14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5827 í B-deild Alþingistíðinda. (5160)

261. mál, lyfjalög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég samfagna hæstv. fjmrh. með þessa nýju stöðu hans, þó tímabundin sé, varðandi heilbrigðismálin og dreg ég ekkert úr því að þau eru í góðum höndum einnig þar. Ég vil aðeins benda á það, að ekki ætla ég að gera þetta að stórmáli, en ekki má hæstv. fjmrh., núv. hæstv. heilbrrh. einnig, ekki má hann skilja mig á þann hátt, að ég telji skipun formannsins óeðlilega af ráðh. hálfu. Það er mjög algengt varðandi slíka nefndaskipan.

Það sem ég var að gagnrýna var í raun og veru það, að við mættum ekki í of ríkum mæli fara þá leið að ráðh. ásamt einhverjum formanni, þó hæfur væri og ágætur, geti alfarið ráðið nefndaskipun af þessu tagi, því að við vitum það auðvitað báðir, hæstv. ráðh., að hin almenna tilnefningarleið þeirra aðila sem málefnin varða mest, sú leið er yfirleitt farin varðandi alla slíka nefndaskipan að öðru leyti en því, að oftast nær er það að sjálfsögðu í valdi hæstv. ráðh. hvern hann skipar formann.