11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5787 í B-deild Alþingistíðinda. (5106)

276. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Af einhverjum ástæðum er töluverð ásókn embættismanna ríkisins í þann hóp sem fær kjör sín úrskurðuð samkv. kjaradómi og þessa dagana er sótt fast að alþm. að stækka þann klúbb án þess að nokkur haldbær rök séu færð fyrir því máli. Ekki hafa heldur fengist skýringar á því hvers vegna hastar svo að afgreiða þetta mál að það var keyrt í gegnum Ed. með þó nokkru offorsi. Í ákvæði til bráðabirgða II stendur að núgildandi kjarasamningar skuli gilda til 28. febr. 1985. Er þá ekki nægur tími til að kanna þetta betur og reyna að finna einhverja viðmiðunarreglu sem flestir geta sætt sig við? Eins og þetta frv. kom frá Ed. var það öldungis fráleitt og um það virtust flestir sammála í fjh.- og viðskn. Nd., en það vildi svo til að ég sat fundi þar sem áheyrnarfulltrúi í fjarveru Guðrúnar Agnarsdóttur þegar fjallað var um málið. Nm. Ed. höfðu bætt við nokkrum starfsheitum og það var sem við manninn mælt að umsóknir tóku að streyma inn um aðild að þessum heldrimannaklúbbi. Skrifstofustjórar rn. eru meðal þeirra sem sækja fast um inngöngu í þennan klúbb, m. a. á þeirri forsendu að þeir séu staðgenglar ráðuneytisstjóra. Hvað þá með alla aðra staðgengla þeirra sem á skránni eru? Það er bersýnilegt að á slíku verður ekkert lát. Þegar litið er á lista klúbbmeðlima vakna þegar spurningar. Hér eru flugmálastjóri og vegamálastjóri, en hvers vegna ekki vita- og hafnamálastjóri? Hér er rektor Háskóla Íslands. Hvers vegna ekki rektor Kennaraháskóla Íslands? Og þá er stutt í alla hina æðri skólana. Hvers vegna er ekki útvarpsstjóri og þjóðleikhússtjóri í þessum klúbbi? Eru þeir eitthvað ófínni en verðlagsstjóri? Hvað ræður eiginlega vali klúbbfélaga? Hver eru inntökuskilyrðin og hvar eru mörkin? Við því hafa ekki fengist svör, enda er viðmiðunarreglan engin. Þessi lög stæðu ekki lengi ef þau yrðu samþykkt svona. Þess vegna er þetta ónýtt frv.

Samkv. breyt. á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 8. maí 1981 eru þeir sem taka laun samkvæmt kjaradómi ráðherrar, hæstaréttardómarar, ríkissaksóknari, biskup Íslands og ráðuneytisstjórar. Ég tel sem sagt enga ástæðu til að fjölga í þessum klúbbi. Það hafa ekki komið nein rök fram fyrir því. Ef ætti að halda slíkan klúbb verða inntökureglur að vera skýrar og afdráttarlausar, annars verður ekkert lát á aðsókninni og veikgeðja alþm. láta auðveldlega undan slíku eins og dæmin sanna. Kannske létu þeir staðar numið þegar kæmi að fulltrúunum í rn. Það er þó aldrei að vita. En örugglega kæmust þó vélritarar ekki í klúbbinn. Þá væri hann ekki fínn lengur. Þetta mál tel ég að þurfi að skoða miklu nánar.