10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5684 í B-deild Alþingistíðinda. (4991)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tala lengi en hv. þm. Bjarni Guðnason varð til þess að ég bað hér um orðið.

Það er alveg rétt athugað hjá hv. þm. að það er alveg sama hvað sagt er um þetta mál. Ef formenn flokkanna eru búnir að ná saman um eitthvert mál skipta rök engu máli. Í sjálfu sér er það bara tímaeyðsla og til að ergja menn að taka til máls í slíkum málum. Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum var hér til umr. frv. um öryggiseftirlit. Það var í 100 greinum. Það var illa frá því máli gengið, það verður alltaf að mínu mati hægt að benda á það sem dæmi um hvernig ekki á að ganga frá frv., og þetta viðurkenndu margir, en það mátti engu breyta. Það var vegna þess að samið var um málið áður. Það var sett í nefnd og samið um málið áður. Segja má að það sé svipað með það mál sem hér er um að ræða.

Hv. þm. Bjarni Guðnason talaði um réttlæti. Réttlæti um hvað? Það er margs konar réttlæti. Og það er ekki bara réttlæti í vægi atkvæða. Lífsaðstaða hvers og eins hlýtur líka að vera réttlætismál, nema menn séu komnir á þá skoðun að best sé fyrir þjóðfélagið að safna öllum saman hér á suðvesturhornið. Það eru 110 þús. manns úti á landsbyggðinni sem t. d. afla yfir 60% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, fyrir utan landbúnaðarvörurnar sem þjóðin neytir og framleiddar eru á landsbyggðinni. Hvernig væri höfuðborgarsvæðið statt ef þessi framleiðsla hyrfi að miklu leyti? Það er kannske hægt að sækja sjó héðan að einhverju leyti, en ég er hræddur um að það yrði kostnaðarsamt og ég er ekki farinn að sjá hvernig það þjóðfélag mundi þróast.

Ef það er okkar skoðun á annað borð að þjóðin þurfi að byggja landið til að nota gæði þess hljótum við að vilja stuðla að því að lífsaðstaðan sé sem líkust hvar sem er á landinu — eða er það sú réttlætiskennd sem jafnaðarmaðurinn hv. þm. Bjarni Guðnason tileinkar sér að það sé aðeins vægi atkvæða sem sé réttlætismál? Hann minntist á Raufarhöfn. Ef við lítum á Raufarhöfn til lengri tíma hefur sennilega ekkert byggðarlag á landinu aflað eins mikils gjaldeyris á hvern íbúa og Raufarhafnarbúar. Ég hef ekki farið fram á annað en lífsaðstaða íbúanna verði jöfnuð um leið og kosningarrétturinn. Það er mín krafa að formenn flokkanna standi við gefin fyrirheit að þessu leyti. Um það er barist.

Hv. þm. talaði um að það væri illt og ömurlegt, að mér skildist, að það skuli vera vaxandi átök á milli þéttbýlis og landsbyggðarinnar. En þetta frv. og þetta mál, sem við erum að fjalla um hér, er einmitt til þess fallið að auka þann ágreining því að fólkið úti á landsbyggðinni finnur að verið er að svipta það réttindum sem það hefur haft, en þrátt fyrir meira atkvæðavægi hefur það ekki í tekjum eða aðstöðu notið svipaðra réttinda og það fólk sem hér býr. Það hefur enginn bannað hv. þm. Bjarna Guðnasyni eða öðrum sem hér eru að flytja út á land og hafa þannig meiri kosningarrétt. Hvers vegna fara þeir ekki og reyna að nota þennan kosningarrétt ef það er mikilvægasta réttlætismálið í þeirra huga? Ég spyr að því.

Ég ætla ekki að tala lengi, en ætla bara að segja að ef þetta mál verður knúið í gegn án þess að staðið verði við það að jafna lífsaðstöðuna í landinu er enginn vafi á að það verður ný uppstokkun í íslenskum stjórnmálum. Það er ekki landsbyggðinni að kenna, heldur þeim mönnum sem hafa lofað hér, formönnum þessara fjögurra flokka, og svikið sín fyrirheit. Það er þeim að kenna, en ekki fólkinu úti á landi. Þessu var lofað, en ég sé ekki annað en ekki eigi að standa við þau loforð. Það er mál alveg út af fyrir sig nú, 40 árum eftir að við öðluðumst fullt sjálfstæði. Það hefur verið rætt um það öll árin að við þyrftum að fá okkar sérstöku stjórnarskrá. Ég spyr: Erum við nær? Bendir nokkuð til þess að við séum nær því en var fyrir 40 árum? En það gæti orðið alvarlegt, ekki síður fyrir þéttbýlið, ef það sem verið er að gera hér í sambandi við vægi atkvæða mundi verða til þess að það yrði uppstokkun í íslenskum stjórnmálum og átökin á milli landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarinnar mundu harðna. Ég er ekkert viss um að þeir sem hér búa mundu þá telja sig hafa grætt á því að halda á málum eins og mér sýnist að stefnt sé að.