14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5851 í B-deild Alþingistíðinda. (5228)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Síðan þetta frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins var síðast til umr. — en nú eru liðnir nokkuð margir dagar síðan — hefur verið uppi mjög mikill ágreiningur milli stjórnarflokkanna um túlkun á því hvort búseturéttaríbúðir ættu að fá aðild að félagslega kerfinu. Þegar málið kom til 2. umr. lýsti hæstv. félmrh. því afdráttarlaust yfir að búseturéttaríbúðir ættu samkvæmt frv. að eiga aðild að þessu kerfi. Sjálfstfl. eða fulltrúar hans í félmn. héldu öðru fram og þessi ágreiningur hefur staðið nú um nokkurn tíma.

Það er dapurlegt hlutskipti fyrir hæstv. félmrh. ef sú er niðurstaðan og raunin eftir þennan ágreining að hæstv. félmrh. hafi látið Sjálfstfl. kúga sig í þessu máli. Öðruvísi verður ekki skilin sú brtt., sem flutt er af formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni, þar sem niður er felldur hluti af 33. gr. frv. Niðurstaðan hefur orðið sú að setja nefnd í málið sem fjalla á um þennan ágreining. Það virðist svo vera að Sjálfstfl. hafi ekki þorað að láta frv. fara út úr þinginu með þeim ákvæðum sem eru í c- lið 33. gr. þessa frv. og að hæstv. félmrh. hafi fallist á sjónarmið Sjálfstfl. Því verður varla trúað að hæstv. félmrh., sem hefur lofað þeim fjölda fólks sem gengið hefur í húsnæðissamvinnufélagið Búseta svo miklu, ætli nú á síðustu stundu að láta Sjálfstfl. kúga sig til hlýðni í þessu efni.

Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa einhverjar skýringar á þessu máli aðrar en þá þær að setja eigi nefnd í þetta mál. Nú veit hæstv. ráðh. að fimm flokkar af sex hér á Alþingi hafa lýst yfir stuðningi við þá túlkun á frv. að búseturéttaríbúðir eigi að fá aðgang að félagslega kerfinu skv. ákvæðum 33. gr. c-lið. Stjórnarandstaðan flutti brtt. við 2. umr. til þess að taka af allan vafa í þessu efni þar sem skiptar skoðanir virtust vera uppi um túlkun í því máli. Félmrh. greiddi atkv. gegn þeim brtt. og lýsti yfir við þá umr. að hans skilningur á ákvæði 33. gr. c-lið væri sá að búseturéttaríbúðir ættu þarna heima undir 33. gr. c-lið.

Við 2. umr. vitnaði hæstv. félmrh. í sína framsögu því til stuðnings og sagði eftirfarandi, með leyfi forseta: „Ég geri ráð fyrir að þessi kafli laganna verði talsvert mikið til umr. og hann hefur þegar verið mikið til umr. í sambandi við bæði hugmyndir námsmanna um að leysa þeirra húsnæðismál og einnig í sambandi við nýjar hugmyndir að því er varðar húsnæðissamvinnufélög sem verið hafa til umr. í þjóðfélaginu að undanförnu.“ Og áfram segir hæstv. ráðh.:

„Ég met mikils hinn almenna áhuga fólks á þessum nýju formum, eins og húsnæðissamvinnufélögum, en ég tel ástæðu til þess vegna þess sem á undan er gengið að vara við of mikilli bjartsýni um að á skjótvirkan hátt verði hægt að leysa húsnæðismál eftir þessum formum.“

Síðan sagði hæstv. ráðh. þegar hann hafði lokið þessari tilvitnun í framsöguræðu sína:

„Ég hef verið alveg samkvæmur sjálfum mér í sambandi við þetta mál. Ég hef setið fundi með þessu fólki og ég hef sagt því að ég telji að með c-lið 33. gr. séu möguleikar á því að þetta félagsform geti þegið lán úr Byggingarsjóði verkamanna, þó með því fororði að það verði að hlíta þeim meginreglum sem Byggingarsjóður verkamanna byggir á, þ. e. um tekjuviðmiðun.“

Síðar í sinni ræðu segir hæstv. ráðh.:

„Mín skoðun er alveg óbreytt. Ég tel að c-liður 33. gr. gefi þessum samtökum þennan möguleika og ég túlka það þannig.“

Það eru aðeins örfáir dagar síðan hæstv. ráðh. mælti þessi orð. Hefur hæstv. ráðh. virkilega skipt um skoðun? Ætlar hann að svíkja þetta fólk sem hann hefur í marga mánuði gefið loforð og látið það standa í trú um að með þessari löggjöf, sem verið er að samþykkja frá Alþingi, fengi þetta fólk aðgang að félagslegum íbúðum? Því verður vart trúað.

Hægt er að vitna í fleiri ræður, í blaðaviðtöl, í málgagn húsnæðissamvinnufélagsins Búseta því til stuðnings að ráðh. hefur marggefið loforð um að þetta fólk ætti rétt í húsnæðiskerfinu. Hann vildi meira að segja vera alveg öruggur og sagði að áður en málið yrði afgreitt frá Alþingi yrði að taka af allan vafa um að það væri ótvíræð túlkun á því að búseturéttaríbúðir ættu heima í þessu félagslega kerfi.

Ég vona, herra forseti, að hæstv. ráðh. geti gefið við þessar umr. einhverja skýringu á þessu breytta viðhorfi sem virðist koma fram ef hann styður þessa till. Þorsteins Pálssonar. Hæstv. ráðh. veit að hann getur fengið stuðning hér á Alþingi frá stjórnarandstöðuflokkunum sem tryggi ótvírætt að búseturéttaríbúðir fái aðgang að félagslega kerfinu, en meirihlutavilji hér á hv. Alþingi fær greinilega ekki að ráða í þessu efni. Það er mikill meiri hluti fyrir þessu á Alþingi og það veit hæstv. ráðh. Við í Alþfl. og í stjórnarandstöðunni allri líka erum tilbúin að styðja ráðh. til þess að þetta frv. verði afgreitt frá Alþingi með þeim hætti að búseturéttaríbúðir fái fullan aðgang að félagslega kerfinu.

Afstaða Sjálfstfl. til þessa máls er harla einkennileg þegar litið er til fortíðarinnar í þessu efni. Það er aðeins eitt ár síðan, þegar húsnæðismálin voru hér síðast til umr., að Sjálfstfl. barðist fyrir því á 105. löggjafarþingi að auka valkosti í félagslegum íbúðabyggingum með því að opna fyrir byggingar leiguíbúða á vegum félagasamtaka, svo sem Leigjendasamtakanna á almenna markaðnum. Sjálfstfl. fannst á því þingi, á síðasta Alþingi, að hæstv. þáverandi félmrh., Svavar Gestsson, gengi ekki nógu langt í því efni að tryggja félagasamtökum aðild að félagslega kerfinu.

Í því frv., sem hæstv. þáverandi félmrh. lagði fyrir það Alþingi var einmitt sambærilegt ákvæði og er í þessu frv. Í 12. gr. þess frv. stóð:

„Leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu á hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi.“

En í 26. gr. þess frv. kom fram að lán Byggingarsjóðs verkamanna til leiguíbúða sveitarfélaga mættu nema 80% af áætluðum byggingarkostnaði staðalíbúðar, en lán Byggingarsjóðs verkamanna til leiguíbúða samkvæmt þessum lið, sem ég var rétt að lesa upp, mættu nema allt að 65% af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Um þessar greinar sagði í skýringum:

„Með þessari grein er lagt til að Byggingarsjóður verkamanna láni ekki aðeins til sveitarfélaga sem byggja leiguíbúðir heldur einnig til félagasamtaka og stofnana og fyrirtækja sem byggja leiguíbúðir fyrir félagsmenn sína eða aðra sem þurfa á leiguhúsnæði að halda.“

Um 26. gr., þar sem félagasamtök áttu að fá 65% byggingarkostnaðar, stóð orðrétt, með leyfi forseta: „Lán til annarra byggingaraðila, sem byggja leiguíbúðir fyrir almennan markað eða einstaka þjóðfélagshópa, svo sem námsmenn, verði breytileg eftir aðstæðum en að hámarki 65% af byggingarkostnaði. Þá er tekið upp það nýmæli að heimila byggingaraðilum að selja leigutaka hlutareign í þeirri íbúð, sem hann fær til afnota, með tilteknum kvöðum um afnotarétt og endurgreiðslu.“

Í umr. um þetta frv. og þessar greinar, sem ég hér vitna til, kom eftirfarandi fram hjá aðaltalsmanni Sjálfstfl. í húsnæðismálum, hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, þegar hann ræddi þessar greinar frv. og mælti fyrir brtt. við frv. þáverandi félmrh., með leyfi forseta:

„Ég kem þá að 8. brtt. okkar. Hún er við 26. gr. frv. sem fjallar um lán Byggingarsjóðs verkamanna til leiguíbúða sveitarfélaga og annarra aðila. Það er tekið fram að þessi lán megi vera 80% af áætluðum byggingarkostnaði. En í frv. er gerð undantekning frá þessu um það að sum lán til leiguíbúða megi ekki nema hærri upphæð en 65% af byggingarkostnaði. Við flm. viljum ekki gera þennan greinarmun á þeim leiguíbúðum sem 26. gr. frv. fjallar um. Við viljum að allir þeir aðilar, sem hafa heimild til lána vegna leiguíbúða skv. 36. gr. laganna, hafi sama rétt til lánanna. Þetta er ekkert hégómamál fyrir þá sem flokkaðir eru skv. frv. í hinn óæðri flokk.“

Og hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hélt áfram:

„Það eru m. a. stúdentar, svo að ég nefni eitthvert dæmi, en Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kynnt hv. félmn. skoðanir sínar og óskir í þessu efni sem falla saman við brtt. okkar félaga sem ég er hér að lýsa.“

Og áfram sagði hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, talsmaður Sjálfstfl. í húsnæðismálum:

„Þessi till. okkar mætir óskum Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem hefur sent okkur bréf um þessi efni, og óskum Leigjendasamtakanna, sem hafa sent okkur bréf um þessi efni einnig, og Félagsmálastofnunar stúdenta. Það er ekki óeðlilegt að þessir aðilar hafi komið á framfæri óskum um þetta efni, þegar litið er á það að það er algjörlega óeðlilegt að gera greinarmun á þessum félagslegu ráðstöfunum og þeim, sem felast í verkamannabústöðunum, byggingu hinna eiginlegu verkamannabústaða, svo ég tali ekki um að skipta aðilum í tvo flokka, verðuga og óverðuga, þegar um er að ræða leiguíbúðir. Þetta eru ástæðurnar fyrir brtt. okkar við 26. gr. frv.“

Hvað hefur breyst hjá Sjálfstfl.? Það er eitt ár síðan talsmaður þeirra í húsnæðismálum vildi ganga mikið lengra en formaður Alþb. í þessu efni og mælti fyrir brtt. þar að lútandi. (Gripið fram í: Það kom nýr formaður í Sjálfstfl.) Það skyldi þó ekki vera skýringin að kominn er nýr formaður í Sjálfstfl. sem tekið hefur þessa stefnu í málunum, að útiloka aðila eins og búseturéttaríbúa frá félagslega kerfinu. Þetta eru hrein hamskipti. Nú, þegar Sjálfstfl. stendur frammi fyrir því að standa við þær yfirlýsingar sem talsmenn hans gáfu á síðasta þingi, kasta þessir menn grímunni og sýna sitt rétta andlit. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Friðrik Sophusson, sem þarna situr, leið mjög illa þegar þetta frv. kom hingað niður í hv. Nd. þegar ljóst var að þetta frv. mundi stöðvast í deildinni. Hann greip þá til þess ráðs með hv. þm. Birgi Ísleifi Gunnarssyni að taka þessa till. um leiguíbúðir félagasamtaka út úr því frv. sem kom frá Ed., taka þá brtt. og gera breytingu á öðru frv., brbl. sem lágu fyrir um húsnæðismál. Svo mikið lá Sjálfstfl. á að tryggja félagasamtökum aðgang að félagslega kerfinu. Þetta var fyrir einu ári síðan. (Gripið fram í: Þá var hann varaformaður líka.)

Hér er brtt. við 43. mál frá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, Árna Gunnarssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Birgi Ísleifi Gunnarssyni og Friðriki Sophussyni. Þeir gátu ekki unað því að þetta frv., sem tryggja átti félagasamtökum rétt að félagslega kerfinu, yrði stöðvað hér í deildinni á síðustu dögum þingsins og brugðu á það ráð með okkur Alþfl.-mönnum að flytja brtt. við annað frv. sem var líklegra til að ná fram að ganga. En nú sýna þessir herrar sitt rétta andlit.

Er það unga fólkið sem hefur tekið við stjórnartaumunum í Sjálfstfl., formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, og Friðrik Sophusson, sem vilja ekki tryggja ungu fólki möguleika og auka valkosti þeirra og frelsi til þess að velja sér húsnæðisform en ekki pína það nauðugt viljugt inn í þá eignastefnu sem hér hefur verið rekin.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ljóst er að mikil óvissa ríkir um fjármögnun í því húsnæðisfrv., sem nú er verið að afgreiða, þegar brtt., sem tryggja áttu uppbyggingu sjóðanna, hafa verið felldar. Sjálfstæðismenn höfðu annan skilning á uppbyggingu sjóðanna á síðasta þingi. Þá vildu þeir nefnilega fara þá leið, sem við Alþýðuflokksmenn lögðum til núna við 2. umr. málsins, að skila Byggingarsjóði ríkisins aftur tekjum af launaskatti. Þá flutti Þorvaldur Garðar Kristjánsson einnig brtt. og sagði eftirfarandi um launaskattinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt atriðið, sem varðar breytingu við 1. gr. frv., er aðalatriði varðandi þessa grein. En þar er gert ráð fyrir að til Byggingarsjóðs ríkisins gangi 2% launaskattur skv. lögum nr. 14/1965 með síðari breytingum. Það er alltaf verið að tala um húsnæðisástandið í landinu og það er mikið verið að tala um að það þurfi að bæta það, það þurfi að efla veðlánastarfsemi til íbúðabygginga og það þurfi að gæta ýmislegs í þeim efnum sem ekki hefur verið gert áður, útvíkkað hlutverk laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins og hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins. Okkur er öllum kunnugt um þetta, og það er næstum því stundum eins og menn keppist við að tíunda hvað þurfi að gera, á sama tíma sem ekkert er gert til þess að skapa grundvöll fyrir því að þetta sé gert.“

Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari að menn keppast við að lofa og lofa í húsnæðismálum og síðan er ekki staðið við þessa hluti þegar á reynir. En Sjálfstfl. sýndi líka í þessu máli sitt rétta andlit þegar þeir felldu till. okkar Alþýðuflokksmanna um að skila launaskattinum aftur inn í Byggingarsjóð ríkisins.

Í frv. Svavars Gestssonar frá síðasta þingi var einnig gert ráð fyrir því, eins og í þessu frv., að taka ákvörðunarvald um vextina úr höndum Alþingis og yfir til framkvæmdavaldsins. Þessu gátu Sjálfstæðismenn heldur ekki unað á síðasta þingi. Um það fluttu þeir brtt. og þá sagði hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson: „Það er ein veigamesta brtt. sem við leggjum fram sem kemur við 3. málsgr. 19. gr. Hvers vegna skyldum við nú vera að því? Það er vegna þess að ef 3. málsgr. frv. er samþykkt, þá er e. t. v. lagt smiðshöggið á það að eyðileggja verkamannabústaðakerfið. Og á hvern hátt? Með því að fella niður úr lögum að það séu ákveðnir 0.5% vextir á lánum Byggingarsjóðs verkamanna. Ef þetta er gert, þá liggur beint við að vextirnir verði stórhækkaðir. Það er tilgangurinn með þessu ákvæði frv. Það hefði enga þýðingu nema sá væri tilgangurinn. Og þegar svo er komið óttast ég að það geti komið að því, eins og ég orðaði það áðan, að lagt verði smiðshöggið á það óþurftarverk að rífa niður Byggingarsjóð verkamanna, sem að mörgu leyti hefur verið aðalsmerki félagslegrar aðstoðar í hálfa öld.“

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og Sjálfstfl. vildu sem sagt ekki fyrir ári síðan færa vaxtaákvörðunina yfir til ríkisstj. og seðlabankans og vildu að það væri áfram í höndum Alþingis. En þarna hafa þeir, eins og í öðru, breytt um skoðun.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil harma það, sem hér hefur komið fram, ef það er rétt, að hæstv. félmrh. hafi skipt um skoðun í þessu máli. Ég trúi því bara ekki fyrr en á reynir að hann ætli að svíkja þetta fólk sem hann hefur marggefið loforð um að fái með þessu frv. aðgang að félagslega kerfinu. Ég vona svo sannarlega að annað komi í ljós þegar hæstv. ráðh. stígur hér í ræðustól. Annað er ótækt.