14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5805 í B-deild Alþingistíðinda. (5136)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Frv. til l. um ríkismat sjávarafurða var lagt fram snemma á þessu þingi. Það er þess vegna ekki við ráðh. að sakast að fyrst nú er málið komið til Ed. Þetta mál hefur þvælst fyrir nefnd í Nd. í allan vetur og fyrst nú fyrir nokkrum dögum eða klukkustundum að það hefur komist hingað til Ed. til umr. Það verður að átelja þessi vinnubrögð sem eru fyrir neðan allar hellur. Og ég tel mjög miður líka að nefndir Ed. og Nd. skuli ekki hafa unnið saman við athugun á þessu frv. Það hefði verið nauðsynlegt vegna þess að þetta er frv. sem þarf mjög ítarlega umfjöllun og athugun og það hefði flýtt fyrir vinnslu á því ef slík vinnubrögð hefðu verið höfð í frammi.

Menn vita næstum því hvenær sauðburður fer fram ár hvert. Menn vita líka að um það leyti fara ýmsir þm. að ókyrrast og vilja fara heim til sín. Menn ættu þess vegna að geta áttað sig á að nauðsynlegt er að vinna málin fyrr og betur en gert er með því að ræða þau í nefndum.

Ég ætla ekki að fara efnislega við þessa umr. í frv. Það gefst tækifæri til að gera það þegar því hefur verið vísað til sjútvn., hvar ég á sæti, og býst ég við að þá verði tækifæri til að kalla til hina ýmsu aðila sem málið snertir. Ég furða mig á því ef tekst að afgreiða þetta frv. fyrir þinglok. Vissulega væri æskilegt að svo yrði vegna þess að það hefur verið svo lengi í umr. og líka vegna þess að það hefur innl að halda ýmsar breytingar sem til bóta eru, einkum eftir að það hafði fengið umfjöllun sjútvn. Nd. sem gerði á því veigamiklar breytingar. Ég tel óhyggilegt að starfi við athugun í nefnd verði flýtt svo mjög að nm. fái ekki aðstöðu til að fara vandlega í málið og vil því koma á framfæri ósk minni um að málið fái ítarlega umfjöllun og unnt verði að kalla til alla þá aðila sem sjútvn. óskar eftir að segja álit sitt.

Ég endurtek að ég mun við næstu umr. fara ítarlega í frv., gera grein fyrir skoðunum mínum á því, en tel nauðsynlegt að fá bæði umsagnir og eiga viðræður við hagsmunaaðila áður en ég geri það.