11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5769 í B-deild Alþingistíðinda. (5084)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ætli væri hægt að gera ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. héldi sig í þingsölunum meðan þetta mál er til meðferðar? Hann er frummælandi þessa máls og það hefur verið um það talað að reynt yrði að greiða fyrir umr. hér af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna og annarra, þannig að það er nauðsynlegt að fara fram á það að hæstv. forsrh. sé hér viðstaddur meðan þessi umr. fer fram. (Forseti: Ég hygg að hæstv. forsrh. sé ekki í húsinu nú, heldur hafi brugðið sér frá sérstakra erinda, en ég er ekki viss um hvenær hann kemur aftur hingað. En ef það er ákveðin ósk eða krafa hv. ræðumanns, þá skal ég gera ráðstafanir til þess að það verði haft samband við hæstv. ráðh.) Ég hef grun um að hæstv. forsrh. sé ekki langt undan hér á miðbæjarsvæðinu þannig að ef væri komið til hans boðum mundi hann komast á milli húsa á fáeinum mínútum. (Gripið fram í: Boð eru á leiðinni til hans.) Já, hann kemur þá væntanlega eftir nokkrar mínútur.

Hæstv. félmrh. steig hér í stól og svaraði þremur spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég spurði í fyrsta lagi hvort það væri stefna ríkisstj. fyrir fjárlagagerð árið 1985 að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, eins og gert er í þessu frv. Hæstv. félmrh. svaraði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: Svarið er að sjálfsögðu nei. — Það er alveg greinilegt að þegar fjárlagafrv. verður lagt hér fyrir í haust verður ekki till. um að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga takmarkist við fjárlagatöluna. Ég veit að hæstv. félmrh. kann vel að meta liðsinni okkar í Alþb. og ég mun minna hann á þetta þegar kemur til þings í haust og styðja hann í þessu efni svo sem fært verður.

Í öðru lagi spurði ég hæstv. félmrh. hvort það væri tryggt að Byggingarsjóður ríkisins fengi þær 190 millj. kr. sem frv. þetta gerir ráð fyrir að hann fái í erlendum lántökum. Hæstv. ráðh. svaraði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: Svarið er já. — Þannig er bersýnilegt að hæstv. félmrh. getur treyst því að þessir peningar fari í Byggingarsjóð ríkisins á árinu 1985 alveg undanbragðalaust. Hann hefur þegar lýst því hér yfir.

Hæstv. ráðh. gat þess svo, að útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins fyrir árið 1984 væri ekki tilbúin enn þá. Það gefst væntanlega kostur á að ganga eftir henni þegar kemur að umr. um húsnæðismál, sem verður væntanlega áður en þinginu lýkur og ef stjórnarflokkunum tekst að koma sér saman um þann ágreining sem þar er uppi.

Hæstv. forsrh. vék hér að einum ellefu atriðum sem fram komu í framsöguræðu minni í dag og ég ætla að víkja að nokkrum þeirra.

Það er annars athyglisvert, herra forseti, að þegar fram fer umr. um þetta mikla mál skuli tala hér fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi nema Sjálfstfl. Sjálfstfl. er svo illa á sig kominn í sambandi við þetta frv. að enginn talsmaður hans hefur treyst sér upp í stól í umr. um þetta mál. Hv. þm. Friðrik Sophusson flutti ræðu á Seltjarnarnesi um þessi mál, sem ég kom að hluta til til skila í þingtíðindum við 1. umr. málsins. Síðan flutti hann tveggja mínútna svarræðu við lok þeirrar umr. En að öðru leyti hefur Sjálfstfl. ekki treyst sér til að senda fulltrúa í ræðustólinn í þessari umr. Mér finnst það lýsa því betur en allt annað að þeir forustumenn Sjálfstfl. sem eiga hér sæti í hv. Nd., bæði formaður Sjálfstfl. og varaformaður, hafa engan áhuga á því að verja þetta mál. Þeir telja þetta vont og vitlaust mál og vilja sem minnst af því vita. Það er í rauninni alveg kostulegt að staðan skuli vera sú, þegar tekið er tillit til þess að fjmrh. er í Sjálfstfl., að enginn þessara talsmanna Sjálfstfl. hefur treyst sér hér í ræðustólinn enn til þess, þó að hæstv. menntmrh. sé á mælendaskrá, en hún mun ætla að svara fsp. sem til hennar hefur verið beint, þannig að það er alveg greinilegt að innan Sjálfstfl. er bullandi óánægja með þetta frv. eins og það liggur hér fyrir, sjóðandi óánægja.

Hæstv. forsrh. vék fyrst að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á niðurskurð sjúkradagpeninga. Hann lýsti undrun sinni á bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og sagði að hann hefði fengið upplýsingar um það hjá Kristjáni Guðjónssyni deildarstjóra að 90–95% af þessari hækkun sjúkradagpeninga kæmu niður á atvinnurekendum. Hann bauðst jafnframt til að breyta frv., þannig að þetta kæmi alls ekki niður á ungu launafólki, húsmæðrum og námsfólki. Ég held að rétt sé að minna á í þessu sambandi að í þessu efni dugir ákvörðun ráðh. Ef hæstv. heilbr.- og trmrh. ákveður að þessi skerðing eigi ekki að ná til húsmæðra, námsmanna og ungra launamanna gildir sú ákvörðun hæstv. heilbr.og trmrh., enda samþykkir fjmrh. fjárveitingu til þeirra útgjalda. Í rauninni þarf því ekki lagabreytingu til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem mér fannst að hæstv. forsrh. tæki hér undir. Það er á valdi heilbrmrh. og fjmrh. að tryggja að svo verði gert. Ég held að nauðsynlegt sé að hér komi fram að þetta verði framkvæmt á þann veg að hérna verði ekki vegið að hópunum sem eru með lökust kjör allra í landinu.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að mismunandi áætlunum í sambandi við niðurskurð tannlæknakostnaðar og hann kom með fimmtu töluna. Fyrsta talan var 15.9, næsta tala var 16.2, þriðja talan var 20, fjórða talan var 50 og nýjasta talan er 16. Ég held að þessi ágiskun forsrh. sé ekkert betri, heldur fjær lági en allar hinar. Mér sýnist að hérna hafi hlutirnir ekki verið undirbúnir nægilega vel, en það er hins vegar alveg ljóst að hvað sem upphæðunum líður er hérna verið að vega að mikilvægum félagslegum réttindum, eins og við höfum hérna rakið í dag.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson greindi frá því að hann mundi verða á móti greininni um bindiskylduhækkunina. Og hæstv. forsrh. lýsti því yfir að þessi bindiskylduhækkun yrði framkvæmd í samráði við þingflokk Framsfl., það hefði verið samþykkt þar. Þá vil ég spyrja hv. 1. þm. Suðurl.: Hefur verið tekin um það ákvörðun í Sjálfstfl. að bindiskyldan verði því aðeins hækkuð að þingflokkur Sjálfstfl. samþykki það eða er staðan þannig að ríkisstj. og þingflokkur Framsfl. hafi þetta vald, en þingflokkur Sjálfstfl. hafi afsalað sér því? Það er nokkuð athyglisverð nýjung í yfirstjórn peningamála á Íslandi ef annar stjórnarflokkurinn ræður meiru en hinn.

Hæstv. forsrh. greindi frá því í ræðu sinni að gert væri ráð fyrir að lækka endurkaup Seðlabankans, sjálfvirk endurkaup á afurðalánum atvinnuveganna, og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að vekja athygli á því hvað menn eru hér að tala um. Áttar þingheimur sig á því að hér er verið að tala um að lækka bein afurðalán sjávarútvegsins og iðnaðarins og þar af leiðandi gera þessar atvinnugreinar háðari mati einstakra bankastjóra viðskiptabankanna en þær eru núna? Það er verið að afhenda þessar frumvinnslugreinar í landinu geðþóttavaldi bankastjóra viðskiptabankanna í stórauknum mæli og það er verið að segja við bankastjóra viðskiptabankanna: Þið skuluð ákveða hvernig og hvort þessi fyrirtæki verða rekin eftir því hvernig staðan er hjá þeim þá og þá. — Yfirmenn viðskiptabankanna munu vafalaust nota sér þetta vald. Þannig er alveg yfirgengilegt, miðað við þá kröppu stöðu sem er hjá atvinnuvegunum í landinu og viðurkennt var af forsrh., að menn skuli á sama tíma vera að tala um að lækka afurðalán atvinnuveganna. Það er alveg dæmalaust og það er kostulegt að menn eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem þekkir til atvinnurekstrar í sínu bæjarfélagi eins og allir vita, skuli fallast á hugmyndir um að létta skyldum af seðlabankanum um leið og Seðlabankinn á svo að fá stóraukið fé. Ég segi alveg eins og er: Ég held að hv. þm. Stefán Guðmundsson og aðrir væru menn að meiri ef þeir nú kæmu upp og fylgdu í fótspor Ólafs Þórðarsonar í þessu máli og höfnuðu hækkaðri bindiskyldu. (Gripið fram í: Hver veit nema þm. geri það?) Það er lengi von á einum. (Gripið fram í: Forsrh. svaraði þessu.) Hann svaraði engu, hv. þm. Það nam a. m. k. enginn í þessum sal nema kannske þú.

Staðan er auðvitað þannig, að hérna er verið að afhenda viðskiptabönkunum í landinu stóraukið vald yfir atvinnurekstrinum. Það er verið að segja sem svo: Bankastjóri viðskiptabanka ræður því hvort viðkomandi fyrirtæki er rekið eingöngu út frá hagnaðarsjónarmiðum, burtséð frá atvinnusjónarmiðum í viðkomandi byggðarlagi. Hvernig stendur á því að þeir menn sem hafa með atvinnurekstur að gera eða þekkja til atvinnurekstrar láta svona lagað yfir sig ganga?

Ég veit að Seðlabankinn hefur verið að nudda með þessa tillögu í mörg, mörg, mörg ár. Þessi till. var flutt aftur og aftur inn á mitt borð þegar ég var í viðskrn. og síðan inn í þá ríkisstj. sem ég sat í og gegndi þá öðru ráðuneyti. En þessum tillögum var hafnað vegna þess að menn treystu ekki því að hagnaðarsjónarmið forráðamanna viðskiptabankanna dygði í þessu efni, það yrði að taka miklu víðtækara tillit. En hérna á að afhenda Seðlabankanum þetta allt: 10% bindiskylda og lækkun á afurðalánunum frá honum á sama tíma. Ég segi: Aldrei nokkurn tíma hefur Seðlabankinn setið við annað eins veisluborð og hjá þessari ríkisstj., enda er ríkisstj. auðvitað undir hælnum á Seðlabankanum því að ríkið er rekið með seðlaprentun frá Jóhannesi Nordal í Seðlabankanum upp á hvern einasta dag, meira en nokkru sinni fyrr. Ríkisstj. er svo háð Seðlabankanum að hún þorir ekki annað en að samþykkja það sem þaðan kemur. Það er sama hvað það er vitlaust. Engri ríkisstj. hefur dottið í hug að samþykkja svona lagað fyrr en þessari ræfilsstjórn sem lifir á náð Seðlabankans upp á hvern einasta dag. Og það er kostulegt að menn skuli ekki taka við sér þegar það er ágreiningur í stjórnarflokkunum um málið og hv. þm. Þorsteinn Pálsson upplifir það í fjh.- og viðskn. Nd. að Eyjólfur Konráð Jónsson neitar að samþykkja þetta og mun greiða atkv. á móti því og það er víðtæk óánægja í flokkunum. Menn eru tilbúnir að kljúfa sína eigin flokka í þágu Seðlabankans. Hélt ég ekki að það væri á það bætandi innra ástandið í Sjálfstfl., eins og hv. þm. Friðrik Sophusson lýsti í frægri ræðu sem er kennd við Seltjarnarnes, merkri stjórnmálaræðu sem hér var haldin ekki alls fyrir löngu.

Ég er sannfærður um það, herra forseti, að stjórnarflokkarnir hafa ekki farið nákvæmlega yfir hvað þessi breyting á bankapólitík í landinu þýðir, menn vita það ekki. Það hefur reyndar spurst að ákveðnir embættismenn, sem annast nú prófarkalestur stundum, hafi verið hjálplegir með að lempa þessar tillögur inn í frv. á síðari stigum án þess að það hafi nokkurn tíma verið borið undir þingflokkana. Það er vissulega nýlunda ef menn sem eru í prófarkalestri stjórna því sem stendur í stjfrv. Hitt er þó enn þá meiri nýlunda, að stjórnarflokkarnir skuli telja sig bundna af því að samþykkja tillögur sem þannig verða til. Það er yfirgengilegur ræfildómur.

Hæstv. forsrh. rakti það í ræðu sinni að stjórnarandstöðuflokkar gagnrýndu ýmis atriði varðandi þetta frv., menn vildu ekki erlendar lántökur, menn vildu ekki niðurskurð á félagslegri þjónustu, og spurði: Hvað vilja menn þá? Það liggur alveg fyrir, a. m. k. að því er varðar Alþb. Við höfum verið hér með beinar tillögur um tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Við höfum rætt hér um að það sé óþarfi að lækka skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þegar svona árar. Við höfum rætt hér um að óþarfi sé að lækka skatta á fyrirtækjunum almennt í landinu. Við teljum að það sé óþarfi að fella niður álag á ferðamannagjaldeyri þegar svona árar. Og við sjáum enga nauðsyn til að lækka skatta á bönkum um 30–50 millj. kr., eins og verið er að tala um uppi í Ed. í dag. Þessari ríkisstj. ferst ekki að barma sér í þessu efni. Hún er búin að létta sköttum af fyrirtækjum og bönkum upp á mörg hundruð millj. kr., sennilega um 1 milljarð kr. Þessar tekjur hefðu farið langleiðina með að leysa þann vanda sem hér er uppi. Þess vegna er það rangt hjá hæstv. forsrh. að við höfum ekki, að því er Alþb. varðar og mér hefur heyrst aðrir stjórnarandstöðuflokkar líka, bent á ýmsa möguleika til að mæta þeim vanda ríkissjóðs sem hér er uppi. Staðreyndin er hins vegar sú, að hæstv. forsrh. hefur ekki viljað hlusta á neitt af þessum tillögum að undanförnu.

Í ræðu sinni kom hæstv. forsrh. svo að því að 42% útlánaspennan í hagkerfinu, sem ég gat um í ræðu minni, sýndi ekki verðbólgu. Ég segi: þessi 42% aukning útlána á fyrri hluta ársins 1984 sýnir að það er undirliggjandi peningaspenna í hagkerfinu sem þessu nemur. Það er ekki búið að ná neinu jafnvægi í efnahagsmálum á Íslandi, það vantar mikið á það, enda hefur stjórnin ekkert gert til að ná jafnvægi annað en að keyra niður lífskjörin hjá hinum almenna launamanni í þessu landi. Það er jafnvægisleysi í öllu hagkerfinu. Það er viðskiptahalli á þessu ári þrátt fyrir kjaraskerðinguna. Það er halli á ríkissjóði. Það eru stóraukin útlán bankanna frá því sem verið hefur. Þannig eru alls staðar merki um gífurlega fjárhagsspennu í þjóðfélaginu. Þess vegna er augljóst að tilraun ríkisstj. til að ná niður verðbólgunni eingöngu með því að lækka kaupið dugir ekki. Til þess að ná niður verðbólgunni verða menn að taka á fleiri þáttum í efnahagslífinu.

Það kom ekkert svar frá hæstv. forsrh. í sambandi við niðurskurð í ráðuneytinu. Hann sagði að það væri búið að vinna þetta í forsrn., það væri þó lítið, en það yrði hins vegar ekkert skorið niður hjá Þjóðhagsstofnun. Það kemur nú engum á óvart þó að það verði lítið skorið niður þar. En hins vegar komu engar upplýsingar um hvað væri skorið niður í öðrum ráðuneytum, fyrir utan niðurgreiðslurnar. Ég spyr hæstv. fjmrh., sem hefur verið hér í umr. í dag, hvað það er sem verður skorið niður í einstökum ráðuneytum, hvort sú niðurskurðarvinna er lengra komin á veg en að settar hafi verið á blað tölur sem eru auðvitað ekkert annað en hugmyndir og óskir eins og þær líta út fyrir okkur.

Hæstv. forsrh. ætlar að dveljast eitthvað í mannfagnaði þeim sem hann ku hafa gengið til. (Gripið fram í: Hann hlýtur að vera á leiðinni. Það er langt síðan ég sendi eftir honum.) Já, það er langt síðan ég byrjaði líka. (Forseti: Forseti vill taka það fram að hann hefur gert reka að því að forsrh. verði hér.) Ég heyri að hæstv. menntmrh. er orðin óþreyjufull að komast í ræðustólinn. Ég gæti hugsað mér að gera hlé á ræðu minni á meðan hæstv. menntmrh. talar. (Forseti: Það er allgóð tillaga og nú tekur til máls hæstv. menntmrh. Hæstv. menntmrh. tekur til máls. Þess er beðið að hæstv. forsrh. verði hér viðstaddur.) (Menntmrh.: Ég óskaði þess ekki að koma inn í miðja ræðu hv. þm.) (Forseti: Ég vil taka það fram að það er ekki komið inn í miðja ræðu, það eru mjög glögg skil þar á milli, en þar sem komið hefur fram ákveðin ósk um að hæstv. forsrh. verði hér viðstaddur og hans er beðið teldi ég tímanum vel varið ef hæstv. menntmrh. vildi þiggja að flytja ræðu sína.)