14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5797 í B-deild Alþingistíðinda. (5135)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Nú eru annir hér á hv. Alþingi. Ríkisstj. hefur lagt fram óskalista um hver þau mál séu sem hún telur nauðsynlegt að lögfest verði áður en Alþingi tekur sér sumarfrí. Eitt af þeim málum, sem talið er nauðsynlegt að afgreidd verði, er það frv. sem við erum að ræða hér, þ. e. frv. um Ríkismat sjávarafurða.

Mín skoðun er sú að þarna sé ekki um neitt nauðsynjamál að ræða og það sé ekki vel sett í forgangsröð ríkisstj. Að meginhluta til er frv. tilgangslaust vegna þess að fyrir hendi eru lög sem eru það góð að þau leggja grundvöll að góðu fiskmati í landinu. Í þessu frv. eru þó þættir sem breyta nokkuð frá því sem áður var, þ. e. frv. gerir ráð fyrir tveimur sérstökum breytingum.

Það er í fyrsta lagi horfið frá því að gera hið íslenska fiskmat óháð tæknilegt mat og það gert að mati sem að nokkru leyti og í viðamiklum tilfellum er háð skoðunum og tillögum þeirra aðila sem í framleiðslunni eru, þ. e. hinna svokölluðu hagsmunaaðila. Þessi þáttur er að mínu mati þýðingarmikið mál og gæti ég næstum því haft um það sömu orð og hæstv. ráðh. hafði um annan þátt málanna. Þetta er mjög þýðingarmikið mál á mörkuðum okkar. Að mínu mati er ekki hægt að liða það, eins og hæstv. ráðh. sagði, að teflt sé á tæpasta vaðið í sambandi við markaði okkar víða um lönd með því að breyta óháðu tæknilegu mati í mat framleiðanda.

Um þennan þátt er hægt að hafa mörg orð. Ég bendi á að t. d. krefjast Austur-Evrópuríkin öll vottorða frá opinberu mati. Eins hefur verið um flesta þá markaði sem við höfum haft viðskipti við, að þeir hafa tekið hið íslenska ríkismat gilt og það hefur unnið sér virðingu og tiltrú á undanförnum árum. Á hinn bóginn er stærsti markaður okkar, í Bandaríkjunum, þó nokkuð öðruvísi en markaðir sem við seljum á í Evrópu. Þar erum við að selja sjálfum okkur aftur og við höfum tvöfalt eftirlit með þeirri framleiðslu. Varan fer til framleiðslufyrirtækja okkar í Bandaríkjunum og þar gefst tækifæri til að benda á galla og lagfæra galla ef fram koma. Ríkismatið þjónar því þó nokkuð öðrum tilgangi á þeim vettvangi en á hinum svokallaða frjálsa verslunarmarkaði. Annar þáttur sem er nýlunda í þessu frv. er að frv. þetta gerir ráð fyrir því í 16. gr., eins og ráðh. nefndi áðan, að nú skuli það vera á valdi ráðh. hverjir verki fisk. Í 16. gr. er ákvæði um ráðherravald. Ráðh. nefndi að margir aðilar hér á landi gætu stöðvað framleiðslu og það væri eðlilegt að ráðh. bættist í þann hóp. Ég er á nokkuð annarri skoðun. Ég tel ósköp eðlilegt og sjálfsagt að Brunaeftirlitið geti stöðvað fyrirtæki ef brunavarnir eru ekki samkvæmt lögum og skyldum. Ég tel líka sjálfsagt að Vinnueftirlitið geti stöðvað framleiðslu hjá fyrirtæki ef viðkomandi uppfyllir ekki þær kröfur sem Vinnueftirlitið gerir. Og ég tel líka sjálfsagt að Framleiðslueftirlit sjávarafurða eða Ríkismat sjávarafurða geti stöðvað framleiðslu hjá viðkomandi fyrirtæki ef það brýtur í bág við reglur um hvernig framleiðslan skuli vera unnin. En að það skuli vera komið í hendur á pólitísku valdi hvort menn framleiði fisk eða ekki finnst mér alveg fráleitt.

Ég held ég fari í nokkrum orðum yfir grg. þá sem fylgdi hinu upphaflega frv., eins og það var áður en að Nd. breytti því, og líti aðeins á hver er tilætlunin í frv. Að mínu mati kemur í ljós við þá yfirferð að hún er fyrst og fremst að lögleiða það framtak sem ég hef nefnt hér á undan. Ég mun, herra forseti, fara yfir greinargerð frv. og lesa upp úr henni jöfnum höndum sem ég bendi á ýmsa þætti sem ég tel gagnrýnisverða ellegar ekki sé ástæða til að breyta. Með leyfi forseta mun ég lesa grg. á þann máta. — Grg. hefst þannig:

„Með bréfi 6. sept. 1979 skipaði sjútvrh. fimm manna nefnd til að endurskoða lög um Framleiðslueftirlit sjávarafurða til einföldunar og sparnaðar í rekstri stofnunarinnar.“

Skyldi það frv. sem við erum að fara yfir nú og ræða hér bera í sér eitthvað slíkt? Ég held að það sé af og frá. Frekar bendir þetta frv. í þá átt að það muni verða, ef að lögum verður, til kostnaðarauka fyrir stofnunina.

„Þessir menn voru skipaðir í nefndina: Björn Dagbjartsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, formaður, Ingólfur Ingólfsson, tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands, Gísli Jón Hermannsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hjalti Einarsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, og Tómas Þorvaldsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda og síldarútvegsnefnd.“

Hér er hver öðlingurinn öðrum meiri og kunnugir menn í framleiðslu sjávarafurða, en allir með því markinu brenndir að vera hagsmunaaðilar eða stjórnendur í aðalframleiðslufyrirtækjunum.

„Nefndin hélt marga fundi og kallaðir voru til viðræðna fulltrúar frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, ásamt starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Þann 23. jan. 1980 skilaði nefndin áfangaskýrslu um störf sín og lagði til að 20 aðilum úr röðum þjónustustofnana og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi yrði send áfangaskýrslan til umsagnar.“

Ég hef ekki lista yfir þá 20 aðila sem send var þessi skýrsla til umsagnar. Ekki var hún send þm. nema þá í þrengsta hring eða kannske sjútvn. þingsins.

„Umsagnir bárust frá 13 aðilum. Í yfirliti yfir rekstur og skipulag stofnunarinnar segir svo í áfangaskýrslunni: „Allhörð gagnrýni hefur verið höfð í frammi gagnvart starfsemi stofnunarinnar og má segja að sú gagnrýni sé þríhliða: Frá hagsmunaaðilum, frá hinu opinbera og frá starfsmönnum. Frá hagsmunaaðilum hefur fiskmatið verið gagnrýnt fyrir ófagleg vinnubrögð, stífni og stirðleika og jafnvel hlutdrægni, enn fremur misræmi í mati á milli landshluta og á milli manna á sama stað o. s. frv.“

Þegar flett er umsögnum, sem hv. formaður sjútvn. Ed: sá til að við fengjum til yfirlestrar áður en málið kom hér til umræðu, þá ber hvergi á þessari gagnrýni. Það kemur hvergi fram í þeim umsögnum sem sjútvn. Nd. hafa borist að fiskmatið hafi verið gagnrýnt fyrir ófagleg vinnubrögð, stífni, stirðleika og jafnvel hlutdrægni. Nær er að undirstrikað sé að matið hafi unnið sitt verk að öllu leyti vel.

„Einnig hefur verið kvartað yfir vafasömum og ósamræmdum innheimtuaðgerðum einstakra matsmanna o. fl.“

Flest er nú tínt til, segi ég.

„Síldarverkendum finnst t. d. sinn hlutur fyrir borð borinn í starfsháttum Framleiðslueftirlitsins. Skreiðarverkendur kvarta undan því að starfsmenn Framleiðslueftirlitsins taki ekki tillit til kröfugerða viðkomandi markaða þegar metið er og þannig mætti lengi telja.“

Hæstv. ráðh. tók undir það að þetta væri eitt af því sem ætti að girða fyrir með því frv. sem hér er til umr., að mat taki ekki tillit til viðkomandi markaða þegar metið er og þannig mætti lengi telja. Ég geri nú ráð fyrir að erfitt verði að búa til þá stofnun til að gera skreiðarmat og skreiðarúttekt sem einhverjar kvartanir berist ekki um. Ég efast ekki um og veit að í vissum tilfellum eru gerðar tillögur um breytingu bæði á pökkun og mati útflutnings, en ég held að það verði ekki komist fyrir þau vandræði með því að breyta lögum.

„Gagnrýni hins opinbera er sennilega hvað mest vegna fjármála stofnunarinnar og kostnaðar, einkum af ferskfiskmatinu, þar sem það þjóni í dag litlum öðrum tilgangi en að vera verðfellingaraðili, þ. e. milligönguaðili milli kaupenda og seljenda.“

Þetta er jafnskrýtið og annað í þessari umsögn í sambandi við kostnaðarhlutann og ferskfiskeftirlitið. Liggur beint fyrir að samkvæmt þeim tillögum sem hér eru uppi er gert ráð fyrir að ferskfiskeftirlitið þenjist út, ef það á að skila því hlutverki sem því er ætlað í því frv. sem hér er til umr.

„Enn fremur hefur verið að því fundið af opinberri hálfu, að seljendur saltfisks og skreiðar skuli ekki sjálfir kosta eigið eftirlit í svipuðum mæli og seljendur freðfisks gera.“

Ég nefndi áðan að reginmunur er á milli þess hvort verið er að meta fisk á Austur-Evrópumarkað, Spánar eða Portúgalsmarkað, Nígeríumarkað eða Ítalíumarkað eða þá framleiðsluvöru sem send er til Bandaríkjanna og fyrirtækin eru að selja sjálfum sér. Í sambandi við Austur-Evrópu-viðskiptin er þá vitað mál að ríki í Austur-Evrópu krefjast þess öll að ofan á gæðastimpil frystihúsanna sjálfra komi gæðastimpill frá Framleiðslueftirlitinu eða ríkismati.

„Þá er ekki minnst um verð hin innri gagnrýni, það er sjálfra starfsmanna Framleiðslueftirlits sjávarafurða.“ Það kveður við allt annan tón þegar lesin er umsögn þeirra starfsmanna. Ég man ekki eftir því, og hef nú fylgst með starfsemi þessara manna í áratugi, að slíkur hafi verið dómur um fiskmat, hvorki Fiskmats ríkisins né Framleiðslueftirlits sjávarafurða, og vil sérstaklega undirstrika að allt samstarf við þessa menn hefur verið sérstaklega gott, þvert ofan í það sem hér er sagt.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum:

„Virðist sem innanhúsósætti hafi átt talsverðan þátt í því að minnka veg þessarar stofnunar og komi það bæði niður á þeirri þjónustu sem stofnunin á að veita og kostnaði við rekstur F.S.“

Gæti ekki verið að öll þessi óvissa, sem búin er að vera í kringum þessa stofnun á undanförnum árum eins og hæstv. ráðh. lýsti í ræðu sinni áðan, hafi getað stafað af einhverju öðru ósætti en innanhúsósætti hjá Framleiðslueftirliti ríkisins? Ég hef trú á að svo gæti verið, þó að ég ætli ekki að fullyrða neitt, að einhverjir aðilar hafi talið nauðsynlegt að breyta þarna einhverju út frá sínum eigin persónulegu ástæðum en ekki vegna þess að matið væri á þann veg sem hér er lýst.

„Lokaskýrsla nefndarinnar barst sjútvrh. síðustu daga októbermánaðar 1980 og er þar lagt til í samandregnum tillögum „Um breytta skipan fiskmatsmála“ eftirfarandi:

1. Lagt er til að sett verði á stofn fiskmatsráð, skipað fulltrúum hagsmunaaðila og sjútvrh., er hafi með höndum yfirumsjón gæðaeftirlits og mats á sjávarafurðum.

2. Gert er ráð fyrir því, að ferskfiskeftirlit og afurðamat með útfluttum sjávarafurðum verði skilið að. Afurðamatið verði einfaldað og ábyrgð framleiðenda aukin, en ferskfiskeftirlitið byggt upp af opinberum trúnaðarmönnum í hverri löndunarhöfn og sérstökum ferskfiskeftirlitsmönnum, hliðstæðum veiðieftirlitsmönnum sjútvrn.

Í sjálfu sér er í 2. lið ekki verið að breyta miklu, en í 1. lið er, eins og ég sagði áðan, verið að breyta Framleiðslueftirlitinu í stofnun sem er stjórnað af hagsmunaaðilum.

„3. Lögð verði sú skylda á sölusamtök og útflutningsaðila, að þeir komi á fót eigin framleiðslueftirliti ella kaupi þeir þá þjónustu sérstaklega af afurðamati ríkisins eða öðrum viðurkenndum eftirlitsaðilum.“

Stærri sölusamtökin hafa á hendi framleiðslueftirlit. Bæði hraðfrystiiðnaðurinn og saltfiskframleiðslan hafa sitt framleiðslueftirlit sem hefur unnið í góðu samstarfi við Framleiðslueftirlit sjávarafurða. En hvar er hugsanlegt að þeir aðilar sem ekki hafa slíkt framleiðslueftirlit á hendi eða hafa ekki aðstöðu til þess að byggja það upp geti fengið það hjá öðrum viðurkenndum eftirlitsaðilum en afurðamati ríkisins? Það má vel vera að eftir að þessi lög hafa verið samþykkt komi upp stofnanir sem verði svipaðar og þau mörgu, og sjálfsagt góðu, fyrirtæki sem hafa risið upp á undanförnum árum og endurskoða rekstur hinna og þessara fyrirtækja vítt um landið og virðast gróa vel, en eins og stendur veit ég ekki um neina stofnun aðra en Framleiðslueftirlit sjávarafurða og þær stofnanir sem sölusamtökin hafa byggt sér upp sem gæti tekið að sér að hafa eftirlit með útflutningi.

„4. Sérstök hreinlætis- og búnaðardeild verði lögð niður, en slíkt eftirlit í vinnslustöðvum falið almennum afurðamatsmönnum undir yfirstjórn gerlafræðings er starfi hjá stofnun þeirri er annast afurðamat.“

Þar skyldi nú gera mikla breytingu á Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Það skyldi leggja niður hreinlætis- og búnaðardeildina. Kannske hyrfi það, sem hæstv. ráðh. nefndi áðan, að aðrir aðilar en ráðh. gætu lokað íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum, stofnunin hefði ekki burði til þess að fylgjast með hvernig framleiðslan á sér stað.

Síðan Framleiðslueftirliti sjávarafurða var komið á fót hefur þessi þáttur í starfi þess verið ég vil ekki segja viðamestur, en sá þátturinn sem menn hafa tekið hvað mest eftir og mestum breytingum hefur komið til leiðar. Það hefur orðið mjög mikil breyting í sambandi við búnað og hreinlæti, bæði í frystihúsum og þó sérstaklega í vinnslustöðvum í sambandi við saltfisk og skreið. Ef á að fara að draga úr möguleikum Framleiðslueftirlits sjávarafurða, til að hafa eftirlit með þessu finnst mér mjög miður farið. Það má reyndar bæta þessum þætti við þá tvo er ég sagði áðan að mér fyndust mjög neikvæðir og marka nýja stefnu í þessu frv., þ. e. í fyrsta lagi að verið sé að breyta Framleiðslueftirlitinu í mat hagsmunaaðila, í öðru lagi að verið væri að gefa ráðh. heimild til að taka vinnsluleyfi af framleiðendum og í þriðja lagi að dregið væri úr þeim þætti starfsemi Framleiðslueftirlitsins sem mjög mikilsverður hefur verið undanfarandi ár, hreinlætisdeildinni. Nd. mun hafa breytt þeirri áherslu sem lögð er á að draga úr starfsemi á þessu sviði Framleiðslueftirlitsins.

„5. Lagt er til að hafist verði handa um að endurskoða allar reglugerðir og opinber fyrirmæli um fiskmat undir yfirstjórn fiskmatsráðs strax er það hefur störf.“

Það gefur auga leið að þetta þurfti ekki að koma inn. Ráðh. hefur heimild til að gefa út reglugerðir um þessi mál samkv. þeim lögum sem í gildi eru, en þarna er skotið inn: „undir yfirstjórn fiskmatsráðs“. Tilætlunin er enn sú sama og öll á þann veginn að hagsmunaaðilar hafi þar hönd í bagga.

„6. Mætt er með því að gefnar verði út samræmdar matsreglur og leiðbeiningar um fiskverkun og fiskmat.“ Ekki sé ég ástæðu til að setja sérstök lög til þess að þetta kæmi fram.

„Þann 29. janúar 1982 skipaði sjútvrh. fimm menn í nefnd er kallast fiskmatsráð og hefur eftirgreind verkefni.“

Fiskmatsráð, já. Þetta er líkast til upphafið að þeirri stjórnun sem þetta frv. leggur til að komið verði lagaramma utan um. Mér er ekki kunnugt um að þetta fiskmatsráð og starfsemi þess sé neins staðar tengt lögum. En löglegt getur það verið fyrir það. Ekki vil ég gefa í skyn að þarna sé verið að búa til stofnun sem ekki hafi lagastoð.

Fiskmatsráð hefur eftirgreind verkefni:

„1. Vera ráðuneytinu og forstjóra Framleiðslueftirlits sjávarafurða til ráðgjafar um framleiðslumál og eftirlit og mat á sjávarafurðum.

2. Endurskoða starfshætti, verklag og reglur Framleiðslueftirlitsins eftir því sem ráðinu sýnist nauðsynlegt.

3. Fylgjast með starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða og taka fyrir til umfjöllunar þau vandamál og ágreiningsmál sem upp koma hverju sinni.

4. Fiskmatsráð skal í störfum sínum hafa samráð og samvinnu við forstjóra framleiðslueftirlitsins.“

Allt þetta er miklu eðlilegra að setja beint undir forstjóra eða framkvæmdastjóra fiskeftirlitsins og hlýtur að verða trúverðugra þannig.

Því næst er í grg. skýrsla um fiskmatsráð og hverjir eru þar innan dyra. Þar eru Halldór Þorsteinsson, forstöðumaður fiskeftirlitsdeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, formaður, Hjalti Einarsson, framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Jónas Bjarnason, deildarverkfræðingur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, núverandi forstjóri Framleiðslueftirlits sjávarafurða, Hafþór Rósmundsson, starfsmaður sjómannasambands Íslands, og Einar M. Jóhannsson, eftirlitsmaður frá sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, nú annar forstjóri Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Þetta eru allt menn sem beinna hagsmuna hafa að gæta þarna og ekki beinir tæknimenn aðrir en Halldór Þorsteinsson, Jónas Bjarnason, sem nú er orðinn forstjóri stofnunarinnar, og Einar M. Jóhannsson.

„Fiskmatsráð, sem falið var að gera uppkast að frv. þessu, hefur starfað óslitið frá því það var skipað. Fyrsti þáttur í störfum ráðsins var að láta framkvæma úttekt á öðrum meginþættinum í starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða, þ. e. ferskfiskmatinu. Til þess verks voru ráðnir þeir Benedikt Gunnarsson tæknifræðingur og Sigurjón Auðunsson fiskeftirlitsmaður. Greinargerð þeirra um úttektina barst fiskmatsráði og Framleiðslueftirlitinu í september 1982. Þann 2. nóv. 1982 boðaði sjútvrh. til fundar með hagsmunaaðilum og þjónustustofnunum í sjávarútvegi um gæðamál í sjávarútvegsframleiðslunni. Á fundinum var lögð fram skýrsla fiskmatsráðs, dags. 28. okt. 1982, um „Ástand ferskfiskmats og tillögur til endurbóta á skipulagi og starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða varðandi ferskfiskmat.“ Skýrsla fiskmatsráðs var að miklu leyti byggð á greinargerð þeirra Benedikts Gunnarssonar og Sigurjóns Auðunssonar um úttektina á ferskfiskmatinu. Þann 29. nóv. 1982 boðaði sjútvrh. aftur til fundar með hagsmunaaðilum og lagði fram drög að lagafrv. um Ríkismat sjávarafurða. Eftir kynningu á drögunum og umræður var viðstöddum fulltrúum hagsmunaaðila boðið að senda skriflegar aths. við lagauppkastið. Þrettán umsagnir bárust frá helstu hagsmunasamtökum og þjónustustofnunum í sjávarútvegi. Flestar veigamiklar brtt. voru teknar til greina við samningu frv. þessa.“

Þessar umsagnir, bæði þær umsagnir sem bárust í upphafi þegar fyrsta uppkastið var lagt fram og þær umsagnir sem hér um ræðir, höfum við ekki fengið að sjá í sjútvn., þó að ég teldi æskilegt að við fengjum a. m. k. að fletta þeim og líta á það sem við teldum áhugaverðast.

„Með fyrirliggjandi lagafrv. er í flestum atriðum tekið undir sex áðurnefndar megintillögur nefndar undir forustu Björns Dagbjartssonar. Veigamesta frávikið varðar tillögu 2 um ferskfiskeftirlit. Gert er ráð fyrir því að stofnunin verði í tveimur deildum eins og þar er lagt til, en í þessu frv. er gerð tillaga um töluvert öðruvísi fyrirkomulag ferskfiskmála, sbr. meðfylgjandi skýrslu fiskmatsráðs frá 20. okt. 1982 „Um ástand ferskfiskmats og tillögur til endurbóta frá skipulagi og starfsemi Framleiðslueftirlits sjávarafurða varðandi ferskfiskmat.“ Sú úttekt, sem að baki þessarar skýrslu liggur, sem og margvísleg vandamál, sem upp komu varðandi gæði á íslenskum fiskafurðum á s. l. ári, undirstrika mikilvægi þess að miklar og róttækar endurbætur verði gerðar á ferskfiskmati og ferskfiskeftirliti.“

Ég geri ráð fyrir að fyrsta skrefið til þessarar þróunar hafi átt að stíga í vetur undir forustu Jónasar Bjarnasonar, núverandi forstjóra Framleiðslueftirlits ríkisins, þegar hann lagði til að breytt yrði reglum um mat á ferskfiski, þ. e. horfið yrði frá hinu hefðbundna skoðunarkerfi yfir í kerfi sem hann hafði byggt sér upp og kallað er punktakerfið. Við munum öll eftir því hvernig um þá leiðréttingu fór. Mín tilfinning er sú að þetta frv. muni í meginefni til fara á sama veg, þ. e. að í því sé eitthvað sem annaðhvort verður ekki samþykkt af hagsmunaaðilum ellegar er næstum óframkvæmanlegt. Að öðru leyti tel ég að tilraun sú sem gerð var í vetur hafi að öllu leyti verið út í bláinn vegna þess að grunnurinn undir því ferskfiskeftirliti sem rætt er um í þessu frv. og hefur verið haldið fram í vetur og á undanförnum árum er ekki þannig upp byggður að um raunverulegt mat sé að ræða. Það skiptir ekki máli hvort matsmaðurinn er með eitthvert punktakerfi í höndunum eða hvort hann er með það kerfi sem notað hefur verið hingað til.

Á undanförnum árum hefur þróast sú leið að matinu hefur verið frekar stjórnað af framleiðendum. Framleiðendur hafa ráðið því sjálfir hvernig ferskfiskmatið hefur komið út, þessir aðilar sem nú skulu fá að ráða í Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Mér er vel kunnugt um að margir framleiðendur hafa, til þess að einfalda viðskipti við sína báta sagt: Ja, við skulum láta fara í mat, en það skiptir ekki máli. Við borgum síðan meðaltalsverð á afurðirnar. — Aðrir framleiðendur hafa viljað fylgja mati og láta reikna út eftir matsreglum og sagt á þessa leið við bátaflotann: Ef þér líkar ekki matið skaltu hafa þetta þannig að þú skalt landa verri fiskinum fyrst á bílinn og setja betri fiskinn ofan á. Þá er nokkurn veginn öruggt að það koma góðar prufur út úr matinu. — Ég veit ekki til þess að þeir nýju herrar sem núna stjórna í Framleiðslueftirliti sjávarafurða og sem ættu að geta farið að stjórna eftir tilætlun laganna hafi gert neina tilraun til að breyta þarna um. Aftur á móti bjuggu þeir til heilmikið af pappírum. Mér er sagt að það hafi verið upp undir heilt bílhlass sem búið var að útbúa í sambandi við punktakerfið, en það notaðist ekki vegna þess að ákveðnir hagsmunaaðilar stoppuðu þessa aðgerð. Ég hef ekki séð metið eftir punktakerfinu, en mér hefur verið sagt hvernig á að framkvæma það. Ég hygg að ef horfið væri frá vinnubrögðum framleiðenda við kaup á fiski þar sem stöðugt er gengið fram hjá mati gæti vel verið að punktakerfið hans Jónasar Bjarnasonar væri besta aðferðin til að meta, ef þær prufur sem lagðar væru fram sýndu raunverulegt ástand aflans í heild. En það er því miður ekki, vegna þess að þeir sem á að setja á stall, eins og nú er um talað, kæra sig ekkert um þetta mat og fara fram hjá því á alla vegu. Og hvað hefur skeð með því að þessi þróun hefur átt sér stað? Íslenskur úrvalsfiskur er greiddur jafnlágu verði og raun ber vitni um. Meðaltalsreglan hefur fengið að gilda þarna eins og annars staðar. Menn hafa keypt þetta og þetta mikið af fiski sem hefur verið neðan til á bílnum fyrir fyrsta flokks verð og það hefur komið fram í rekstri fyrirtækisins. Þegar fiskverð hefur verið ákveðið hafa verið teknir reikningar þessa fyrirtækis og fundið út hvað þetta fyrirtæki geti borgað mikið fyrir fiskinn sinn. Útkoman hefur verið sú, að fiskverð á Íslandi hefur lækkað og lækkað. Það hefur verið tekið meira og meira úr vösum sjómanna og útvegsmanna vegna þess að þessum vinnubrögðum hefur verið haldið uppi í sambandi við ferskfiskmatið. Í þessu frv. er talað um að breyta skuli ferskfiskmatinu. Við höfum orðið vör við hver tilætlunin er. Á undanförnum mánuðum hafa nýir aðilar stjórnað Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Það hefur ekkert breyst annað en að það hefur verið búinn til pappír og menn hafa búið til, sjálfsagt betri, reglur til að meta það sem ómögulegt var að meta vegna þess að þær prufur sem fyrir lágu voru ekki réttar. Ef áfram heldur sem horfir í sambandi við þetta og ef frv. verður samþykkt verður þar með afráðið að þannig skuli áfram halda. Þá verður íslenskur fiskur langtum lægra borgaður en fiskur í Færeyjum, eins og við höfum orðið vör við á undanförnum árum, í staðinn fyrir að ef tekið yrði á þessum málum út frá þeim gömlu lögum sem við höfum og breytt reglugerð og farið öðruvísi að en gert hefur verið gætum við aukið verðmæti sjávarafla okkar án þess að auka tonnatöluna. Við gætum aukið verðmæti hans um ómældar fjárhæðir, en það er engin tilraun gerð til þess vegna þess að þeir hagsmunaaðilar sem hér eiga að fá að fara að stjórna í auknum mæli fiskmatinu kæra sig ekki um það. Þeir vilja geta keypt lélega fiskinn á háu verði eins og þeir kalla það og sagt við útvegsmanninn: Ég borga þetta allt á einu verði o. s. frv., láta það líta út eins og þeir séu að gera rétt þegar það er alveg öfugt. Það er verið að grafa undan verðmætisaukningu í sjávarútveginum.

Það mætti hafa ótalmörg orð og ég gæti sagt hv. þm. margar sögur um það hvernig hér er unnið að. Ég hef nefnt dæmi í sambandi við bátaflotann, en það væri kannske rétt að nefna dæmi um togaraflotann. Hvernig er matið þar? Sjómenn og útvegsmenn eru óánægðir ef matið á togarafiski eftir 9, 12, 14 daga úthald nær ekki 95%. Þeir, sem hafa fengist við fiskverkun og verið sjómenn, vita að fiskur sem er 10 eða 15 daga gamall þegar hann kemur að landi er ekki sama vara og hann er fyrstu 2–3–4 dagana. Það er mjög mikill munur á því. Þrátt fyrir það gerist næstum stöðugt að mat á heilum togaraförmum er í 90–95% í 1. flokk, og ekki nóg með það, heldur er allur þessi fiskur með einum stimpli. Allt er sami gæðaflokkur. Segjum að það sé sent úr einum togara í 3–4 frystihús. Sá sem fær 10 daga gamla fiskinn er líka með 90–95% gæðamat. Það er ekki verið að meta aflann eftir aldri, heldur er hann metinn allur sem einn.

Það hefur líka viðgengist undanfarið, og viðgengst enn, að togarar komi með meira og minna af lausum fiski án þess að hann sé kassaður. Einu sinni var talað um að slíkt væri ekki leyfilegt og væri víst bannað skv. reglugerð, en það hefur verið horft fram hjá þessu. Það er hver gleðifréttin í blöðum á fætur annarri um að þessi og þessi togarinn hafi komið með þetta mikinn afla að landi. Fyrir nokkrum dögum var frétt austan af fjörðum, af Hólmadrangi á Eskifirði. Þeir á Hólmadrangi komu með mesta afla að landi sem hann hefur nokkurn tíma komið með. Ja, gott og blessað. Hvað þýða yfirleitt svona fréttir? (Gripið fram í.) Hólmatindur, já. Það er alveg rétt. Hólmadrangur er þessi frægi að norðan og hann veiðir víst öðruvísi og eintómur gæðafiskur sem kemur þaðan. Sjálfsagt er það líka eins með Hólmatind að oftast er það að meginhluta gæðafiskur sem aflast og þeir sem þar eru um borð vilja það sjálfsagt.

Ef þetta frv., sem hér er til umr., verður samþykkt er verið að ákveða að svona skuli halda áfram vegna þess að þeir aðilar sem vildu breyta, voru að tala um að breyta einhverju, leggja ekki til neinar breytingar í þessu frv. hér. Þeir hafa setið að völdum í Framleiðslueftirliti sjávarafurða undanfarna mánuði og það hefur ekki verið gerð nein tilraun til að breyta. Það hefur engin tilraun verið gerð önnur en þessi með pappírana og punktana, sem þarf við ákveðnar ástæður þegar átt hefur sér stað ákveðin breyting. Það þarf engar lagabreytingar að gera, síst af öllu þær lagabreytingar að til valda og til ráðgjafar séu valdir þeir menn sem eru kannske fyrst og fremst valdir að því hvernig þróunin hefur orðið í sambandi við gæði á íslenskum sjávarafurðum á undanförnum árum.

Þetta frv. kemur til þeirrar nefndar sem ég á sæti í og ég veit að okkur mun gefast tækifæri til að skoða það og kalla til umsagnar bæði þessa ágætu hagsmunaaðila, sem um er rætt hér í frv., og svo aðra sem hér eiga hlut að máli. Ég tel því ekki ástæðu til að lengja ræðu mína miklu meira. En ég vil undirstrika að ég lít svo á að hér sé lagt fram frv. sem sé ástæðulaust að hafi forgang í röð þeirra frv. sem á að afgreiða á Alþingi áður en þm. taka sumarfrí. Það væri betur látið eftir liggja.