09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

10. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Frv. til l. um verðlagsmál er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru 27. maí s.l.og voru ein af fimm brbl. sem núv. ríkisstj. setti í viðureigninni við þá miklu verðbólgu sem þá blasti við og reyndist samkv. framfærsluvísitölu 1. júní 131%. Frv. þetta er fylgifrv. frv. um launamál sem flutt hefur verið í Nd. og rætt þar við 1. umr. og fór til n. s.l. mánudag.

Í frv. eru þrjár megingreinar. Í 1. gr. er gert ráð fyrir því að fram til 31. jan. 1984 skuli verðlagsyfirvöld og aðrir opinberir aðilar, sem fara með verðlagsákvarðanir, aðeins leyfa óhjákvæmilega hækkun verðs eða endurgjalds fyrir vöru eða þjónustu. Fram er tekið að þetta ákvæði breytir þó ekki verðmyndun á vöru og þjónustu sem heyrir undir Verðlagsstofnun og hefur verið undanþegin sérstakri meðferð Verðlagsráðs. Þá segir einnig í þessari grein að að því er launakostnað varðar sé óheimilt að miða verð eða gjaldskrá við hærri laun en ákveðin eru með brbl. nr. 54/1983 um launamál, þau sem ég hef þegar nefnt og verið hafa til meðferðar í Nd. Jafnframt segir að á tímabilinu frá gildistöku þessara laga til 31. jan. 1984 sé og óheimilt að breyta þeim álagningarreglum eða greiðslukjörum, er voru í gildi 25. maí 1983, ef slíkt er kaupendum eða neytendum í óhag. 1. gr. fjallar því um hert verðlagseftirlit þann tíma sem sérstökum ráðstöfunum ríkisstj. er ætlað að standa, þ.e. til 31. jan. 1984.

Í 2. gr. er ákveðið að almennt fiskverð skuli hækka um sömu hundraðshluta 1. júní og 1. okt. og ákveðið er um almenn laun, þ.e. 8% 1. júní og 4% 1. okt. 1983 og skuli gilda þannig til 31. jan. 1984.

Í 3. gr. er jafnframt ákveðið að launaliður í verðlagsgrundvelli búvöru skuli hækka um þessa sömu hundraðstölu, þ.e. 8% 1. júní og 4% 1. okt. og skuli það einnig gilda til 31. jan. 1984. Þó er gerð þar sú undantekning að heimilt er að ákveða sumarverð á kindakjöti og garðávöxtum frá 15. sept. 1983. Að öðru leyti gildi, eins og ég sagði, frá 1. okt. þær hækkanir sem ákveðnar eru í þessum lögum á launalið í verðlagsgrundvelli búvöru. Hér er því um alveg hliðstæðar ákvarðanir að ræða eins og ákveðnar voru viðvíkjandi launum á almennum launamarkaði 1. júní og 1. okt. Með þessu móti eru laun bænda og sjómanna hækkuð um sama hundraðshluta.

Frá því að brbl. þessi tóku gildi hafa að sjálfsögðu umræddar launahækkanir orðið eins og ákveðið er í lögunum. Jafnframt hefur Verðlagsstofnun farið eftir 1. gr. Ég hef fengið frá Verðlagsstofnun nokkra grg. um þær ákvarðanir sem þar hafa verið teknar og hvað hefur verið lagt til grundvallar. Eins og ég las áðan ber Verðlagsstofnun eingöngu að leyfa óhjákvæmilega hækkun. Óhjákvæmileg hækkun hefur hjá Verðlagsstofnun verið skilgreind eins og ég nú skal fara yfir.

Í fyrsta flokki hafa hráefnishækkanir verið teknar til greina og þær skilgreindar sem afleiðingar í fyrsta lagi af gengisbreytingunni sem varð í lok maímánaðar, 14.6%, og sömuleiðis því gengissigi sem hafði orðið eftir að verðlagshækkanir voru leyfðar þar áður. Í öðru lagi hafa verið viðurkenndar erlendar verðhækkanir á hrávöru. Má þar nefna t.d. sojabaunaolíu og aðrar olíur, sem hafa hækkað í verði, sykur og hveiti, vegna uppskerusveiflna erlendis, en almennt er um að ræða erlendar verðhækkanir á hrávöru. Í þriðja lagi hafa innlendar verðhækkanir á hrávöru, t.d. á landbúnaðarvörum og fiski, verið teknar til greina.

Í öðrum flokki má nefna launahækkanir. Er þar eingöngu um að ræða 8% launahækkun 1. júní og 4% 1. okt.

Í þriðja flokki eru hækkanir á föstum kostnaði, t.d. hækkanir sem hafa verið leyfðar á opinberum töxtum, á rafmagni, hita og síma og að lokum hafa nokkrar almennar kostnaðarvísitölur og áhrif þeirra á framleiðslukostnað innlendrar vöru verið teknar til greina eða a.m.k. metnar. Er þar um að ræða t.d. hækkun á framfærsluvísitölu, byggingarvísitölu o.s.frv.

Verðlagsstofnun telur að með þessum framkvæmdamáta hafi verið fylgt því ákvæði 1. gr. að leyfa aðeins óhjákvæmilega hækkun verðs eða endurgjalds fyrir vöru eða þjónustu á þessu tímabili.

Ég vil benda á að í 1. gr. þessa frv. og brbl. er ekkert viðurlagaákvæði. Hefur athygli mín verið vakin á því að rétt kunni að vera að setja slíkt í lögin. Vil ég því nota tækifærið og beina því til n. sem fær málið til meðferðar að það verði athugað.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál að svo stöddu nema þess verði sérstaklega óskað, enda hefur það mál sem liggur til grundvallar þessum brbl. verið ítarlega rætt, m.a. í útvarpsumræðum frá hinu háa Alþingi í sambandi við stefnuræðu og við fleiri tækifæri. Læt ég því þessa framsögu nægja og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.