10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5692 í B-deild Alþingistíðinda. (5000)

319. mál, kvikmyndamál

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Núgildandi lög um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð eru frá árinu 1978 og óhætt er að fullyrða að með tilkomu þeirra laga hafi verið stigið stórt skref í framfaraátt á þessu sviði.

Kvikmyndasjóður var stofnaður árið 1978 og fjárveitingar til hans hafa verið sem hér segir: Árið 1979 voru þær sem svarar 300 þús. gömlum kr., 1980 450 þús., 1981 1 millj., 1982 1.5 millj., 1983 5 millj., 1984 6.5 millj.

Þess skal getið að á árinu 1980 fór fram aukaúthlutun úr sjóðnum og þá var úthlutað 50 500 000 gömlum kr. eða 505 þús. nýkr. Þar var um að ræða söluskatt af íslenskum kvikmyndum. Söluskattur af íslenskum kvikmyndum var síðan felldur niður í tíð síðustu ríkisstj.

Á tímabilinu 1979–1984 hafa verið veittir styrkir til 18 leikinna kvikmynda og má telja næsta fullvíst að ekki hefði verið ráðist í gerð neinnar þeirrar ef ekki hefði komið til myndarlegur styrkur frá Kvikmyndasjóði. Allar þessar myndir hafa verið fullgerðar og sýndar hér á landi og erlendis að undanteknum þeim tveim leiknu myndum sem hlutu styrk 1984 en ráðgert er að ljúka á þessu ári.

Á sama tíma hafa verið veittir styrkir til 28 heimildamynda, en af þeim munu aðeins 6 vera fullgerðar. Margar heimildamyndir eru langtímaverk og að jafnaði miklu erfiðara að fjármagna þær þar sem tekjur af þeim eru sjaldnast aðrar en af sýningum í sjónvarpi. Þá hafa verið styrktar tvær teiknimyndir, ein grafísk mynd og tvær 8 mm myndir.

Sjóðurinn hefur einnig tekið þátt í að styrkja kynningar á íslenskum myndum á kvikmyndahátíðum og kynningum erlendis og á öðrum svipuðum vettvangi. Kvikmyndasjóður hefur einnig af íslenskri hálfu tekið þátt í samstarfi norrænu kvikmyndastofnananna um kynningar á norrænum kvikmyndum, en norrænu kvikmyndastofnanirnar iðka öfluga kynningarstarfsemi, t. d. á stærstu kvikmyndahátíðum heims í Cannes og Berlín. Þá hefur sjóðurinn tekið þátt í norrænum kvikmyndakynningum, m. a. í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Kvikmyndasjóður hefur engu starfsliði haft á að skipa en í stjórn hans sitja 3 menn, einn tilnefndur af Ríkisútvarpi og sjónvarpi, annar af Námsgagnastofnun, fræðslumyndasafni, og formaður skipaður af menntmrh., en það er ráðuneytisstjóri Knútur Hallsson.

Kvikmyndasafn var sett á laggirnar með lögum frá 1978 og hefur á vegum þess verið unnið að því að bjarga frá glötun gömlum íslenskum kvikmyndum og kvikmyndum um liðna atburði á Íslandi. Hefur safnið á þessu sviði unnið ómetanlegt starf þar sem síðustu forvöð hafa verið að bjarga mörgum þessara mynda, einkum nítratmyndum sem eru mjög forgengilegar. Safnið hefur nú aðsetur í leiguhúsnæði að Skipholti 31 hér í borg og hefur þar til afnota eitt herbergi og geymslu. Við safnið starfar einn maður í hálfu starfi og yfir safninu er 5 manna stjórn. Fjárveiting til safnsins á fjárlögum 1984 er 903 þús. kr.

Um frv. sem hérna liggur fyrir er það enn fremur að segja að það var upphaflega samið af nefnd sem skipuð var af fyrrverandi menntmrh., hæstv. núv. forseta Nd. Nefndin skilaði endanlega störfum til ráðuneytisins 25. mars 1982. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka er þá áttu sæti á Alþingi. Frá Alþb. var Guðrún Helgadóttir, frá Alþfl. Vilmundur heitinn Gylfason, frá Sjálfstfl. Halldór Blöndal og frá Framsfl. Sigmar B. Hauksson. Einnig áttu sæti í nefndinni Þorsteinn Jónsson frá Félagi kvikmyndagerðarmanna, Jón E. Böðvarsson frá fjmrn., en menntmrh. skipaði Indriða G. Þorsteinsson formann nefndarinnar án tilnefningar.

Nefndin samdi nýtt lagafrv. um þessi efni en það var aldrei lagt fram. Það frv., sem hér er nú lagt fram, er að meginstofni byggt á frv. nefndarinnar en þó hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar í einföldunarskyni fyrst og fremst. Helstu breytingar ráðuneytisins á frv. nefndarinnar eru þessar:

1. Ekki er gert ráð fyrir því í frv., að sett verði á laggirnar ný ríkisstofnun, Kvikmyndastofnun Íslands, eins og var þó upphaflega fyrirhugað, heldur er Kvikmyndasjóði ætlað að starfa áfram en sjóðnum ætlað nokkuð víðtækara starfssvið en áður.

2. Haldið er þeirri hugmynd að sameina stjórn og starfsemi Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndasafns í hagræðingar- og sparnaðarskyni svo að betur megi nýta starfslið og húsnæði. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að safnið starfi sjálfstætt með svipuðum hætti og verið hefur.

3. Aðaltekjur Kvikmyndasjóðs verði árlegt framlag úr ríkissjóði er skv. frv. nemi áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu. Er þessi breyting í samræmi við sérálit Halldórs Blöndals á sínum tíma í nefndinni. Á hinn bóginn er fellt niður ákvæði um ábyrgðir á lánum til kvikmyndagerðarmanna sem næsta óljóst er hvernig átti að framkvæma.

4. Nýmæli er ákvæði um skylduskil á kvikmyndum til Kvikmyndasafns. Nýmæli er einnig að Kvikmyndasjóði er heimilað að láta starfsemi sína ná til myndbandagerðar og annarra tækninýjunga er tengjast hefðbundinni kvikmyndagerð.

Hv. Ed. gerði nokkrar breytingar á þessu frv. í samráði við formann Kvikmyndasjóðs. Þær eru allar þess eðlis að þær ættu að greiða fyrir framgangi málsins. Ég vona að hv. Nd. taki frv. jafnvel og Ed.

Ég þarf ekki að orðlengja það, herra forseti, hve mikilvægt mál það er bæði fyrir íslenska list og íslenska atvinnustarfsemi að vel verði búið að kvikmyndagerð í landinu. Þetta er ein þeirra listgreina og atvinnugreina sem eru í hvað örastri blómgun hér á landi. Íslenskar kvikmyndir hafa náð verulegri viðurkenningu á mjög þekktum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum þar sem mikill vegur þykir að vera þátttakandi og fá þá viðurkenningu sem íslenskar kvikmyndir hafa fengið. Það er alveg ljóst að til þess að ná útbreiðslu fyrir kvikmyndir á erlendum markaði þarf að leggja í mikinn kostnað. Það er aftur á móti kostnaður sem ég tel að skili sér í ýmiss konar arði, ekki einungis þeim sem fellur í skaut þeim sem hafa unnið að kvikmyndagerðinni heldur einnig með öðrum og óbeinum hætti til handa íslenskri starfsemi sem hefur hag af skiptum við erlenda aðila.

Ég tel að ekki ætti að vera þörf á því að hafa öllu fleiri rök um það atriði, enda er það í samræmi við stefnu þessarar hv. ríkisstj. og að ég held í samræmi við hug hv. alþm. yfirleitt, að fátt sé okkur nauðsynlegra en að búa vel að nýjum og vaxandi atvinnugreinum hér á landi. Ekki er það lakara þegar þær stuðla einnig að útbreiðslu íslenskrar listar og íslenskrar menningar í því formi og með þeirri tækni sem nútíminn býður upp á.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað að lokinni 1. umr. til 2. umr. og hv. menntmn.