10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5685 í B-deild Alþingistíðinda. (4992)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er til umr. er vissulega afar mikilvægt mál og þau efni sem rædd eru í tengslum við það. Ég ætla hér að víkja að nokkrum þáttum sem varða þetta mál, greina frá nokkrum viðhorfum, sem ég hef til þess, án þess að fara langt út í þau efni. Ég geri ráð fyrir að þetta mál eigi eftir ræða enn mikið hér á þinginu, svo sem eðlilegt er, og ég tel mjög eðlilegt að inn í þessa umr. komi skoðanaskipti varðandi fleiri þætti en kosningarréttinn einan og skiptingu þingsæta á kjördæmi eins og kveðið er á um í þessu frv.

Ég vil að það komi fram hér að við umr. um þessi mál í mínum þingflokki og innan míns flokks hef ég verið stuðningsmaður þess að stíga nú skref til jöfnunar á atkvæðisrétti í landinu allt að því marki sem gert var fyrir 25 árum síðan, þegar síðast varð breyting í þessum efnum, árið 1959. Um það var gerð samþykkt á vettvangi Alþb. fyrir nokkrum árum þegar sú umr. byrjaði sem nú hefur leitt til framlagningar þessa frv., raunar á síðasta þingi. Ég tel mjög eðlilegt að knúið sé á um leiðréttingu af þessu tagi af þeim sem í þéttbýli búa og sem eru fulltrúar þeirra kjördæma. En hitt er jafnljóst, að það er eðlilegt að jafnhliða sé litið til annarra þátta sem tengjast lífsaðstöðu manna, eins og hér hefur verið um rætt af nokkrum ræðumönnum sem tekið hafa þátt í þessari umr.

Líka er eðlilegt að það sjónarmið komi fram að óeðlilegt sé að gera slíka þætti eins og leiðréttingu á vægi atkv. í kjördæmum að einhverri skiptimynt við aðra þætti sem varða afkomu manna og lífsaðstöðu. Ég held að það sé svo með okkur fulltrúa landsbyggðarinnar hér á Alþingi, að okkur er það ekkert ljúft að þurfa að stinga fast við fæti í þeim efnum, þegar mál sem þessi ber á góma, og það er ekki að tilefnislausu. Ég held að þær raddir sem hér hafa komið fram, m. a. í umr. í kvöld og áður, eins og sjónarmið hv. 3. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. e., ég tel ekkert óeðlilegt þó að þessir hv. þm. taki nokkuð sterkt til orða í þessum efnum. Það endurspeglar í rauninni ákveðna örvæntingu, sem gætir í vaxandi mæli, ef hægt er að tala um það að versnað geti í þeim efnum, ákveðna örvæntingu fólks víða úti um landið í sambandi við afkomumöguleika og augljósa misskiptingu í aðstöðu, bæði til áhrifa á stjórnsýslu landsins og eins til að sjá sér og sínum farborða.

Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að það væri vænlegt til árangurs að þurfa að láta skerast í odda mjög hart í tengslum við það mál sem hér er til umr. Ég hef talið æskilegt, að sá andi svifi yfir vötnum hér á hv. Alþingi að jafnréttismál byggðanna væru daglegt viðfangsefni Alþingis, mættu hér skilningi jafnt dreifbýlisþm. sem þéttbýlisþm. og fengju eðlilegan hlut í löggjöf og hjá framkvæmdavaldi. Ég hygg að afstaða þm. þéttbýlisins, eða kannske öllu heldur afstöðuleysi, sem oft gætir í sambandi við hagsmunamál hinna dreifðu byggða, sé engan veginn yfirveguð eða fram komin af ásettu ráði. Ég held að þar gæti þess miklu frekar að þeir eru ekki í daglegri snertingu við þau vandamál sem við er að fást úti um hinar dreifðu byggðir og leiða því eðlilega ekki hugann eins oft að þeim vanda sem þar er við að fást. Vissulega þyrfti að glæða þann skilning meðal. þm. allra að Íslendingar eigi að vera ein þjóð í landi sínu með tilliti til afkomumöguleika, að landið beri að byggja sem heild og þróa þannig að allir fái notið svipaðra gæða eða hafi möguleika til þess. En til þess að svo megi verða þarf margt að koma til, og það væri langt mál að fara hér út í það að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, rekja ástæður fyrir því eins og ég sé þær, hvernig komið er í landinu. Það ætla ég ekki að gera hér og nú við þessa umr. Ég vil aðeins fullyrða að við höfum ekki beitt réttum stjórntækjum í baráttunni fyrir byggðajafnvægi á Íslandi á liðnum árum. Við höfum verið fastir á marga lund í óheppilegu fari, stirðnuðu fari, og það hefur átt hlut í því að tekist hefur að koma nokkru óorði á jafnsjálfsagðan hlut eins og byggðastefnu, hlut sem ætti að vera jafnsjálfsagður og byggðastefna sem risið fengi undir nafni.

Ekki hefur haldist í hendur sem skyldi atvinnuleg uppbygging víða úti um landið og uppbygging félagslegrar þjónustu og tengsl þessara þátta innan byggðanna og milli byggðanna úti um landið, eins og skynsamlegt hefði verið. Þar er verulegur misbrestur á. Þann misbrest má rekja m. a. til ófullnægjandi stjórnunar eða vanburða stýringar í stjórnsýslukerfi landsins. Þar hefur ekki verið tekið, hvað undirbúning snertir, á þáttum með eðlilegum hætti. þar hefur verið gripið oft og tíðum til skammtímalausna eða skammsýnna lausna í sambandi við fjárfestingu og margháttaðar ráðstafanir. Þetta hefur að mínu viti leitt til þess að talsvert af því fjármagni sem varið hefur verið til sjálfsagðrar og eðlilegrar atvinnuuppbyggingar úti um land og til endurbóta þar í félagslegri þjónustu og menningarlegum efnum, hefur ekki skilað sér sem skyldi fyrir íbúa þeirra byggðarlaga sem ættu að njóta þess. Ég ætla ekki að leita uppi sökudólga í þessu efni. Þeir eru víða. En þetta á að vera umhugsunarefni fyrir okkur alþm. Ég tel mikla nauðsyn á því og vil gjarnan stuðla að því að reynt verði að endurmeta aðferðir í sambandi við byggðastefnu í landinu. Það verði reynt að sjá til þess að hún sé ekki eitthvað sem fyrst og fremst sé unnið að uppi í Framkvæmdastofnun, svo gott sem það er, eða unnið að sem einhverju alveg sérstöku verkefni, nánast innan gæsalappa, heldur þurfi hún að tengjast öllum meiri háttar ákvörðunum sem teknar eru í þjóðfélaginu, sem framkvæmdavaldið hefur íhlutun um og löggjafarvaldið fær einhverju ráðið um. Það held .ég að sé vænlegra til árangurs, eða eina leiðin í rauninni til árangurs, að menn taki þannig á málum að þessi þáttur jafnréttismála, skynsamleg dreifing á fjármagni og mannafla í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, verði til meðferðar alltaf þegar um það er að ræða, bæði við hina árlegu fjárlagagerð, eins og það vissulega er að vissu marki, en einnig þegar horft er til lengri tíma.

Það er stundum hent gaman að því af ýmsum að til lítils sé að berjast fyrir því að færa stjórnsýsluþætti út á land. Ég held að þar sé hins vegar um þátt að ræða sem gefa þarf mun meiri gaum að en gert hefur verið. Ég hef raunar ekki trú á því að skynsamlegt sé að fara að flytja til þætti beint úr stjórnarráðinu, eins og sjálf rn., það sé áhorfsmál um stórar stofnanir sem hafa hreiðrað um sig hér í höfuðstaðnum. Menn eiga kannske að taka á því sem líklegra er að fái stuðning og viðráðanlegt er og geti búið landsbyggðina í stakk til þess að taka við stærri þáttum síðar. Þarna hefur að vísu nokkuð verið að gert á undanförnum árum, en engan veginn nóg, engan veginn jafnmikið og vera þyrfti. Ég tel að marka þurfi um það miklu fastari stefnu og helst nokkuð ákveðna reglu að færa út í landshlutana þjónustuþætti við hvaðeina sem þar fer fram og hefur ákveðið lágmarksumfang. Það hefur miklu meira gildi en fjármagnið eitt. Það er fólkið sem fylgir, það er þörfin fyrir menntað og skólað fólk sem getur verið blóðgjöf í byggðarlögin með öðrum sem þar eru fyrir. Það þarf að sækja miklu fastar og ákveðnar fram að þessu leyti. Lögmál hins svokallaða frjálsa markaðskerfis draga fólkið saman að einum punkti. Og það eru ekki bara kapítalistarnir, sem við köllum svo, fjármagnsöflin hin sterkustu í landinu, sem þar vinna. Þar vinnur opinbera kerfið. Og þar vinna einnig aðilar sem ættu og hafa vissulega oft vilja til þess að hlúa að landsbyggðinni, eins og þættir er tengjast samvinnuhreyfingunni og Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem einnig hefur fallið í þá gryfju að fjármagna í óþörfum og allt of ríkum mæli hér í höfuðstaðnum.

Það þarf sem sagt að leita víða fanga til að efla heilbrigða byggðastefnu í landinu og það ætti að vera viðfangsefni okkar nú og framvegis að afla þess fylgis, leita með jákvæðum hætti leiða til þess að snúa straumnum við, því að það er bæði þjóðinni fyrir bestu og fólkinu í byggðunum, einnig Reykjavíkursvæðinu, til lengri tíma litið. Það er eðlilega við umr. sem þessa minnst á þætti sem skera í auga varðandi misrétti og misvægi. Mér er sem ég sæi alþýðu manna hér á þessu þéttbýla svæði, í þessu borgríki við Faxaflóa, axla þær byrðar sem fólk á landsbyggðinni, sem vinnur hörðum höndum í frumvinnslugreinum atvinnulífsins, má þola, að sjá fólk hér axla þær byrðar án þess að fylkja sér saman til varnar. Ég er nokkuð viss um að það yrði gert ef fólk hér ætti t. d. að rísa undir þeim orkukostnaði, sem menn búa við í heilum landshlutum og eðlilega er hér mjög til umr. með réttu, en má þó ekki yfirgnæfa umr. því að það er aðeins einn þáttur, að vísu stór þáttur.

Vöruverðið kemur einnig inn í þessa mynd og það í vaxandi mæli. Nú þegar samkeppni vex í smásölu hér á Reykjavíkursvæðinu verður enn augljósari sú mismunun sem fólk býr við í sambandi við kaup á lífsnauðsynjum, sú miklu meiri dýrtíð sem menn mega á sig taka úti um landið í viðskiptum við verslanir sem ýmist hafa takmarkaða aðstöðu eða skortir vilja til að færa vöruverðið niður eins og þörf væri á. Ég held að þarna sé verulegt umhugsunarefni fyrir kaupfélögin, sem víða úti um landið eru aðalverslanirnar, sums staðar einu verslanirnar í heilum byggðarlögum. Ég veit að víða er komin upp krafa um það og hreyfing hjá alþýðu manna að fara að stofna sérstök verslunarfélög til þess að geta fengið skapleg viðskipti fram hjá kaupfélaginu sínu, sem það gjarnan vildi hlúa að og hefur skipt við um langan aldur, en finnur fyrir að ekki hefur tekið sem skyldi þátt í þeirri þróun sem sjálfsögð er til að færa niður verð á brýnum lífsnauðsynjum, reyna að hafa aðföngin sem ódýrust og koma þannig vöruverðinu niður svo sem föng eru á. Þetta er einn verulegur þáttur þegar stórmarkaðirnir hér í Reykjavík keppast um viðskiptavinina og hafa með samkeppni sinni, a. m. k. um skeið, fært niður verð á lífsnauðsynjum þannig að umtalsvert er fyrir þá sem þar stunda viðskipti og er sérstaklega búbót fyrir fjölskyldufólk þar sem fleira er í heimili.

Ég gæti haft þennan lestur hér til muna lengri. En ég vildi aðeins tjá mig um þessi mál, ekki fara hér í neitt andóf við þetta frv. með málþófi eða neinu slíku, slíkt er mér ekki í hug. Við eigum að leita leiða til að fá tekið á þessum málum, þessum sjálfsögðu jafnréttismálum byggðanna hér á þinginu eins og loforð standa til um. Ég get tekið fyllilega undir með þeim mönnum sem undrast það að ekki skuli meira hafa verið að gert — það má kannske segja að ekki skuli eitthvað hafa verið að gert — til þess að efna þau fyrirheit sem gefin voru hér á þinginu í fyrra og hafa verið ítrekuð með yfirlýsingum við meðferð þessa máls í hv. Ed. Mér finnst það bera vott um mikið kæruleysi, ég vil ekki segja bjartsýni á afstöðu okkar, ég vil heldur kalla það kæruleysi, að hafa ekki sýnt meiri og alvarlegri lit á að taka á þessum málum í umr. og til undirbúnings jöfnunaraðgerða en raun ber vitni.

Ég ætla ekki að fara að tala um einstaka þætti mála eins og t. d. húshitunarmál, sem koma hér til umr. í tengslum við mjög gagnslítið frv. sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt og er nú til meðferðar í Ed. Það er einn þáttur þessara mála nærtækur og ég mun ræða það þegar málið kemur hér til hv. deildar. En þau eru fleiri atriðin og við þurfum að reyna að tryggja það að eðlileg byggðaviðhorf endurspeglist í allri þeirri löggjöf og öllum þeim ákvörðunum sem hér eru teknar, sem geta varðað hagsmuni þjóðarinnar sem heildar, einnig hinna, minni hlutans sem býr utan Faxaflóasvæðisins.