11.05.1984
Neðri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5790 í B-deild Alþingistíðinda. (5118)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þá liggur fyrir að hinni sveigjanlegu bindiskyldu verður ekki beitt nema í samráði við þingflokk Sjálfstfl. Þá væri auðvitað eðlilegra að orða greinina í samræmi við það og segja: Á tímabilinu 1. maí 1984 til 31. sept. 1985 er seðlabanka Ístands heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. og þingflokks Framsfl. að höfðu samráði við þingflokk Sjálfstfl. að ákveða allt að 10% sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana til viðbótar þeirri bindiskyldu sem heimiluð er í 31. gr. laga nr. 13/1979. (Gripið fram í: Þetta er góð hugmynd.) Það er hugsanlegt að hv. þm. flytji þá brtt. síðar í umr.

Ég held að þetta sýni ákaflega vel hvað stjórnarflokkarnir eru í miklum vandræðum með þetta mál. Þeir eru í hálfgerðum keng og hálfgerðri beyglu með þetta mál og vita ekki hvernig þeir eiga að snúa sér út úr því. Flokkarnir eru á móti þessu. Ég fullyrði að þeir eru það að meiri hluta til báðir tveir. En eftir að þetta hafði komist inn í próförk og hafði verið lagt þannig fyrir í þinginu, án þess að þingflokkarnir hefðu verið spurðir, kunna menn ekki við annað en að druslast með að fengnu samþykki þingflokks Framsfl. og að höfðu samráði við þingflokk Sjálfstfl. Ég er sannfærður um að þeir sem ástunda prófarkalestur á þingskjölum hafa aldrei fengið eins virðulega meðferð og liggur fyrir eftir samþykkt þessara tveggja þingflokka.