14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5820 í B-deild Alþingistíðinda. (5147)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hefur sá sem ákærður er í því máli sem hv. 11. þm. Reykv. ræddi hér um ekki sætt dómi fyrir hegningarlagabrot og ekki kæru fyrir brot af þessu tagi. Þegar borin var fram krafa um gæsluvarðhald var málið enn á því stigi að það var ekki að fullu upplýst en þegar til úrskurðar kom lágu játningar mannsins fyrir. Af þeirri ástæðu mun dómari ekki hafa talið að gæsluvarðhalds þyrfti við vegna rannsóknar málsins.

En þá var eftir kröfu úrskurðað farbann vegna framhaldsmeðferðar, m. a. væntanlegrar kröfu um geðrannsókn. Saksóknara var tilkynnt um stöðu málsins en málinu verður haldið áfram með ýtrasta hraða og mun ekki fyrirstaða á því að geðrannsókn taki nú við. Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér bárust í dag hafði ríkissaksóknari ætlað að kæra til Hæstaréttar dómsúrskurðinn. Hlýtur úrskurður Hæstaréttar um það að falla á morgun eða í síðasta lagi á miðvikudag hvort gæsluvarðhald skuli taka við. Hef ég vissulega ekkert að athuga við þá málsmeðferð að leitað sé til Hæstaréttar um úrskurð í þessu máli vegna þess hversu alvarlegt brotið er.