11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5719 í B-deild Alþingistíðinda. (5037)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hefði ekki komið upp nema vegna þess að í síðustu orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. beindi hann til mín spurningu sem á að vera óþarfi af honum sem fyrrv. ráðh. Hann spurði hvort ráðh. geri sér grein fyrir því hvað stjfrv. sem lögð eru fram þýða í tölum. (RA: Það hefur ekki komið fram.) Það hefur ekki komið fram. Ég svaraði því áðan, sömu spurningunni var beint til mín áðan í málinu sem var á dagskrá á undan þessu, um gjaldeyrisskatta af bönkunum. Það er óþarfi að svara þessu en ég ætla að gera það samt til þess að hæstv. fyrrv. fjmrh. viti að vinnubrögð í fjmrn. hafa ekkert breyst. Ráðh. veit jafnmikið nú og er upplýstur á sama hátt og áður um frv. sem hann lagði fram. Ég vissi hvað þetta þýddi og hvað þetta þýðir. (RA: Hvert er tekjutapið?) Ja, tekjutapið, það kemur hérna fram. Ég ætla bara að lesa hérna aðeins upp.

En áður en ég held lengra vil ég benda á það sem kemur svo sterkt fram hjá vinstri mönnum almennt og þá sér í lagi Alþb.-mönnum að, eins og hann sagði orðrétt, í staðinn fyrir þessar ráðstafanir sem nú er verið að gera hefði verið hægt að leggja á veltuskatt. Það er alltaf hægt að leggja á meiri skatta af einhverju tagi. En nú vill bara svo til að okkar pólitísku skoðanir stangast mjög mikið á og sérstaklega í þessum málum þar sem það er lífsskoðun og stefna Sjálfstfl. að skilja meira eftir hjá fólkinu og hjá fyrirtækjum af peningum en þið vinstri menn virðist vilja gera í allri okkar vinnu og tali. Við álítum að það sé hagsæld þjóðfélagsins fyrir bestu að ríkið taki eins lítið og hægt er til sín einstaklingurinn og fyrirtækið hafi eins mikið að moða úr og mögulegt er miðað við afrakstur og á þann hátt sé þjóðfélaginu best borgið. Þar stangast á skoðanir. Það þýðir ekkert fyrir okkur að rífast hér í ræðustól á hv. Alþingi, við getum aldrei orðið sammála. Mér tekst líklega ekki að endurhæfa virðulegan 3. þm. Norðurl. v., það verður að gerast annars staðar.

En ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa það sem sagi er í þriðja lagi neðst á forsíðu nál. nr. 797. Það svarar öllu því sem virðulegur þm. sagði um fyrirkomulag á því kerfi sem nú á að taka upp vegna þess að við erum ekki að hverfa til neins sem er afbrigðilegt. Við erum að hverfa frá því sem er afbrigðilegt og eru verk fyrrv. hæstv. fjmrh. með staðgreiðslukerfi, sem sett var á bankana eina, og koma bönkunum inn í það skattakerfi sem almennt er í landinu. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er lagt til að greiðslufyrirkomulagi á sköttum innlánsstofnana verði breytt í áföngum á árunum 1985 og 1986 til samræmis við þær reglur sem gilda um skattgreiðslur allra annarra í landinu.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta áfram, það er bara til að tefja tímann hér vegna þess að ég er alveg viss um það að virðulegur 3. þm. Norðurl. v. er búinn að lesa þetta og veit hvað framhaldið er. Verið er að samræma skattheimtuna á bankana til þess að hafa hana í fullu samræmi við það sem allir aðrir verða að þola í landinu. Ef þörf er á því að breyta þessu nú, ef það kostar einhverja peninga tímabundið, er það vegna þess að við erum að breyta frá því ófremdarástandi sem hæstv. fyrrv. ráðh. kom á í þessu tilviki. (RA: Ráðh. ætlaði að svara því hvert væri tekjutapið.) Tekjutapið? Ég er nú ekki með það hér hjá mér, en það var útreiknað, ég hef bara ekki náð í það enn þá en það er sjálfsagt að koma því skriflega til skila. (Gripið fram í.) Ég er ekki með það hérna á mér, ég get ekki upplýst það núna, því miður. Það veit virðulegur þm. að eftir að frv. hafa farið í gegnum nefndir og fagmenn sem hafa unnið frumvörp koma á nefndarfundi og svara öllum þeim spurningum sem þar hugsanlega geta komið fram, þá bera ráðherrar ekki með sér öll skjöl sem þeir hafa fengið á vegferð málsins í rn. með sér í þingsali. Það er afskaplega sjaldan. Oftast nær kemur fram álit viðkomandi þm., hvort sem þeir eru meirihluta- eða minnihlutamenn, í nál. Ég tel alveg sjálfsagt að hv. þm. hafi spurt þessara spurninga þegar ráðuneytismenn eða bankamenn hafa komið á nefndarfundi, en ég er með þessar tölur uppi í rn. og ég get komið þeim til skila.