14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5824 í B-deild Alþingistíðinda. (5152)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. dómsmrh. aftur svörin og fagna því að hann tekur undir það sjónarmið að þörf sé fyrir endurskoðun á meðferð þessara mála. Ég vil í því sambandi minna á þáltill. frá okkur Kvennalistakonum þess efnis að „Alþingi feli dómsmrh. að skipa fimm manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum,“ eins og tillgr. hljóðar upp á, með leyfi forseta. Þessi till. liggur nú í bunkanum í hv. allshn. Sþ. og mér er kunnugt um að 1. flm. till., Kristín Halldórsdóttir, hefur komið að máli við formann allshn. og spurt um líkurnar á því að hægt væri að afgreiða þetta mál úr n. fyrir þinglok. Taldi hann öll tormerki á því. Og nú vil ég spyrja hv. þdm.: Eru þeir sáttir við þá afgreiðslu á slíku máli í ljósi þess sem hér hefur verið til umræðu? Ég vil eindregið mælast til þess að menn geri upp hug sinn í þessu efni og framfylgi honum síðan. Jafnframt skora ég á hæstv. dómsrh. að taka nú snarlega og af ákefð á þeim málum sem hér eru til umræðu, jafnt því sérstaka máli sem hér hefur verið rætt svo og meðferð þeirra mála sem hér um ræðir. Við svo búið má ekki lengur standa.