11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5710 í B-deild Alþingistíðinda. (5030)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég get ekki neitað því að nokkuð misminnir hæstv. fjmrh. hver er forsaga þessara bankaskattamála og greinargerð hans fyrir viðskiptum okkar í þeim efnum var ekki alls kostar rétt. Þegar ég beitti mér fyrir því — á árinu 1982 hefur það líklega verið — að lagður var skattur á banka og aðrar lánastofnanir var ekki um það að ræða að verið væri að skipta á þeim skatti með því að leggja hann á en fella niður um leið tekjur ríkisins af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta.

Ég veit að vísu og minnist þess að hæstv. núv. ráðh. Albert Guðmundsson, sem þá var þm. Sjálfstfl., var með hugmyndir uppi um það að hér ættu að vera skipti á sköttum og flutti frv. í þinginu um að fella alveg niður þennan skatt sem við erum hér með til umr. Ég veit að hæstv. ráðh. minnist þess líka, að ég var andvígur því frv. Ég hvatti hann eindregið til þess að láta það mál liggja og ég gat alls ekki fallist á það þegar bankaskatturinn var síðan lagður á að hann ætti að koma í staðinn fyrir ferðaskatt sem yrði lagður niður. Það var ekki mín skoðun og hefur aldrei verið. En vegna eindreginna óska og tilmæta hæstv. fjmrh., þáv. þm. Sjálfstfl. og reyndar núv. þm. Sjálfstfl., féllst ég á það að í frv. um skatt á innlánsstofnanir væri slakað örlítið til í sambandi við skattlagninguna þannig að á árinu 1982 yrði skatturinn ekki 60% af gjöldum, af umboðsþóknun og gengismun, heldur 50%. Síðan gat vissulega komið til greina og ég mun ekki hafa tekið því neitt þverlega að gengið yrði skrefi lengra þannig að þessi þóknun yrði lækkuð í 40%. En ég hafði aldrei í huga að ganga lengra en það og í þeim frv. sem ég lagði fram var ekki gert ráð fyrir því að gengið væri lengra í þessa átt.

Það er því alger misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að ég hafi gert ráð fyrir því að fella þennan skatt algerlega niður. Ég gat í mesta lagi hugsað mér að gera þarna einhverja tilslökun, en ekki meiri en svo að um yrði að ræða áframhaldandi 40% hlut ríkissjóðs af þessari gjaldtöku bankanna.

Það fór svo að Alþingi afgreiddi skattskylduna á bankastofnanir með ákveðnari hætti en ég hafði gert till. um því að einungis var gert ráð fyrir tilslökun á árinu 1982 og síðan ekki söguna meir. Ég minnist þess ekki hvort það var fjh.- og viðskn. Nd. eða Ed. sem gerði till. um þessa breytingu, en Alþingi afgreiddi málið þannig að það átti ekkert að slaka meira á í þessum efnum.

Það hefur sannarlega komið á daginn að þess var full þörf að ríkið fengi allar þessar tekjur þar sem fjárhagur ríkissjóðs hefur farið versnandi. Aðstæður eru sem sagt á margan hátt breyttar frá því sem var fyrir einu eða tveimur árum síðan og ef einhverjir, þ. á m. hæstv. fjmrh. hefur haft í huga að hafa breytt um skoðun eftir að í ljós hefur komið hversu bágur fjárhagur ríkissjóðs er.

Sem sagt, ég tel að það sé kannske ekkert óeðlilegt að hæstv. ráðh. blandi þessum tveim sköttum saman í eigin huga þegar hann talar um þessi mál vegna þess að hann hafði það alltaf bak við eyrað og gerði tillögur um það hér í þinginu að þessi skattur yrði felldur niður um leið og bankaskatturinn yrði lagður á. En hann naut ekki stuðnings annarra í þessum efnum á þeim tíma og tillögur hans náðu ekki fram að ganga og voru m. a. ekki samþykktar af mér. Því þýðir ekki að vitna til þess hvað mig snertir.

Ég tel og hef alltaf talið að ríkið ætti áframhaldandi að taka hluta af þessum gjöldum, sem lögð eru á umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta, til sín. Hvort sá hluti væri 40, 50 eða 60% skiptir kannske ekki öllu máli, en hann væri einhvers staðar nærri helmingur. Það sem hér er hins vegar verið að gera er að fella gjaldið algerlega niður á næstu tveimur árum og það er það sem veldur svona miklu tekjutapi fyrir ríkissjóð að nemur hvorki meira né minna en 180 millj. kr. á næstu tveimur árum.

Ég vildi aðeins segja það að lokum, herra forseti, að ég harma það að hæstv. ráðh. skyldi ekki sýna minnstu viðleitni í því að svara spurningum mínum. Það var ekki eitt andartak gerð tilraun til þess, enda sannfæringin greinilega mikil að nóg fé væri í ríkiskassanum og skipti engu máli þó að spilað væri út 120 millj. kr. á hverju ári næstu þrjú árin.