10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5690 í B-deild Alþingistíðinda. (4994)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég og síðasti ræðumaður tölum ólíkt tungumál. Við Íslendingar erum ein þjóð og búum í einu landi og það hefur alltaf verið skoðun mín að það ætti að jafna lífskjörin hvar sem menn búa. Þetta eigi að gera með efnahagslegum aðgerðum, heilbrigðri byggðastefnu, skynsamlegri fjárfestingu, en það eigi ekki að gera það með því að hafa af öðrum ákveðin mannréttindi, þ. e. draga úr atkvæðisrétti fólks í sumum landshlutum. Þetta eru tveir ólíkir hlutir. Það er enginn ágreiningur milli mín og fyrri ræðumanna um það að vinna þannig að málum íslensku þjóðarinnar að bæta lífskjörin og ná jöfnuði í lífskjörum hvar sem menn búa. Það er enginn ágreiningur um slíka hluti. Það er bara ágreiningur um það hvernig á að standa að því. Það er allt og sumt. Það eina sem ég hef haldið fram í raun og veru er að það er alger misskilningur að leyfa sér þá aðferð að hafa af ákveðnum hluta þjóðarinnar full mannréttindi og halda að þar með eigi að ná batnandi lífskjörum í öðrum hlutum landsins. M. ö. o. það er enginn ágreiningur um þjóðmálastefnu í sjálfu sér, heldur hitt, hvernig á að standa að þessum málum. Síðasti ræðumaður, sem er mikill mælskumaður, hefði gott af því að ígrunda þessi mál og ræða þau dálítið af meiri skynsemi, blanda ekki saman ólíkum hugtökum. Það er allt og sumt. Það er hugtakaruglingurinn sem ég er að deila á.