11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5743 í B-deild Alþingistíðinda. (5076)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Frsm. minni hl. hefur gert grein fyrir helstu atriðum og spurningum sem enn þá er ósvarað eftir langa og stranga yfirferð hæstv. fjh.- og viðskn. Í þessu máli er augljóst að enn þá er ósvarað mjög mörgum spurningum um þetta mál, en ég ætla ekki að endurtaka þau atriði. Mig langaði til að gera svolítið annað að umtalsefni í þetta skipti.

Það sem við höfum hérna fyrir framan okkur í „snáknum“ eða „bandorminum“ eru „ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum.“ Nú er það svo að þó það hafi reyndar ekki komið bersýnilega fram og menn hafi þrjóskast við að gefa um það upplýsingar er á bak við hverja einustu grein þessa frv. fólk sem þessar greinar munu hitta. Það er fólk en ekki einingar í meðaltölum frá Þjóðhagsstofnun. Mig langaði til að taka um þetta örfá dæmi og þá sérstaklega í sambandi við námslán og tannlæknakostnað, þannig að menn geri sér grein fyrir hvernig þetta birtist í raun og veru þegar það er tekið af prósentu og meðaltalastiginu.

Ef við athugum fyrst lánamálin kemur fram í fskj. með minni hluta áliti á bls. 5, þar sem eru upplýsingar frá Lánasjóði námsmanna, að það stendur ekki allt vel í sambandi við fjármál námsmanna. Þar kemur fram að áætluð fjárþörf umsækjenda í haust er 284 millj. kr. Til að sinna 95% lánshlutfalli mundi sjóðurinn þurfa 270 millj. Til ráðstöfunar á sjóðurinn 170 millj. Fjárvöntunin er upp á 100 millj. kr.

Samkv. 2. gr. „bandormsins“ á að lána skv. því fjármagni sem til reiðu er. Það eru til reiðu 170 millj. upp í 270 millj. kr. þörf. Þannig er fyrirsjáanlegt að einungis verði hægt að uppfylla 60% lágmarksfjárþarfar, eins og lýst var hér fyrr, 60% lágmarksframfærslukostnaðar námsmanna. Nú getur mönnum sýnst sitt hvað um þær tölur sem eru notaðar til að meta lágmarksfjárþörf, en framfærslukostnaður einstaklings í gögnum Lánasjóðs er 14 983 kr. 60% af því eru 9 000 kr. Að óbreyttu verður sem sagt upphæðin sem einhleypur tekjulaus leigjandi fær á mánuði í haust 9 000 kr. Og þessar 9 000 kr. eiga að endast honum fyrir húsnæði, bókum, mat, ferðum, fötum, hækkaðri heilbrigðisþjónustu ef svo fer sem horfir. Á þennan hátt birtast þessar tölur okkur í mannlífinu. Þetta er staðreynd haustsins sem við horfum upp á.

Ég spurði um það í n. hvort rn. hefði gert einhverjar kannanir á því hvaða áhrif þessi fyrirsjáanlega skerðing námslána mundi hafa á fjölda námsmanna. Engar upplýsingar hafa fengist um það. Ég hef spurst fyrir víðar í skólakerfinu. Menn eru ekki farnir að hugleiða það. En ég held að menn ættu að taka þar við sér. Það er nefnilega þetta sem skiptir máli. Það þýðir ekki að vera að rífast um hvort Lánasjóður hefði átt að lána 95% frá áramótum og til vors eða hvernig framfærslueyrir er fundinn. Það sem við höfum fyrir framan okkur er að samkvæmt þessum gögnum mun einhleypur tekjulaus leigjandi fá 9 000 kr. á mánuði til að lifa af. Ég veit ekki hvernig það gengur.

Þetta er kannske leið til að spara á ýmsan hátt. Þetta er náttúrlega leið til þess að spara fé til námslána. Þetta er e. t. v. líka leið til þess að spara víðar í menntakerfinu, vegna þess að ef lánin lækka á þennan hátt fækkar væntanlega nemendum og þá minnkar kennsluþörfin. Á endanum er kannske hægt að fækka kennurum og spara þannig peninga. Þannig horfir þetta kannske til víðtækari sparnaðar í menntakerfinu en klásúlan ein um Lánasjóðinn segir fyrir um. En þá geta menn spurt sig: Hvað þá með nýsköpunina og háþróuðu tæknina sem Framsfl. ákvað á Akureyri að hrinda í framkvæmd á næstu fimm árum? Til þess þarf fólk. Ætli það láti ekki nærri að þeir sem Framsfl. þarf eftir fimm ár til þess að standa fyrir háþróaðri tækni á Íslandi séu þeir nemendur sem eru í þann veginn að leggja upp í nám núna? Þeir munu væntanlega skila sér eftir fjögur, fimm ár.

Það er rétt á hverjum tíma að spara og gefa heimildir til að endurskoða rekstur og gagnsemi þess hvernig peningum er eytt, en það á ekki að spara t. d. í menntakerfinu á þann hátt að láta það verða undir efnahag foreldranna komið hvort fólk kemst til náms. Þannig veljum við ekki hæfileikaríkasta fólkið til þess að vinna fyrir okkur í framtíðinni. En þetta er nú samt framlag ríkisstjórnar nýsköpunarinnar til þess að byggja upp í framtíðinni. Niðurskurður námslána er nefnilega ekki aðgerð í peninga-, ríkis- og lánsfjármálum, heldur liður í menntastefnu ríkisstj. Menntastefna ríkisstj. hefur birst í „bandorminum“. Námslán eru nefnilega liður í menntastefnu, eru hluti af menntakerfi landsins, og ef það er helmings niðurskurður í þeim verður samsvarandi minnkun í framleiðslu þeirrar verksmiðju sem menntakerfið er. Og á það ættu menn að horfa.

Mig langar að spyrja hæstv. menntmrh., sem er hér í salnum, hvort rn. hyggst láta gera mat á því hvað margir nemendur mundu hugsanlega hverfa frá námi vegna þessara aðgerða í lánamálum námsmanna. Ég trúi ekki að svona aðgerð sé samþykkt sem hrein peningaleg aðgerð án þess að menn reyni að gera sér grein fyrir hvað hún þýðir fyrir fólk og fyrir menntakerfið í landinu og hvaða áhrif hún hefur í framtíðinni. Samhent ábyrg stjórn færi aldrei að gera slíkt.

Ég held menn ættu að hugsa um þessa hluti. Nú er mikið talað um framtíðarmálin. Það er haldin ráðstefna eftir ráðstefnu og allir eru sammála um að á Vesturlöndum, og reyndar í öllum heiminum, sé vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu á sviði nýtæknigreinanna. Undirstaða þessara greina er þekking og hugvit. Bismarck sagði einu sinni að framtíðin væri þeirrar þjóðar sem ætti bestu skólana. Það hefur líklega aldrei verið sannara en nú.

Við þekkjum dæmin um þær greinar sem nú eru helst á döfinni, tölvutækni og líftækni. Þetta eru greinar sem nærast á menntun, nærast á hugviti og þekkingu. Svo mun verða í framtíðinni. Þjóð, sem á í efnahagsörðugleikum og býr sig undir sókn til bættra lífskjara, ætti að styrkja skólakerfi sitt, ætti að bæta aðbúnað nemenda og kennara. Það ætti að vera hennar aðgerð við slíkar aðstæður. Þá ætti t. d. að vera stjórnvöldum landsins til umhugsunar að kennslustörf á öllum stigum skólakerfisins nú eru láglaunastörf.

Það sem heldur uppi þeim stofnunum sem eiga að veita okkur þennan aðgang að framtíðinni er einmitt menntunin, það eru rannsóknastofur, það eru skólar. Í skólana þarf bæði nemendur og kennara og það þarf að vera búið þannig að þeim að þeir veslist þar ekki upp. Það er nefnilega svo, að við höfum verið því vön lengst af að hugsa um þekkingu sem nauðsynlega til að nýta einhverja auðlind. Nú er þekkingin sjálf auðtind. Við getum framleitt hana. Við getum síðan selt hana innanlands og erlendis. Hún er undirstaða að okkar framtíð.

Ég varpaði þarna fram tölum um hvernig aðgerðir í lánamálum stúdenta kæmu niður. Ég held að ríkisstj., sem er að fara inn á þriðja stigið í sínum ferli samkv. Seltjarnarness yfirlýsingunni og því sem í kjölfarið fylgdi, þ. e. stig atvinnuuppbyggingarinnar, ætti að huga að þessum málum. Mér þykir hún ekki byrja vel: kennarar landsins allir í láglaunaflokkunum, fyrirsjáanleg fækkun nemenda, námsfólk valið eftir efnahag foreldra en ekki hæfileikum og yfirleitt dregið saman í öllu menntakerfinu. Það er ekki sókn til framfara.

Annað dæmi langar mig að taka í sambandi við tannlækningakostnað. Margir eru pirraðir vegna launa tannlækna og hás tannlæknakostnaðar. Þetta kemur t. d. í ljós í grg. frv. á bls. 11, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Kostnaður vegna tannréttinga hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Er af þeim sökum gert ráð fyrir minni þátttöku sjúkratrygginga í kostnaðinum en verið hefur.“

Við skulum athuga að við erum að tala þarna um ákveðinn þátt heilsugæsluþjónustunnar. Við 1. umr. hugsaði ég sem svo: Hvernig mundi þessi grein hljóða ef við settum nú í staðinn fyrir tannréttingar annað orð t. d. hjartasjúkdóma. Þá læsist þetta svona:

Kostnaður vegna hjartasjúkdóma hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Er af þeim sökum gert ráð fyrir minni þátttöku sjúkratrygginga í kostnaðinum en verið hefur.

Við getum sett þarna inn geðlækningar eða geðsjúkdóma:

Kostnaður vegna geðsjúkdóma hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Er af þeim sökum gert ráð fyrir minni þátttöku sjúkratrygginga í kostnaðinum en verið hefur.

Þessi samanburður er alls ekki fjarri lagi vegna þess að tannskekkja er í mjög mörgum tilfellum meðfæddur og óumflýjanlegur sjúkdómur. Hann er ekki orðinn til vegna vanþrifa, sykuráts eða karamelluáts. Það er byggingarleg bjögun kjálkans og tannanna sem honum veldur og er læknisfræðileg þörf á því að ráða þar bót á. Ef menn vilja takmarka kostnað við tannréttingar á að gera það með því að leggja strangt læknisfræðilegt mat á þörfina fyrir tannréttingu en ekki að lækka framlag á þennan hátt.

En hvað kostar dæmigerð aðgerð í tannréttingum? Það var þrásinnis spurt um það í nefndinni og reynt að leita upplýsinga, en það fengust ekki svör. En ég hringdi í dag til tannréttingasérfræðings og fékk um þetta upplýsingar. Ég spurði um aðgerð sem væri ekki af útlitslegum ástæðum einum, heldur læknisfræðileg nauðsyn. Ég spurði ekki hvað kostaði að laga til að geta brosað. Þetta var spurning um að laga þannig tennur og kjálka og bit að ekki væri af þessu skaði.

Tannréttingin sjálf tekur tvö ár og eftirlitið ein tvö ár. Fyrst þarf að gera módel og skoða og það kostar 1 836 kr. Síðan þarf við svona alvarlegar aðstæður iðulega að draga út tennur, það þarf að taka röntgenmyndir, það þarf að setja fasta spöng til þess rétta tennurnar og það þarf að setja á tennurnar bönd til að losa þær í tannholdinu þannig að þær geti hreyfst. Þegar spöngin er numin á brott þarf góm til þess að halda tönnunum áfram. Og hvað halda menn að þetta kosti? Þetta kostar samkv. upplýsingum sem ég fékk fyrir klukkutíma, 50 000 kr. þ. e. aðgerðin sjálf. Síðan kemur eftirlit í tvö ár, þar sem þarf að fylgjast með, og það getur kostað eitthvað á bilinu 2 000–4 000 kr. Við erum að tala um aðgerð sem kostar 50 000–55 000 kr. og þetta er án sérfræðingsálags, sem er 40%, þannig að þessi aðgerð kostar milli 70 000 og 75 000 kr. Þessar staðreyndir dyljast á bak við sakleysislega grein í frv. sem er að mig minnir nr. 12. Þar stendur:

„Í stað „37.5% “ í 1. málsl. 2. tölul. 44. gr. laga nr. 67/1971 með síðari breytingunni komi: 25%.“

Þegar til greina er tekin kostnaðarhlutdeild sveitarfélags þýðir þetta 25% minnkun á hlutdeild í 70 000 kr. kostnaði. Fjölskyldu sem er getum við sagt svo ógæfusöm að eiga barn með skakkar tennur kostar þetta 17 500 kr. Og þá fara nú að fjúka hundraðkallarnir sem menn fengu á mánuði í yfirgripsmiklum aðgerðum ríkisstj. til að rétta hag hinna lægst launuðu í sumar.

Á þennan hátt birtast okkur sakleysislegar greinar í frv. þegar við rekjum og athugum hvað þetta kostar. Hægt er að taka fjöldamörg svona dæmi. Hvað með að það hækkar úr 100 kr. í 300 að heimsækja sérfræðing? Hvað þýðir það fyrir þann sem kannske er haldinn af illkynjuðum eða illlæknanlegum sjúkdómi og þarf æ ofan í æ að heimsækja lækni? Þetta reyndum við að fá upplýst í n., en það eru ekki til neinar opinberar upplýsingar um hversu oft fólk við mismunandi aðstæður þarf að heimsækja heilsugæslustofnanir eða lækna og þess vegna er ekki hægt að meta þetta. En ég er viss um að ef við tækjum þessi atriði og skoðuðum þau nánar mundu okkur birtast ýmis atriði sem eru kannske alvarlegri en sakleysislegar greinar frv. einar sýna okkur.

Herra forseti. Ég hef hérna tekið tvö lítil dæmi um hvernig fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj. í ríkisfjármálum hitta fólkið í landinu. Ég hygg að þessi tvö litlu dæmi, þó kannske einkum það síðara, séu umhugsunarverð fyrir menn sem eru orðnir vanir að líta á tölurnar sem samansafn eininga en ekki sem fulltrúa fyrir fólk og aðstæður. Það væri vissulega fróðlegt, ef ekki hefði verið sá flýtir sem raun ber vitni á afgreiðslu málsins, að athuga hvort á bak við aðrar greinar frv. leyndust ekki einhver svona dæmi.

Í sambandi við það síðasta um tæplega 20 000 kr. kostnaðaraukningu á fjölskyldu vegna eins barns, sem þarf að gangast undir aðgerð vegna tannréttinga, ekki af útlitslegum eða fegurðarlegum atriðum einum saman, heldur af læknisfræðilegri nauðsyn, ætla ég að segja að ég vona að það séu ekki margar fjölskyldur sem lenda í því að eiga fleiri en eitt svona barn. En þá ber á það að líta að þessi galli getur gengið í erfðir og það geta verið mörg börn í einni fjölskyldu og engin börn í annarri. Þá sjá menn hvað þetta þýðir í raun og veru, e. t. v. allt að 60 þús. kr. kostnaðarauka einnar fjölskyldu vegna þessarar sakleysislegu 12. gr. sem lætur svo lítið yfir sér. Hún er tómar skammstafanir og tilvitnanir í lagagreinar, en þessi sannleikur er á bak við.