frv. í samræmi við umsagnir sem bárust. Þess vegna vænti ég að hv. Nd. sjái sér fært að afgreiða frv. nú fyrir þinglok. Því legg ég til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.