14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5827 í B-deild Alþingistíðinda. (5162)

70. mál, tóbaksvarnir

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til umfjöllunar þetta mál, frv. til laga um tóbaksvarnir. Eins og fram hefur komið hafði Nd. þetta mál til umfjöllunar nokkuð lengi og gerði á því töluverðar breytingar sem ég mun ekki gera grein fyrir hér. Í öllum aðalatriðum eru þær til bóta að ég tel.

Gildandi lög um ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum eru frá 2. maí 1977. Þau lög fela í sér nokkuð rúmar heimildir, en sannleikurinn er sá, að reglugerð hefur ekki verið sett á grundvelli þessara laga. Komið hefur fram að það hefur reynst nokkuð örðugt af ýmsum ástæðum að koma til framkvæmda þeim heimildum sem í lögunum felast. Því hefur verið brugðið á það ráð eins og fram kemur í þessu frv., að festa í lögum skýr ákvæði í þessu efni.

Það frv. sem hér liggur fyrir er að vísu orðinn meiri lagabálkur, en skiptist í nokkra kafla. Í I. kafla er getið um markmið og gildissvið og stjórn. Í II. kafla er fjallað um sölu og auglýsingar á tóbaksvörum. Í III. kafla er fjallað um takmörkun á tóbaksreykingum. Í IV. kafla er vikið að fræðslustarfsemi. Í V. kafla eru almenn ákvæði, m. a. varðandi tekjuöflun, en þar stendur í 15. gr., lið 1.: „Skylt er að verja 2% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs.“

VI. kafli frv. fjallar um eftirlit og viðurlög og síðast er gildistökukaflinn.

Heilbr.- og trn. Ed. hefur uppi till. um breytingar á frv. Þær eru ekki efnismiklar. Fyrir það fyrsta er gerð till. um að breyta 8. gr. frv., en í lið 3 í 8. gr. er gert ráð fyrir því, eins og frv. er nú komið frá Nd., að ekki megi selja tóbak í spítölum. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því að það yrði alfarið bannað að selja tóbak í öllum heilbrigðisstofnunum. Nd. breytti þessi í þá veru sem það er núna, þ. e. „ekki má selja tóbak í spítölum, skólum eða stofnunum fyrir börn og unglinga.“ Heilbr.og trn. Ed. leggur til að 3. tölul. 8. gr. orðist þannig:

„Ekki má selja tóbak í skólum eða stofnunum fyrir börn og unglinga.“

Við fellum burt „í spítölum“. Við teljum ekki raunhæft að hafa slíkt ákvæði inni og þarf ég í sjálfu sér ekki að fara fleiri orðum um það.

Önnur brtt. á þskj. 836 varðar 10. gr. frv. en þar stendur: „Tóbaksnotkun er óheimil ...“ Nefndin vill færa þessi upphafsorð gr. til samræmis við það sem annars staðar stendur í frv.: „Tóbaksreykingar eru óheimilar ...“ Þetta er nauðsynleg breyting því óhæft er að banna mönnum að taka í nefið.

Þriðja brtt. sem n. flytur varðar 17. gr. frv. Þar er lagt til að 3. tölul. 17. gr. falli niður. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að 3. liður 17. gr. og 18. gr. eru efnislega eins.

Fjórða brtt. varðar 18. gr. Nefndin gerir till. um að 18. gr. orðist þannig: „Heilbrigðisnefndir og Vinnueftirlit ríkisins fylgjast með því eftir því sem við á að virt séu ákvæði III. kafla laga þessara og skal þá farið skv. ákvæðum laga nr. 50/1981 og laga nr. 46/1980.“

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þetta frv. frekar né heldur þær brtt, sem n. flytur. Eins og fram kemur ( framhaldsnefndaráliti á þskj. 836, þá er full samstaða um þetta mál og allir viðstaddir nm. rita undir framhaldsnefndarálitið.