14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5837 í B-deild Alþingistíðinda. (5218)

55. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit á þskj. 857. Frv. þetta hefur þegar verið afgreitt í Ed. og kemur þaðan eftir þrjár umræður þar. Það er efnislega nánast samhljóða frv. því sem fyrrv. ríkisstj. lagði fram á síðasta þingi og hlaut þá eigi afgreiðslu. Þetta er í þriðja sinn sem efnisákvæði þau sem í þessu frv. eru koma fyrir augu þm., en þau komu fyrst fyrir í frv. til breytinga á fyrrnefndum lögum 1981. Vonast ég til að þm. greiði framgang þessa máls í hv. Nd. svo að hægt verði að koma ákvæðum frv. sem fyrst til framkvæmda.

Í frv. eru þau ákvæði hin helstu að lagt er til að tollalögsagan verði færð út í 12 mílur, tollhöfnum verði fjölgað úr 20 í 26, eftirlit með flutningum með gámum auðveldað, einfölduð tollafgreiðsla á ótolluðum skipsforða og varningi áhafna og heimildir tollyfirvalda til lúkningar smærri tollalagabrota verði rýmkaðar.

Landhelgi Íslands var á árinu 1979 færð út í 12 sjómílur eins og kunnugt er. Þegar það var gert var fyrirhugað að gera breytingar á nokkrum lögum til samræmis, þar á meðal á tollalögunum. Skv. 2. gr. laga nr. 41/1979 er kveðið svo á að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar, hafsbotnsins innan hennar og loftrýmis yfir henni. Tollalandhelgi er hins vegar í dag 4 sjómílur skv. 6. gr. tollheimtulaganna. Þetta er að sjálfsögðu ósamræmi, sem ber að leiðrétta, og felur 1. gr. frv. í sér að tollalögsagan fylgir landhelgi Íslands eins og hún var ákveðin skv. fyrrnefndum lögum.

Að núgildandi lögum eru tollhafnir, þar sem ferma má og afferma ótollafgreiddar vörur og geyma og tollafgreiða slíkar vörur án sérstakrar heimildar, nú 20 að tölu. Lagt er til að þeim verði fjölgað um sex og bætast þá við hafnirnar á Grundartanga, Rifi, Grundarfirði, Skagaströnd, Dalvík og Þórshöfn. Á þessum höfnum hefur fram til þessa farið fram nokkur tollafgreiðsla með sérstöku leyfi viðkomandi tollyfirvalda, enda eru ytri búnaður og hafnaraðstaða á engan hátt síðri en í sumum þeirra hafna sem nú teljast til tollhafna lögum samkvæmt. Þessi breyting mun hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem kostnaður vegna tollafgreiðslna sem heimilaðar eru utan tollhafna, er greiddur af þeim sem óskar eftir slíku leyfi.

Í 2. mgr. 2. gr. frv. er nýmæli. Skv. því er lagt til að fjmrh. geti að fenginni umsögn frá viðkomandi tollyfirvaldi breytt fjölda tollhafna. Ekki er gert ráð fyrir að heimild þessi verði notuð nema athugun leiði í ljós að vöruflutningar við viðkomandi höfn hafi breyst verulega með tilliti til magns, skilyrða til tolleftirlits, vörslu varanna eða af öðrum ástæðum.

Við mat á því hvort fjölga eigi tollhöfnum eða fækka þeim er auk fyrrnefndra atriða óhjákvæmilegt annað en að gætt verði sérstakra hagsmuna ríkissjóðs vegna fjölgunar tollhafna, sem kynni að leiða . til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð og mætt yrði með viðeigandi hætti á fjárlögum. Sýnist mér reyndar orðið tímabært að skipulag þessara mála verði kannað í heild með það fyrir augum að draga í heild úr kostnaði við tollafgreiðslu á vörum. Er ekki ósennilegt að ná mætti fram einhverjum sparnaði í þessum efnum til hagsbóta fyrir ríkissjóð, en ekki síður neytendur, sem njóta mundu þess í lækkuðu vöruverði. Er reyndar þegar hafinn undirbúningur að heildarendurskoðun tollheimtulaganna í fjmrn., þar sem m. a. verður fjallað um þennan þátt tollheimtu og tolleftirlits.

Á undanförnum árum hafa flutningar með gámum stórlega aukist. Þessi flutningsmáti var varla þekktur þegar lög nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, voru sett og því ekki um hann fjallað sérstaklega. Reynslan sýnir okkur hins vegar að breyting á flutningum kallar á ný vinnubrögð við tolleftirlit, sem rétt þykir að mælt sé fyrir um í tollheimtulögunum. Er því lagt til að í 8. tölul. 1. mgr. 21 gr. laganna verði tekið upp sérstakt ákvæði um afhendingu skrár yfir þá gáma sem far flytur, þannig að unnt sé við komu þess til landsins eða frá að staðreyna fjölda þeirra, auðkenni svo og innihald hvers um sig.

Í 4. og 5. gr. frv. er lagt til að teknir verði upp nýir siðir við eftirlit með ótolluðum varningi áhafna og forða og birgðum skipa og flugvéla. Breytingar þær sem hér um ræðir munu væntanlega verða til einföldunar og vinnusparnaðar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða nánar um efni þessara breytinga, enda er ítarlega fjallað um þær í grg. með frv. Aðrar breytingar, sem í frv. felast, eins og að hætta að krefjast sérstakrar fjártryggingar fyrir aðflutningsgjöldum af vörum sem eru ótollafgreiddar í vörslu farmflytjenda eða tollvörugeymslu, rýmkun á heimild til endursendingar á gölluðum vélum og upptaka nýs heimildarákvæðis um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna endursölu á innfluttum óseljanlegum vörum hér innanlands, eru svo sjálfsögð skipan í nútímaþjóðfélagi að ekki þarf að ræða um þær brtt.

Að lokum er að finna nokkrar breytingar á sektarmörkum í einstökum ákvæðum tollheimtulaganna og ákvörðun sektarhámarks almennt vegna brota á tollheimtulögum. Breytingar þessar feta fyrst og fremst í sér hækkun sekta til samræmis við verðlagsþróun hér á landi undanfarin ár, sem leitt hefur til þess að stöðugt hefur orðið að vísa smávægilegri tollalagabrotum til ríkissaksóknara til umfjöllunar og þaðan til sakadómsmeðferðar. Rýmkun sektarheimilda tollyfirvalda ætti nokkuð að létta álag á dómstólum, sem hafa endalaust mikilvægari og brýnni úrlausnarefnum að sinna en smávægilegum brotum, sem að öllu leyti eru upplýst og óskað er sáttargerðar í af hálfu hins opinbera.

Ég hef farið nokkrum orðum um meginefni þess máls sem hér hefur verið tekið til umr. Það er von mín að þm. séu mér sammála um að breytingar þær sem frv. felur í sér horfi til bóta á tollheimtukerfinu og séu í raun nauðsynlegar ef taka eigi upp einfaldari aðferð við tolleftirlit og auðvelda innflytjendum að koma frá sér vörum sem af einhverjum ástæðum henta ekki íslenskum markaði. Brýnt er annars að ekki dragist úr hömlu að afgreiða mál þetta til þess að sektarheimildir tollyfirvalda komist sem fyrst til framkvæmda og létt verði, eins og áður sagði, af sakadómi.

Ég skal ekki þreyta þm. með fleiri orðum, en legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.