11.05.1984
Neðri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5789 í B-deild Alþingistíðinda. (5113)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í 25. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að heimila Seðlabankanum að auka svokallaða sveigjanlega bindiskyldu um 10%. Umr. um þetta mál fóru fram hér fyrr í dag og við nafnakall um greinina við 2. umr. kom í ljós að hún á mikilli andstöðu að mæta í báðum stjórnarflokkunum og má heita að þeir séu þverklofnir í þessu máli. Er ekki einleikið hvað menn leggja á sig mikil erfiðisverk fyrir Seðlabankann, að kljúfa jafnvel eigin flokka í herðar niður. Nú er það hins vegar svo að annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., hefur ákveðið að leyfa ekki sínum ráðherrum að samþykkja þessa hækkun bindiskyldu öðruvísi en að þingflokkurinn leggi blessun sína yfir það. Þar með stendur málið með þeim hætti að aukning sveigjanlegrar bindiskyldu væri í höndum ríkisstj. og þingflokks Framsfl. Er það mikil nýlunda ef mál eru með þessum hætti aðeins í höndum annars stjórnarflokks af tveimur.

Ég lagði þá spurningu fyrir hv. 1. þm. Suðurl. fyrr í dag hvort Sjálfstfl. ætlaði að leyfa sínum ráðherra að ástunda þessa sérkennilegu sveigjanlegu bindiskyldu án þess að þingflokkurinn kæmi þar nálægt. Hv. 1. þm. Suðurl. sá ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu í dag. Ég spyr þá hv. 9. landsk. þm., Ólaf G. Einarsson, formann þingflokks Sjálfstfl., hvort bindiskyldan verði ekki aukin og ekki að því staðið af hálfu ráðh. Sjálfstfl. nema því aðeins að þingflokkur Sjálfstfl. samþykki það. Hefur Sjálfstfl. ákveðið að beita sömu reglu og Framsfl. eða er ætlun Sjálfstfl. að afhenda ríkisstj. og Framsfl. einhliða þetta sveigjanlega vald til bindiskyldu?