09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

10. mál, verðlagsmál

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til á þessu stigi málsins að fara að hefja sérstakar umr. um húshitunarkostnað. En það hraut gullkorn af munni hv. 2. þm. Austurl. áðan þegar hann sagði að það væri ekki vert að tala um fortíðina. Það er út af fyrir sig kannske alveg rétt, að í þessum efnum ættu menn ekki mikið að hyggja að henni. En þær verðhækkanir sem hafa orðið á þessu ári, a.m.k. sumar hverjar, verða nú að skoðast í ljósi þess sem einmitt gerðist í fortíðinni.

Ég held að það sé alveg augljóst mál, að þótt ríkisstj. hafi tekið víða nokkuð myndarlega á til að jafna kjör fólksins í landinu og bægja frá sárasta verðhækkunarbroddinum hafi hvergi verið gert myndarlegra átak í þeim efnum en einmitt í sambandi við niðurgreiðslur á raforkuverði, þar sem til þeirra verkefna var ráðstafað á síðari hluta þessa árs 150 millj. kr., sem er nálægt því þreföld sú upphæð sem var á fjárlögum 1983. Það er ekki nema eðlilegt að menn telji rétt að víkja frá fortíðinni þegar litið er til þessara tveggja talna. En það má minna á fleira í þessu sambandi og þá sérstaklega það, að Rafmagnsveitur ríkisins voru reknar með verulegum halla bæði árið 1981 og 1982 og m.a. á grundvelli þess gaf fyrrv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson út það bréf hinn 23. apríl árið 1982 að gjaldskrám Rafmagnsveitna ríkisins skyldi háttað með tilliti til þess á þessu ári að vinna upp þann halla. Þannig var búið að gefa grænt ljós á að það skyldu vera stöðugar hækkanir á raforkutöxtum allt þetta ár, sem áttu að vera ofan við verðlagshækkanir til þess að vinna upp halla frá fyrri árum. Hér hafa að þessu leyti komið fram skýrari stefnumið en í flestum öðrum málum. Verðhækkanir voru stöðvaðar. Það var breytt frá fyrri ákvörðun um þessi efni og það kom inn í þennan rekstur mikið opinbert fjármagn. Það er svo annað mál að framhaldið er enn óráðið í þessum efnum.

Það verður fljótlega hér á Alþingi hægt að tala um þá stefnu sem núv. ríkisstj. kann að móta í jöfnunaraðgerðum hvað varðar húshitun í landinu. Þar kemur væntanlega fram sú stefna sem núv. ríkisstj. mótar og hennar stuðningslið. En það má líka minna á að að tilhlutan núv. iðnrh. hefur verið hafist handa um endurskoðun á því hvort það kerfi sem við búum við, m.a. í sambandi við dreifingu raforku um landið, kosti of mikið og hvort hægt sé að koma þeirri þjónustu við með hagkvæmari hætti. Ég legg áherslu á að þrátt fyrir að við verðum stundum að grípa til þess að færa á milli fjármagn í þessu þjóðfélagi með tilliti til þess hvar fólkið býr og hverrar þjónustu það nýtur, þá má það ekki verða til þess að menn missi sjónar á því að þeim fyrirtækjum, sem slíka þjónustu veita, sé veitt nokkur fyrirgreiðsla.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þennan þátt mála frekar, en ég get sagt hv. þm. Helga Seljan að ég er vel minnugur þess sem ég sagði fyrir síðustu alþingiskosningar og það er alveg öruggt mál að okkur gefst tími hér síðar, þegar búið verður að setja fram stefnumið núv. ríkisstj. í þessum málum, að bera saman fortíð og nútíð í þeim efnum.