11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5702 í B-deild Alþingistíðinda. (5018)

55. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta mál á allmörgum fundum, m. a. fengið til viðtals tollstjórann í Reykjavík, tollgæslustjóra og fulltrúa tollþjóna. Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj. Stefán Benediktsson sat fundi n. og er samþykkur þessari niðurstöðu eins og nm. allir.

Brtt. eru tvær. Það er fyrst brtt. í þá átt að Selfoss verði talinn meðal tollhafna. Nú kann sumum kannske að finnast einkennilegt að telja Selfoss upp í hópi hafnanna því að þar hefur víst ekkert skip lent annað en Vanadísin á sínum tíma. Engu að síður fannst okkur að þetta þyrfti ekki að særa málsmekk fólks. Við tölum um fríhafnir á flugvöllum og við tölum um að mál séu komin í höfn. Mætti þá kannske alveg eins segja að vara sem á að fara á Selfoss, væri komin í höfn þegar hún væri þangað komin, þótt henni væri skipað upp í Þorlákshöfn eða í Reykjavík. Ég vil nú engu að síður benda á þetta, ef einhverjir kynnu fremur vilja setja þetta upp með einhverjum öðrum hætti.

Svo er brtt, um það að ef fleiri en ein vörusending er skráð á sama farmbréf sé heimilt að greiða aðflutningsgjöld af hverri fyrir sig. Svipað ákvæði var í stjfrv. sem dagaði hér uppi í fyrra eða hitteðfyrra. Nefndin var sammála um að taka þetta upp í frv. og leggur til að frv. verði samþykkt með þessum tveim breytingum.