08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

29. mál, stjórn á fiskveiðum

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir margt af því sem hér hefur komið fram, en ég er ekki sammála því öllu. Ég er heldur ekki sammála því, að þessi till. hafi ekki fengið æskilega umfjöllun. Hún hefur fengið það og hún hefur fengið meiri og betri umfjöllun en margar aðrar till., sem hér hafa verið til meðferðar, og er það vel.

Ég er ekki þar með að segja að þessi till. sé góð, það er langt frá því. Ég er heldur ekkert að dæma um það, hvort hún er góð eða slæm. En hún er góð að því leyti til, að hún er kveikjan hér að umr. um mikið mál sem virkilega er þörf á að ræða í þessu ágæta húsi. En því miður fer drjúgur tími þm. í að ræða aðra hluti, sem í mínum huga eru allmiklu léttvægari en þetta mál, sem hér er á dagskrá þennan seinni part dags.

Það er rétt, eins og kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Jóni Baldvin Hannibalssyni, að það er ansi margt sem mun ske ef sú áætlun sem nú liggur fyrir frá fiskifræðingum, þessi nýja spá um 200 þús. tonna afla, verður að veruleika. Ég er hræddur um að menn þurfi að horfa á þjóðhagsáætlun og miklu fleiri þætti ef svo verður.

Ég vil ræða hér á þessum ágæta stað um nýstárlegar leiðir til bættrar stjórnunar á fiskveiðum. Það stendur ekki á mér að ræða þær. Ég vil þess vegna að menn eyði drjúgum tíma til þeirra hluta. En mig langar til að spyrja hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson líka að því, þegar hann fullyrðir hér úr þessum ræðustól að togararnir séu 45 of margir. Er hann alveg viss um að þeir séu ekki 43 eða 44 of margir eða 46? Ég meina, hvaðan er talan 45 komin? (JBH: Ég sagði: ef þeir væru 40 of margir.) Það er einmitt þetta sem fer svolítið í taugarnar á mér. Eins og kom fram hér í ágætri ræðu hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni áðan, þá held ég að við eigum ekki að fullyrða mikið um þessa hluti. Ég held að við eigum að gefa okkur tíma til að ræða þá, skoða þá og reyna að komast að sameiginlegri og haldbærri niðurstöðu í málinu. (JBH: Þess vegna hv. þm., fullyrti ég ekki um það.) Menn tala hér um ýmsa þætti, um stjórnun veiða og menn tala hér mikið um kvótaskiptingu. Hún getur að mínu áliti fyllilega átt rétt ä sér eins og ástandið er í dag. En hvers konar kvótaskiptingu eru menn þá að tala um? Eru menn að tala um það að kvótinn verði jafn á skip? (Gripið fram í: Nei, nei. nei.) Nei, það veit ég að menn eru ekki að tala um. Eru menn að tala um svæðaskiptingu á kvóta? Eru menn jafnvel að tala um að við skiptum landinu upp og höfum ákveðna svæðaskiptingu á kvóta, miðað við það hvað ákveðin svæði hafa dregið mikið af þessum góðfiski sem við erum að tala um, þorskinum, fram að þessu? Ég gæti trúað að það stæði í hv. ræðumönnum hér að svara því. Eiga þeir sem hafa sótt í karfann í stórum stíl og aðra stofna en þorskstofna að fá stóraukið þorskmagn með kvótaskiptingu miðað við hina? (JBH: Eigum við ekki að skipa nefnd til að svara þessum spurningum?) Ég held að þeir menn sem standa að till. hefðu haft gott af því að vera búnir að velta þessu fyrir sér aðeins áður en þeir settu hana fram. Svo megum við heldur ekki gleyma því í sambandi við stjórn veiða að við verðum líka að tala um aðrar fisktegundir en þorsk. Við erum að því og við skulum taka mið af því þegar við erum að tala um stjórnun veiða.

Ég vil einnig spyrja um vertíðina, vetrarvertíðina. Ég er einn af þeim sem hafa talað allhávært um það að mér finnst verulega tímabært að við skoðum það mál. hvernig við höfum staðið að vertíðinni og veltum fyrir okkur þeirri spurningu að bátarnir eigi að hafa helminginn af aflanum og hann er tekinn á tiltölulega mjög stuttum tíma. Ég held að menn hafi aldrei áttað sig á því, eins og kom hér fram áðan, að við eigum orðið um 758 þús. ferkílómetra að landinu. Og spurningin er sú: Liggur okkur svo mjög á að drepa þennan fisk á svo ákaflega skömmum tíma eins og gerist í dag? Þá er ég að tala um vertíðina. Eigum við ekki aðeins að hugleiða þann möguleika að gefa fiskinum aðeins meira næði til að fá að ljúka sér af að hrygna og taka hann svo á eftir?

Ég kalla það nánast furðulegt að ég skuli hafa sloppið með að segja þetta án þess að einhver gripi fram í og segði: Þetta er Norðlendingunum líkt, sem hugsa ekki um annað en að drepa smáfisk. Þannig hafa viðkvæðin verið. (Gripið fram í: Við erum ekki í hreppapólitík hér.) Nei, það væri betur. Ég held að við eigum ekki að fara í hreppapólitík, málið er miklu stærra en það. En ég vil að menn skoði þetta í fullri alvöru í sambandi við vertíðina. Ég vil einnig taka undir það að það er vitaskuld hrein fásinna að bátar eða togarar liggi í smáfiski, það er alveg fráleitt í mínum huga. Og reyndar hefur margt verið gert til að sporna við slíku. Ég bendi á skyndilokanir veiðisvæða sem eru mjög virk stjórnun, ég minni á stækkun möskva, og ég minni á að heilu hafsvæðin úti fyrir Norðurlandi eru lokuð. En hvar eru mörkin dregin hér fyrir sunnan ef við tölum um það?

Ég vildi einnig spyrja: Þegar menn tala um kvótaskiptinguna eru menn þá að tala um að setja kvótaskiptinguna á bátana líka? Ég hefði gaman af að heyra það. Yrði þá þessum 100 þús. tonnum skipt jafnt upp á milli allra báta á Íslandi? Ég er hræddur um að þá heyrðist hljóð úr horni. Og ég er hræddur um að menn hafi ætlast til annars.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara mjög ítarlega yfir þetta. Sem betur fer sýnist mér allt benda til þess að hér muni verða á næstu dögum miklar umr. um þessi mál. Þess vegna skal ég ekki eyða mjög löngum tíma nú. Ég hefði haft gaman af að fjalla hér ítarlega um þessi mál.

Hér hefur verið minnst á gæðamálin. Það hefur orðið bylting í meðferð fisks. Og hvar þá fyrst og fremst? Fyrst og fremst í togurunum. Mér blöskrar að sjá hvernig gengið er um t.d. bátafiskinn í dag. Við þurfum ekki annað en að fara hérna suður með sjó og horfa á hvernig löndunin gengur fyrir sér, við þurfum ekki að horfa á annað. En vitaskuld má gera miklu betur.

Menn tala um úthald togaranna. Það er sjálfsagt að skoða það mál. En að tala um úthald togaranna eins og menn tala hér þegar menn segja: Það á að skipta úthaldstíma skipanna — það er raunverulega ekki kjarni málsins, og það er ekkert sniðugt ef það stæði einhvers staðar. Það sem á að gera er að það á ekki að koma með nema þetta gamlan fisk að landi. Og það er ekki það sama. Ég vona að menn átti sig á því. Það sem á að beita í enn ríkari mæli en gert hefur verið er dagmerking þess fisks sem veiddur er og kemur um borð í veiðiskipin. Það á að beita henni og fylgja því frekar eftir en gert hefur verið og sjá til þess að það sé gert, því það er það sem skiptir máli, hvað fiskurinn er gamall þegar hann kemur að landi.

Ef við tölum um skip sem fer út frá, ja við skulum segja Vestmannaeyjum og fer vestur eða norður fyrir land, þá erum við ekkert að tala um sama tíma þar eða hjá skipi sem gert er út frá Norðurlandi. Þess vegna er það dagmerkingin sem gildir, hvað fiskurinn er gamall þegar hann kemur að landi en ekki úthaldstími skipsins.

Í sambandi við álit fiskifræðinganna ætla ég ekki að setja mig í dómarasæti, en ég hefði haft gaman af því að fá svar fiskifræðinga við einni spurningu. Er það staðreynd að fiskurinn sem veiddist jafnmikið af og raun bar vitni við Færeyjar nú í ár, er það staðreynd að það hafi verið Íslandsþorskurinn sem þar var veiddur? Hvernig má það vera að menn séu að velta þessu fyrir sér? Hvernig má það vera að um þetta liggi ekki fyrir óyggjandi upplýsingar? Þetta er eitt meginmálið í mínum huga. Eru það lífsskilyrðin í sjónum sem hafa orðið þess valdandi að fiskurinn hefur leitað frá Íslandi og þá jafnvel til Færeyja? Færeyingar hafa sótt og fengið mikinn afla nú eins og við vitum. Og við vitum að það er margt annað sem hefur verið að gerast í hafinu fyrir Vestur- og Norðurlandi. Við vitum að þar hefur verið undanfarið mjög mikið um veiðar á rækju t.d. Af hverju er svo mikið af rækju nú á þessu hafsvæði? Er það vegna lífsskilyrðanna í sjónum? Er rækja svona mikil einmitt þarna nú vegna þess að þorskurinn hefur farið eitthvað annað?

Mér finnst það raunverulega furðulegt að þetta skuli ekki liggja ljóst fyrir. Var þetta Íslandsþorskurinn. sem Færeyingar voru að veiða, eða ekki? (Gripið fram í: Þeir segja það.) Þeir segja það. En hvað segja okkar menn? Við áttum ekkert að þurfa að spyrja. Við áttum ekkert að þurfa að spyrja Færeyinga. Vegalengdin er ekki slík á milli að það var engin vorkunn að fá úr þessu skorið. Við gátum sent okkar menn til að fylgjast með því og fá það sanna og rétta fram í þessu máli. (Gripið fram í: Við hefðum átt að senda þeim fiskinn á Skúlagötuna.)

Ég skal fara að láta máli mínu lokið. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á það sem hér kemur fram í tali flm. þessarar till., þ.e. offjárfestingu í sjávarútvegi, að fjárfestingin í sjávarútvegi skili ekki þeim afrakstri sem til hafi verið ætlast. Þetta fer í taugarnar á mér og hefur gert lengi. Menn gleyma því að sjávarútvegurinn stendur undir öllu sem er að gerast hér í okkar ágæta landi, hann stendur undir öllu. En hvað er að gerast? Það sem er að gerast í þessum efnum er það, að allir aðrir en þeir sem afla til þessarar köku hafa hrifsað úr henni sinn bita áður en þeir hafa fengið sinn sem til hennar hafa aflað. Þetta er kjarni málsins. Því er svo komið fyrir íslenskum sjávarútvegi í dag sem raun ber vitni að það eru allir aðrir sem hafa hrifsað af kökunni áður en þeir sem til hennar hafa aflað hafa fengið sitt.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, fyrrv. sjútvrh., talar mjög gjarnan um það og vill kenna fyrrv. sjútvrh. Steingrími Hermannssyni um allt sem miður hefur farið í þessum efnum, og þá fyrst og fremst um innflutning allra togaranna. Það er nú svo að frá árinu 1970 hafa Alþfl.-menn, Alþb.-menn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn átt sjútvrh., mislengi sem betur fer. Ef við tökum saman í dögum valdatíma þessara ágætu manna, hvað þeir hafa setið lengi við völd hver þessara flokka og hvað þeir hafa flutt inn mörg skip pr. dag. hvað kemur í ljós? Þeir sem hafa flutt inn flest skipin eru Lúðvík eða Alþb., þeir sem eru næstir Alþfl., þeir þriðju eru Sjálfstfl., þeir sem hafa flutt inn fæst skipin eru ráðherrar Framsfl. Nú er ég ekki að segja með þessu að þetta sé illt verk að flytja inn skip, alls ekki. Ég vil helst ekki hlusta á það að það sé illt og óþarft verk að hafa flutt inn fiskiskip til Íslands. Þess vegna segi ég það að Jón Baldvin hefur engin rök í því þegar hann segir að togaraflotinn sé 40 skipum of stór. Það eru engin rök. Þessir sömu menn eru að kveina yfir því að atvinnuleysi sé víða í dag og það sé verið að leggja skipum. Og maður skilur alveg hvað býr undir. En málflutningurinn gengur ekki upp. Þetta er áróðursbragð sem menn eiga ekki að vera að nota þegar við erum að fjalla um þessa undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga. Ég fagna því að sjútvrh. er á réttri leið að leita skynsamlegra leiða til að nýta þann skipastól sem við Íslendingar eigum og það sem við drögum úr hafinu. Það er kjarni málsins í mínum huga.