08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

72. mál, gjaldheimta á Suðurnesjum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fsp. hans. Og ég veit að hann hefur áður beitt sér fyrir mörgum framfaramálum í kjördæmi sínu og mér er því ljúft að svara fsp. um þetta áhugamál hans.

Spurt er í fyrsta lagi hver sé afstaða fjmrn. til sameiginlegrar gjaldheimtu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og í öðru lagi hvort rn. sé reiðubúið að fela slíkri stofnun innheimtu á skatttekjum ríkisins á þessu svæði. Tel ég rétt að svara þessu í einu lagi.

Af hálfu rn. er verulegur áhugi fyrir því að samstarf náist við sveitarfélög á Suðurnesjum um sameiginlega innheimtu opinberra gjalda á svæðinu. Er rn. fyrir sitt leyti reiðubúið að hefja nú þegar viðræður við sveitarfélögin um nánara fyrirkomulag slíkrar innheimtu, en eins og kunnugt er gera lög ráð fyrir fleiri en einum möguleika í þeim efnum. Engar formlegar viðræður hafa enn átt sér stað um þetta efni milli rn. og sveitarfélaga, en rn. er kunnugt um að yfir stendur könnun meðal sveitarfélaganna um hver áhugi sé þeirra á meðal um slíka sameiginlega innheimtu. Ég hel þegar rætt þetta við ráðuneytisstjórann og ég veit ekki betur en undirtektir séu yfirleitt mjög jákvæðar.