11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5785 í B-deild Alþingistíðinda. (5099)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli seinasta ræðumanns, hv. þm. Guðmundar Einarssonar, er sú ríkisábyrgð, sem hér er farið fram á, álíka há og það tap sem Arnarflug hefur greinilega orðið fyrir af kaupum á Electraflugvél o. s. frv. sem var metin á 2.2 millj. dollara þegar hún var keypt, en síðan er hún seld á 1.6 millj. dollara eftir að það hafði farið fram á henni viðgerð upp á 0.4 millj. dollara og hún verið rekin með halla sem nam a. m. k. 1/2 millj. dollara þá 17 mánuði sem félagið átti hana.

Aðdragandi þessa máls er með þeim hætti að segja má að Arnarflug hafi hálfnauðugt gengið til þessara kaupa vegna þrýstings frá ríkisstj. og fleirum og tæplega hægt að kenna þeim Arnarflugsmönnum um hversu hörmulegt þetta var að öllu leyti. Af þessum sökum m. a. tel ég að ekki sé hægt að skilja þá eftir í súpunni, ef svo má að orði komast, þar sem sökudólganna er annars staðar að leita. Og með þeim fyrirvara sem fram kemur í nál. um að eigum ríkisins og þar með skattborgaranna verði ekki hætt og jafnframt þeim fyrirvara að svona ævintýramennsku stofni ráðamenn þjóðarinnar aldrei til framar, þá segi ég reyndar já.