11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5755 í B-deild Alþingistíðinda. (5079)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Nokkrar spurningar hafa verið lagðar fram til mín og annarra ráðherra. Ég skal svara því sem er ekki beint til viðkomandi ráðherra um þeirra málaflokka og jafnframt leitast við að svara því þar sem að ráðherrar eru fjarverandi.

Hv. 3. þm. Reykv. fullyrti að greiðsla sjúkradagpeninga lenti af miklum þunga á húsmæðrum, námsmönnum og fleiri slíkum og vísaði til bréfs sem forstjóri Tryggingastofnunar hefur ritað. Ég verð að segja eins og er að ég lýsi undrun minni á því bréfi þar sem ekki koma fram neinar tölulegar upplýsingar um hvernig þetta skiptist og væri slíkt bréf betur ekki ritað. Í því bréfi er hins vegar lofað slíkum upplýsingum. Ég hef látið hafa samband við Kristján Guðjónsson, og með hans leyfi hef ég það eftir honum að 90–95% af þessum kostnaði fellur á atvinnurekendur. Ég vil hins vegar bæta því við að ég er vel til viðtals um að tryggja að ekkert falli á aðra en atvinnurekendur, ef það er unnt með einhverju góðu móti, eða sem allra minnst. Kannske verður aldrei algjörlega við það sloppið. En sem sagt samkv. upplýsingum Kristjáns Guðjónssonar: 90–95% þessa kostnaðar fellur á atvinnurekendur og það er sá greiðandi sem talinn er síðastur í bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Hv. þm. ræddi um tannlækningakostnað og reyndar hafa fleiri gert það hér og deilt hefur verið á þá ætlun ríkisstj. að draga úr framlagi ríkisins í því skyni. Sérstaklega ræddi hv. þm. um mismunandi áætlanir á þessum lið. Það er nú eins og mig minni að hér hafi orðið alláthyglisverð umræða á síðasta þingi um áætlun af svipuðu tagi. Þá bar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fram till. um að greiða, ef ég man rétt, 20% af tannlæknakostnaði og hæstv. þáv. ráðh. Svavar Gestsson setti reglugerð um greiðstu þess kostnaðar. Í þingtíðindum má sjá að þá áætlaði hæstv. þáv. ráðh. Svavar Gestsson að kostnaður við þetta yrði um 20–30 millj. kr. Hæstv. núv. sjútvrh., þáv. þm., Halldór Ásgrímsson fullyrti hins vegar að kostnaðurinn væri um 100–200 millj. kr. Kostnaðurinn reyndist vera á annað hundrað millj. kr. og því var þessi reglugerð afnumin. Það voru ekki tekjur í ríkissjóði til að standa undir þessum kostnaði.

Mér sýnist ljóst að sparnaður við þessar breytingar, sem var áætlaður í upphafi 50 millj. kr., sé allt of hátt áætlaður. Samkv. þeim upplýsingum sem ég hef gleggstar mun hann vera nú áætlaður um 16 millj. kr. Eigum við þá ekki að fagna því að ekki er þó dregið meira úr þessari aðstoð við tannlækningar unglinga og barna en kemur fram í þessari nýju áætlun?

Hér hefur verið töluvert rætt um landbúnaðinn.

Ræddu báðir um landbúnaðinn, hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Kjartan Jóhannsson. Ég verð að segja að eftir margítrekaðar umræður á síðustu árum um efnahagsmál við hv. 3. þm. Reykv. þykir mér allt annað viðhorf hjá honum nú til landbúnaðar en var í þeim umræðum. Ég man ekki betur en Alþb. legði á það mjög ríka áherslu í gegnum árin að breyting yrði að verða og það róttæk í landbúnaðarmálum. Ég verð fyrir mitt leyti að taka undir það. Það er alveg rétt að bændur hafa sjálfir, eftir að framleiðsluráðslagabreyting var gerð 1979, gert verulega breytingu. Þeir hafa dregið saman mjólkurframleiðsluna og er það vissulega til bóta. Hitt er svo annað mál, að það er staðreynd að landbúnaðarafurðir verða því miður ekki seldar á erlendum mörkuðum nú svo nokkurt vit sé í. Útflutningsbótaþörfin á útfluttar landbúnaðarafurðir er nú að meðaltali 68% heildsölukostnaðar. Á sumar afurðir fer þetta hlutfall upp í 74%, ef ég man rétt, og jafnvel 78% á einstakar mjólkurafurðir eða ærkjöt. Ég held að hverjum manni hljóti að vera ljóst að bændum sjálfum er svo sannarlega enginn greiði gerður með því með einu eða öðru móti að hvetja þá til slíkrar umframframleiðslu. Þess vegna hef ég, svo ég svari spurningu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sett fram þá hugmynd að á ákveðnu árabili, ég nefndi fimm ár, verði gerður samningur milli bænda og ríkisvalds og dregið á þeim tíma þannig úr landbúnaðarframleiðslunni að útflutningsbótaþörf verði lítil sem engin að þeim tíma liðnum. Ég er sannfærður um að þetta er unnt og ég get upplýst hv. þm. um að í viðræðum, sem ég og fleiri hafa átt við forustumenn bænda um þessi mál, hefur þessu verið jákvætt tekið.

Mér er hins vegar fyllilega ljóst og væntanlega fleirum að slík breyting er mjög viðkvæm og vitanlega verða að fylgja henni fjölmargar hliðarráðstafanir m. a. til að koma í veg fyrir byggðaröskun sem ég trúi vart að nokkur vilji hafa svo umtalsverð sé. Í því skyni er nauðsynlegt að nota mikið fjármagn til að byggja upp aðrar búgreinar. Ég hef sérstaklega nefnt í því sambandi, og bændafulltrúar lagt áherslu á, loðdýrarækt sem lofar góðu ef skipulega er að þeim málum unnið.

Að sjálfsögðu er einnig ljóst að slík breyting hefur áhrif á vinnslustöðvar landbúnaðarins, bæði þær sem vinna úr ull og gærum og sömuleiðis hinar sem vinna úr mjólkurafurðum og sláturhúsin. Og vitanlega þarf fjármagn til þess að komast yfir þá erfiðleika sem slík róttæk breyting veldur.

Ég er hins vegar sannfærður um að bændasamtökunum sjálfum er mjög vel trúandi til að framkvæma slíka breytingu, þannig að landbúnaðurinn verði eftir sem áður traust grundvallaratvinnugrein í okkar þjóðfélagi, og líklega sterkari en hún er við þær aðstæður sem eru.

Það er rétt að fullar útflutningsbætur eru nauðsynlegar nú m. a. vegna þess að þegar sauðfé er fækkað aukast birgðirnar, og þeirra verður þörf á næstu árum. Ég er sannfærður um það. Hins vegar hygg ég að síðan geti mjög ört úr henni dregið ef skipulega er að þessum málum unnið.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að ríkisstj. hefði sjálf búið til þann samdrátt sem orðið hefur í kaupmætti. Ég mótmæli því að við hv. þm. Svavar Gestsson, í ríkisstjórn sem við sátum í, höfum búið til þá kreppu sem t. d. varð vegna olíuverðshækkana. Sú kreppa var mikil og leiddi til þess að við lifðum umfram efni árið 1981 og 1982, verulega umfram efni. Viðskiptahallinn þau ár var fyrra árið 5% og síðara árið 10%. Og vitanlega er það kaupmáttarskerðing þegar kaupmætti er haldið uppi með því að safna erlendum skuldum. Hv. þm. hefur sjálfur hvað eftir annað sagt að það væri út af fyrir sig eðlilegt að kaupmáttur drægist saman sem samsvarar samdrætti í þjóðarframleiðslu. Að mati Þjóðhagsstofnunar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna dregist saman um u. þ. b. 10% á hvern mann. En þjóðarframleiðslan hefur dregist saman u. þ. b. um 8–9% á hvern mann svo þarna er ekki mikill munur á. Og e. t. v. skakkar þarna ekki öðru en því sem við lifðum umfram efni árið áður en þessi kreppa, sem við nú stöndum í, hófst.

Hv. þm. las upphafsorð minnar framsöguræðu og kvað rétt lýst því ástandi sem hefði skapast. Ég andmæli því að við þegar við vorum í ríkisstj. eða núv. ríkisstj. höfum búið til þá kaupmáttarskerðingu sem nú hefur orðið. Hún stafar af ytri aðstæðum, af olíuverðshækkunum, af hruni loðnustofnsins, af helmingun á þorskafla og reyndar mætti fleira telja. Okkur er brýn nauðsyn, Íslendingum, að horfast í augu við slíkt. Við höfum ekki alltaf gert það. Það er fróðlegt að fara í gegnum slíkar sveiflur sem hafa orðið frá stríðsárum. Venjulega hefur þessu verið mætt með því að fella gengið sem hefur leitt til vaxandi verðbólgu og erlendrar skuldasöfnunar. Frá því varð að hverfa nú og það var gert.

Hv. þm. sagði að nú væri 60% markið um erlendar skuldir orðið markmið en ekki eins konar hámark. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þær upplýsingar. Ég sagði í minni framsöguræðu, ég tel nokkuð skýrt, að 60% erlendar skuldir af þjóðarframleiðslu mætti að sjálfsögðu aldrei vera markmið. Markmiðið væri að draga úr þeim erlendu skuldum. En ég verð að segja að mér þykir það nokkuð hörð gagnrýni á Þjóðhagsstofnun, sem ég fyrir mitt leyti ber mikið traust til og ég hélt að fleiri gerðu, þegar sagt er að Þjóðhagsstofnun sé þægileg þessari ríkisstj., eða þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson segir að markið sé fært til. Hann hlýtur þá að eiga við Þjóðhagsstofnun. Þjóðhagsstofnun metur þessa hluti og ég er sannfærður um að forstjóri Þjóðhagsstofnunar og starfsmenn hans gera það eftir bestu samvisku.

Staðreyndin er vitanlega sú, að þegar þjóðartekjur dragast saman þriðja árið í röð, nú áætlað u. þ. b. 2% af þjóðarframleiðslu, þá er ekki það svigrúm til að draga úr erlendum skuldum eins og við hefðum kosið, ef halda á uppi kaupmætti. Það má vel segja að eðlilegast hefði verið að draga úr kaupmætti um það sem nemur samdrætti í þjóðarframleiðslu og líka að einhverju leyti því sem nemur því sem ríkissjóð skortir til þess að brúa bilið, brúa hallann. Þannig að 60% markið er vissulega ekki markmið. Þvert á móti er markmiðið að lækka það skuldahlutfall.

Ég vil hins vegar halda því fram að nokkuð ólíku sé saman að jafna Suður-Ameríku eða Afríku, eða hvað það var sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson talaði um, og okkur Íslendingum, sem betur fer. Greiðslubyrði hér er um 21% af gjaldeyristekjum, metin af Þjóðhagsstofnun og seðlabanka. Greiðslubyrði í sumum þessum löndum er margfalt hærri. Og við höfum staðið fullkomlega í skilum og munum gera það áfram. Ég vona að hv. þm. séu ekki að gefa til kynna að við munum ekki standa í skilum. Ég hef ekki heyrt eina einustu rödd frá fjármálamönnum um það að hætta sé á að við stöndum ekki í skilum. Okkar gjaldeyristekjur eru tiltölulega miklu stærra hlutfall af þjóðartekjum en hjá þeim ríkjum sem hv. þm. gat um áðan.

En ég endurtek: ég er með þessu alls ekki að draga úr því að erlendar skuldir eru í algjöru hámarki og úr þeim ber að draga.

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi nokkuð um bindiskylduna og vildi vita hvort í Framsfl. hefði verið samþykkt að hafa samráð með þingflokki ef hún yrði notuð. Það er rétt. Við munum gera það.

Hann spurði einnig um lækkun á endurkaupum um 5 prósentustig. Þetta hefur verið til meðferðar hjá ríkisstj. og ég geri ráð fyrir að dregið verði úr endurkaupum. Hins vegar er framkvæmdin á þessu nú til meðferðar og ekki fyllilega afráðið hvernig hún verður. Um bindiskylduna almennt vil ég segja að ég lýsti því í framsöguræðu minni að í gegnum bankakerfið má segja að ríkisstj. hafi þrjár leiðir til að hafa áhrif á peningaþensluna. Sú fyrsta eru endurkaupin, annað eru vextir og þriðja er bindiskylda eða bindiheimild. Ríkisstj. taldi rétt að hafa allar þessar heimildir á hendi. Ekki vegna þess að hún sé ákveðin í að nota þessar heimildir. Hún hefur að sjálfsögðu heimild í samráði við Seðlabankann að draga úr endurkaupum og sömuleiðis í samráði við Seðlabankann að hafa áhrif á vexti, en hún hafði ekki heimild til frekari bindingar en nú er í lögum og nýtt til fullnustu.

Svo kann að fara, ég skal ekkert um það segja, að hér skapist meiri þensla ef t. d., sem við skulum vona, afli glæðist, bæði loðna og þorskur, og þá kann að skapast sú aðstaða að rétt þyki að binda meira en nú er gert. Þess vegna þótti ríkisstj. rétt að hafa þessa heimild. Notkun hennar er að sjálfsögðu bundin því að samþykki ríkisstj. liggi fyrir.

Hv. þm. Svavar Gestsson fullyrti að 42% útlánaaukningin sem ég nefndi í framsöguræðu minni gæfi til kynna hver hin raunverulega. verðbólga væri. Ég get upplýst hv. þm. um að aukning á peningamagni í umferð mun samkv. upplýsingum sem ég hef fengið frá Seðlabankanum vera um rúmlega 20%. Og ég verð að segja að ég hélt að við ættum það reyndar nokkuð sameiginlegt að við værum ekki miklir monetaristar, eins og stundum er kallað, tryðum ekki svo mjög á Milton Friedman og þá herra, en mér heyrist hv. þm. nú vera kominn í þann söfnuð eins og hann lýsti málum áðan.

Ég er sammála því að 42% er of mikil aukning útlána. Hins vegar fer því víðs fjarri að það sé vísbending um hver verðbólgan er. Það er hins vegar vísbending um að þrýstingur er enn þá mikill í efnahagslífinu, þ. e. í peningakerfinu, sem getur leitt til þess að verðbólga aukist ef ekki er á móti spyrnt. En það er ákaflega eðlilegt að nokkurn tíma taki að draga úr þessum þrýstingi eftir þá óðaverðbólgu sem hér hefur geisað um lengri tíma. Öllum hv. þm. er að sjálfsögðu ljóst að í slíkri verðbólgu brennur upp rekstrarfé atvinnuveganna. Það er í raun og veru það sem er að gerast. Atvinnuvegir og jafnvel einstaklingar eru að ná sér eftir það kapphlaup sem þeir hafa staðið í undanfarin ár við óðaverðbólgu og það fjárhagstjón sem þeir hafa af verðbólgunni borið.

Hv. þm. ræddi nokkuð um sjö atriði sem ég nefndi í framsöguræðu minni og taldi þau lýsa markmiðum ríkisstj. Það er rangt. Ræðan er prentuð og upp á því má fletta. Þar kalla ég þetta ekki markmið. Ég segi að það séu sjö atriði sem skapa mjög þröngan ramma þeim aðgerðum sem koma fram í þessu frv, og ég lýsti. Sumt af því eru markmið, en sumt nefni ég staðreyndir og hygg ég að menn geti út af fyrir sig verið sammála um það. Ég lýsi því sem markmiði að ná verðbólgunni í 10% í lok ársins og auka ekki erlendar skuldir. Ég sagði að vísu hvað eftir annað í minni ræðu að þar væri ég að tala um hundraðshluta af þjóðarframleiðslu.

Fróðlegt er að athuga á hverju gagnrýni á þessum aðgerðum í raun og veru byggist. Stjórnarandstæðingar gagnrýna nokkurn veginn upp til hópa að skert skuli vera sú þjónusta sem ríkisvaldið veitir þegnum landsins. Ég hefði gjarnan viljað að sú þjónusta gæti verið óskert, en við höfum orðið að þola 8 af hundraði, og líklega rúmlega það, skerðingu í þjóðartekjum. Á sama tíma hefur vitanlega rekstrarkostnaður aukist með verðbólgu. Því hefði verið eðlilegt að afla tekna til að brúa þann halla sem var á ríkissjóði, en það er gagnrýnt. Gagnrýnt er einnig að skerða þjónustuna. Gagnrýndar eru alveg sérstaklega allar aðgerðir sem skerða kaupmáttinn. Mér sýnist því orðið fátt um góða drætti. Hv. þm. Svavar Gestsson segir að ná megi þessu öllu inn með sköttum af atvinnuvegunum og deilir á að þeir hafi verið lækkaðir. Ég rakti í framsöguræðu minni hver skattalækkun er að mati Þjóðhagsstofnunar, 550 millj. kr. meira hefði náðst inn í sköttum en í fjárlögum er, en þar af eru 250 millj. vegna ráðstafana sem ríkisstj. gerði í lok maí í þágu þeirra sem erfiðust kjör hafa, þ. e. hækkun á persónuafslætti og barnabótum, og satt að segja er ekki nema lítill hluti af þessu sem má rekja til skattalækkana á atvinnuvegunum. Gagnrýnt hefur verið að skattur á ferðamannagjaldeyri var felldur niður. Ég viðurkenni að um það má deila, en það eru þó ekki nema, segi ég, 100 millj. kr. Ég hef reyndar haldið því fram og held því fram enn að sá skattur hafi verið mjög óréttlátur og hafi ekki síst bitnað á þeim sem síst skyldi, sem ekki fá þennan skatt greiddan eftir öðrum leiðum. Mér finnst því satt að segja að í rökstuðningi stjórnarandstæðinga rekist hvað á annars horn, ef ég má orða það svo. Allt er gagnrýnt og ekki síst erlend lántaka. Gagnrýnt er að fjárlögin eru með halla, gagnrýnt er að skera niður þjónustu, gagnrýnt er ef gjöld eru einhvers staðar hækkuð til að loka þessu gati. Staðreyndin er sú að sjálfsögðu að ríkisstj. kaus að fara meðalveg, m. a. í þeirri viðleitni að skerða ekki kaupmáttinn eins og kom fram í framsöguræðu minni og vísa ég til þess.

Hv. þm. spurði um niðurskurð í rn. Ég get því miður ekki upplýst það nema hvað forsrn. varðar. Þar er unnið að framkvæmd á þessu og má segja að það verði svona nokkurn veginn 5% niðurskurður yfir línuna. Þó geri ég ekki ráð fyrir að niðurskurður verði hjá Þjóðhagsstofnun. Vandlega hafa verið skoðuð útgjöld þeirra fáu stofnana sem undir forsrn. heyra og mér sýnist ekki svigrúm hjá Þjóðhagsstofnun til niðurskurðar, en það verður þá tekið annars staðar. Langsamlega stærsti liðurinn þar er Byggðasjóður með 82 millj. kr. og að sjálfsögðu verður hlutfallslegur niðurskurður hjá Byggðasjóði, hátt í 5 millj. kr. Önnur rn. munu vera að vinna að þessu á svipaðan máta.

Hv. þm. spurði um ráðstöfun á þeim 680 millj. kr. sem til atvinnuveganna eru ætlaðar í frv. sem nýrri lántöku. Af því eru 300 millj. vegna sjávarútvegsins.

Gert er ráð fyrir að langmestur hluti þess fjármagns renni til Fiskveiðasjóðs vegna þeirra skuldbreytinga sem ákveðnar eru í Fiskveiðasjóði og krefjast að hluta nýs fjármagns. Verulegum hluta þar verður skuldbreytt með lengingu lána, en sumt krefst nýs fjármagns. Einnig er unnið að samkomulagi við bankana um svipaða skuldbreytingu hjá þeim og það sem eftir stendur af þessu fjármagni og ekki rennur til Fiskveiðasjóðs geri ég fastlega ráð fyrir að ráðstafað verði til slíkra skuldbreytingar hjá bönkunum. 80 millj. kr. eru ætlaðar vegna skuldbreytingar í landbúnaði samkv. tillögum sem sérstök nefnd vann og lagði fram við ríkisstj. og hafa reyndar verið ræddar. Í tillögum þeirrar nefndar var gert ráð fyrir að þörf fyrir nýtt fjármagn væri u. þ. b. 60–80 millj. kr. Þannig er þessi upphæð ákveðin og rennur til veðdeildar Búnaðarbankans. 150 millj. kr. eru ætlaðar til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég rakti það reyndar nokkuð í framsöguræðu minni. Með því vill ríkisstj. stuðla að því að ýmsar álitlegar nýjar greinar geti fest rætur. Þetta er ekki mikið fjármagn, ekki síst með tilliti til þess að áhugi og vilji á þessu sviði er mjög mikill og virðist verða gerbreyttur frá því sem áður var. Fjöldi manna hefur komið á skrifstofu mína og haft orð eins og þau að nú sé allt annað að áætla stofn- og reksturskostnað nýrra greina í þessari miklu minni verðbólgu og nú sé allt annað að ræða við erlenda aðila um kaup á slíkri framleiðslu, nú sé hægt að gefa nokkuð glöggar og áreiðanlegar upplýsingar. Ég nefndi í minni ræðu, hygg ég, t. d. laxaeldi. Á því er mjög mikill áhugi og áreiðanlega gífurlega miklir möguleikar. Við framleiðum ekki nema brot af því magni sem Norðmenn framleiða og þó er, að mati Norðmanna sjálfra, aðstaða hér í tengslum við okkar heita vatn miklu betri en þar og unnt að stytta vaxtartímann um u. þ. b. eitt ár. Ég nefndi loðdýrarækt. Þar eru áreiðanlega miklir möguleikar. Í Danmörku er t. d. 2500 loðdýrabændur og gera það gott og álíka margir munu einnig vera í Finnlandi og reyndar mikið af loðdýrabændum um Norðurlöndin öll. Þar held ég að séu mjög miklir möguleikar bæði til að treysta byggð og stuðla að umsköpun í landbúnaðinum og einnig til verulegra gjaldeyristekna. Að þessu þarf skipulega að vinna. Þó er kannske mesti möguleikinn í greinum sem kalla mætti hátæknigreinar, eins og t. d. í lífefnaiðnaði sem hefur verið mikið rætt um hér upp á síðkastið. Til þess eru hráefni góð í landinu. Síðast en ekki síst nefni ég rafeindaiðnað þar sem við erum langt á eftir okkar nágrönnum. T. d. framleiðum við aðeins um 1/10 til 1/20 hluta að verðmæti af rafeindatækjum þegar borið er saman við Dani á hvern íbúa landsins. Við eigum sem betur fer ungt fólk með mikla þekkingu. (Gripið fram í: Sem er í námi.) Sumt af því er búið í námi, hv. þm. M. a. er á Ísafirði ágætis fyrirtæki sem þú ættir að heimsækja og kynna þér. Það heitir Póllinn og er með 30 manns í vinnu og framleiðir rafeindatæki og er byrjað að flytja út. Og svona er það víða. Nokkur fyrirtæki eru í Reykjavík líka og það eru fyrirtæki í Vestmannaeyjum og ég er sannfærður um að það er líka fyrirtæki á Akureyri og reyndar veit ég að þar eru menn að hasla sér völl á þessu sviði. Áhuginn er því víða, sem betur fer, í landinu og verulegur þekkingarforði á þessu sviði og hann mun aukast. Um þetta verður fjallað í þeirri atvmn. sem ég hef óskað eftir tilnefningu í frá aðilum vinnumarkaðarins — og fékk reyndar fyrir tveimur dögum frá ASÍ og VSÍ. Hún verður kvödd saman mjög fljótlega og ríkisstj. mun síðan setja reglur um ráðstöfun þessa fjármagns að höfðu samráði við slíka aðila.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson spurði hvort ætlunin væri að skerða bætur til langlegusjúklinga og vangefinna og sömuleiðis til ellilífeyrisþega. Ég vil fullvissa hv. þm. um að ekki er ætlunin að það skerðist á nokkurn máta og mig fullvissa sérfræðingar um þessi mál, að eins og þetta sé orðað eigi ekki að vera um skerðingu að ræða. Ef nokkur hætta er á því skulum við endilega skoða það í meðferð þingsins. En ég ræddi við þá menn, sem um þetta fjalla, nú áðan og þeir fullvissuðu mig enn um það að engin hætta sé á slíkri skerðingu.

Hv. þm. talaði um auknar byrðar sem ýmsir hafa af þeim niðurskurði sem hér er um að ræða og það er alveg rétt. Þjónusta ríkisins er yfirleitt til þeirra sem að sjálfsögðu þurfa hennar með og þegar þjónusta ríkisins er skert eykur það vitanlega byrðar hjá þessum aðilum. Við skulum öll vona, a. m. k. er það mín von, að með auknum þjóðartekjum og hagvexti takist að bæta úr þessu á ný.

Um landbúnaðinn hef ég þegar rætt, svo ég hygg að ég þurfi ekki að koma meira inn á það.

Um lán til atvinnuveganna vil ég upplýsa, sem reyndar kom fram í ræðu hv. þm. að nokkru leyti, að þótt nú sé liðið á fimmta mánuðinn hefur þó eingöngu verið ráðstafað 211 millj. af 1 milljarð. Það er, eftir því sem ég best veit, töluvert ef ekki miklu lægra hlutfall en áður hefur verið á þessum tíma árs. Ég vil einnig vekja athygli á að vélar og tæki eru einkum flutt til landsins á fyrri hluta ársins. Þetta eru vélar og tæki sem eru notuð í þeim framkvæmdum sem byrja á vori og standa yfirleitt á okkar landi fyrst og fremst yfir sumarmánuðina. Ég hygg því að ekkert sé óeðlilegt við þann innflutning sem þar er um að ræða. Aðalatriðið er vitanlega að ekki verði farið fram úr þessum 1000 millj. og með því verður vandlega fylgst.

Mér þótti nú satt að segja dálítið furðulegt að hlusta á hv. þm. Svavar Gestsson og Kjartan Jóhannsson vísa í bréf Verslunarráðs Íslands. Átti ég ekki von á því. Í grg. með bréfi Verslunarráðs Íslands segir hvernig það vill framkvæma þær aðgerðir sem hér er um að ræða, þ. e. brúa hallan. Það vill m. a. selja eignir ríkisins sem það telur hjá nokkrum stórum fyrirtækjum vera upp á 540–50 millj. kr. Ætli það sé ekki Póstur og sími? Eru hv. þm. að mæla með því að við seljum eignir Pósts og síma og hver vill þá kaupa? (SvG: Svarið er nei.) Svarið er nei. Ég er sammála hv. þm. Ég vil ekki heldur selja eignir Pósts og síma. Póstur og sími veitir okkur mjög mikilvæga þjónustu og jafnar að verulegu leyti út með sinni starfsemi þá þjónustu sem veitt er landsmönnum og því viljum við halda áfram. Þannig er um aðra liði í þessu bréfi. Ég vísa slíku bréfi á bug. Það er bull, ef ég má orða það svo. (SvG: Það er rétt.) Það er rétt, segir hv. þm. (SvG: Grg.) Staðreyndin er vitanlega sú um m. a. sölu hlutabréfa sem eru boðin til sölu: Hve margir hafa sóst eftir kaupum? Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þarna er ekki að finna lausn á þessum málum.

Margir hafa hins vegar mælt með því að lengra verði gengið í því að skera niður alls konar þjónustu. Ríkisstj. treystir sér ekki til þess af þeim ástæðum sem hér hafa verið nefndar af mörgum hv. þm. Við viljum ekki ganga lengra í að skerða þá þjónustu sem veitt er ýmsum sem á henni þurfa að halda.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að það væri ákaflega æskilegt að minna væri eytt hér í alls konar lúxus og fínheit og orð sem hún hafði um það get ég vel tekið undir. En staðreyndin er nú sú, að við lifum í frjálsu þjóðfélagi og það er einstaklingurinn sem skapar sér forgangsröðun. Æskilegt væri að sú forgangsröðun breyttist. Ég vildi gjarnan að þeir sem eyða sínu fé nú í sólarlandaferðir o. s. frv. legðu það í banka og spöruðu féð svo farið gæti til ráðstöfunar fyrir þjóðfélagið í alls konar mikilvæga uppbyggingu sem við þurfum að hafa. Gæti þá dregið verulega úr því sem við þurfum að taka að láni erlendis. Þetta er sú breyting sem þarf að verða á næstu mánuðum. Það er einlæg von mín að þegar verðbólga hjaðnar áfram og raunvextir haldast skapist sú sparnaðarviðleitni í þjóðfélaginu. Það er kannske það sem við þurfum allra mest á að halda.