14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5862 í B-deild Alþingistíðinda. (5230)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það mætti að sjálfsögðu tala margt við fyrrv. félmrh. Hann er vanur að segja frá sínum afrekum. En við þekkjum það, sem höfum verið með honum í stjórnarsamstarfi áður, hvernig þau mál gengu fyrir sig. Ég ætla að segja honum það strax að hann þarf ekki að vonast eftir því að ég reyni að sækja neitt í smiðju til hans í sambandi við þessi mál. Það er alveg útilokað. En mig langar að leiðrétta aðeins eitt sem hann sagði hér, sem var dágott sýnishorn af því hvers konar vaðall þetta var sem hv. þm. var að flytja hér í ræðustól áðan. Hv. þm. sagði t. d. að stjórnarflokkarnir hefðu lýst því fyrir kosningar að þeir ætluðu að veita 80% lán strax til þeirra sem væru að byggja íbúðarhúsnæði og þetta væri í stefnuskrá ríkisstj. Ég ætla að rifja upp fyrir hv. þm. kafla úr þessari stefnuskrá af því að hann er að vísa í hana. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Húsnæðismál. Lán Byggingarsjóðs ríkisins til þeirra sem byggja í fyrsta sinn hækki um næstu áramót. Jafnframt verði húsnæðislánakerfið eflt svo á næstu árum að lán þessi geti numið allt að 80% af byggingarkostnaði staðalóúðar. Samsvarandi hækkun verði til þeirra sem kaupa íbúð í fyrsta sinn.“

Þetta er lítið sýnishorn, af því að það vill svo til að margt fólk hlustaði á hv. þm., bara lítið sýnishorn af því hvers konar málflutningur þetta er, hvers konar virðingarleysi þetta er fyrir fólki sem áreiðanlega ber eðlilegt skynbragð á hlutina. Það er kannske allt í lagi að bjóða okkur þm. dag eftir dag svona vaðal, en þetta er bara lítið sýnishorn. Svona mætti lengi telja.

Þegar þetta húsnæðismálafrv. var til 2. umr. hér í hv. Nd. gerði ég grein fyrir atkv. mínu vegna þess að fram kom brtt. m. a. frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. þm. En um hvað var brtt. hv. 3. þm. Reykv.? Hún var um það að samþykkja að taka húsnæðisfélagið Búseta undir þennan kafla laganna, ekki til að það ætti aðgang að fjármagni í verkamannabústöðum, heldur var till. um að ákveðin upphæð, 200 millj. kr., færi sem sérstakt fjármagn í þetta kerfi. Það mátti sem sagt ekki koma nálægt verkamannabústaðakerfinu. Þetta var nú öll reisnin. Hv. þm. var að leggja til hluti sem hann vissi fyrir fram að ekki var hægt að framkvæma.

Ég gerði þá grein fyrir afstöðu minni til þessara mála, sem hefur ekkert breyst frá því að ég og aðrir framsóknarmenn lögðum fyrst til að útvíkka verkamannabústaðakerfið frekar en gert hefur verið með því að bæta inn nýrri grein, sem hefði þá í för með sér að hægt væri að byggja leiguíbúðir á vegum ríkisins, sveitarfélaga eða félagasamtaka fyrir þá sem þyrftu á því að halda. Þar var sérstaklega tilgreint námsfólk, Félagsstofnun stúdenta, leigjendasamtök, öryrkjar og aldraðir.

Þetta var útfært í þessari grein og ég lýsti því, þegar ég gerði grein fyrir atkv. mínu að það væri túlkun mín að skv. c-lið fái félagasamtök, sem ætla að byggja íbúðir til útleigu fyrir félagsmenn sína, sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi, möguleika til að fá lán úr Byggingarsjóði verkamanna, enda uppfylli aðilar ákvæði Byggingarsjóðs verkamanna um tekju- og eignaviðmiðun skv. 44. gr. frv.

Það vita allir, sem þekkja umrædd lög, hvað í þessu felst. Og af því að margir félagsmenn úr Búseta eru hér staddir til að hlusta á þessar umr. þykir mér rétt að greina frá því, eins og raunar kemur fram í þeirra málgagni, að ég hef frá fyrstu tíð sagt þessum aðilum það, að sú túlkun að í þessum félagsskap væri ekki viðmiðun í sambandi við tekju- og eignarform, hún ætti ekki við kaflann um Byggingarsjóð verkamanna. Það yrði því að gera ráð fyrir að því númerakerfi sem þar yrði tekið upp þyrfti að breyta ef það ætti að falla undir þetta. (Gripið fram í.) Nú kem ég að því hv. þm.

Hv. 2. landsk. þm. tekur oft sterklega til orða þegar hún kemur í þennan ræðustól. Það stendur ekki á því. Ég er búinn að lesa einar 10 ræður, sem hún hefur flutt hér í hv. deild í vetur um húsnæðismál og hún er við sama heygarðshornið í öllum ræðunum. Það er alltaf verið að drótta því að þeim sem ráða þessum málum að þeir séu að svíkja, það sé verið að draga fólk á asnaeyrunum o. s. frv. Þetta kom fram hér einnig áðan, að það væri verið að svíkja þetta fólk. Mér finnst þetta eiginlega vera orðið hámark ósvífninnar, þessi endurtekning hvað eftir annað.

Það vill svo vel til að þetta fólk hefur málgagn og það stendur þar skýrum stöfum hvað um er að ræða. Ég veit að það er á borðum allra þm. sem fskj. VII við nái. svo að ástæðulaust er að lesa það upp. En ég bendi einmitt á þetta sem sérstök rök, að það er ekki opið að þetta fylgi þessum lögum. Hins vegar hef ég aldrei breytt þeirri skoðun minni að þessi grein, c-liður í 33. gr., opni möguleika á lánum til slíkra félaga.

Nú er rétt að koma aðeins nánar að þessu máli. Það er ekkert leyndarmál hér á hv. Alþingi að ágreiningurinn hefur verið milli stjórnarflokkanna eftir að nál. kom fram. Sú túlkun sem formaður Sjálfstfl. hefur haldið fram stöðvaði frv. Það þarf ekki sterk lýsingarorð um þetta, það er ljóst. Og þá kemur til framhaldsins. Ég verð að segja það alveg eins og er, það má hver og einn snúa út úr því sem hann vill, að þegar við lesum þetta lagafrv., sem hér er til afgreiðslu, þá eru í því svo mikilvæg atriði til framfara í húsnæðismálum fyrir fólkið, sem á því þarf að halda í landinu og beðið er eftir, að það væri stórkostlegur ábyrgðarhluti að stöðva málið í þessari stöðu hér inni á Alþingi. Það eru atriði varðandi nýja stefnu í fjármögnun, það er lenging lána, það eru ýmsar nýjungar í sambandi við lífeyrisþega, sem geta keypt sér búseturétt, það eru ýmis ákvæði í frv. fyrir öryrkja og aldrað fólk, sem á í erfiðleikum, og fjöldi annarra atriða sem skipta miklu máli í sambandi við framkvæmd húsnæðismála. Þess vegna væri það stórslys og raunar óbætanlegt eins og unnið er að þessum málum núna ef þetta frv. væri stöðvað hér í dag. Þess vegna, hv. 2. landsk. þm., lagði ég til þá málamiðlun sem kemur fram í brtt. 894 frá formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni, að það væri eðlilegt að setja þetta í áframhaldandi athugun en láta frv. að öðru leyti ná fram að ganga.

Ég vek athygli á því vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan að inni stendur í c-liðnum: Bygging íbúða, leiguíbúða fyrir námsmenn, þ. e. fyrir Fétagsstofnun stúdenta, bygging leiguíbúða fyrir öryrkja og bygging leiguíbúða fyrir aldraða. Hins vegar setti ég það skilyrði í sambandi við þetta mál að skipuð yrði nefnd, sem félmrh. skipar, hv. þm., til að gera till. um stefnumörkun um byggingu leiguíbúða og semja frv. til l. um búseturéttarákvæði og kaupleigusamninga. Stefnt verður að því að slíkt frv. verði lagt fram í byrjun næsta þings. Þetta eru veigamikil atriði og með þessu ætti, miðað við þann áhuga sem hér virðist vera í sölum Alþingis og ég veit að er úti í þjóðfélaginu, að vera möguleiki á því að halda þannig á þessu máli að það verði hægt að marka ákveðna stefnu í því á þessu þingi.

Ég vil láta það koma hér fram að ég hef mikinn áhuga fyrir því, og met mikils það sem hér hefur komið fram í þá átt, að reyna nýjar leiðir í húsnæðismálum hér á landi. Á því er full þörf. Og ég verð að undirstrika það að eftir þriggja ára, setu sem félmrh. í fyrrv. ríkisstj. tókst hv. 3. þm. Reykv. því miður ekki að skapa þessar nýjungar í húsnæðislöggjöf hér á Íslandi, því miður. Hann hafði fullan stuðning til þess frá ýmsum aðilum, en hann bar ekki gæfu til þess að fylgja þeim málum eftir.

Ég geri ráð fyrir að þessi nefnd verði skipuð mjög fljótlega eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Og ég treysti því að hv. þm., þótt þeir noti tækifærið og deili hart á þessa meðferð málsins, sameinist um að gera þetta mögulegt. Á því er knýjandi nauðsyn. Og ég endurtek: Það er beðið eftir því í landinu að þetta frv. verði að lögum.

Ég tel þó rétt að koma hér inn á eitt atriði vegna þess að ég hef orðið var við það í öllum umr., bæði nú og fyrr, að hv. þm. forðast eins og heitan eldinn að nefna einn þátt í sambandi við c-lið. Látið hefur verið í það skína að eins og frv. er byggt upp væri um að ræða sömu kjör og í verkamannabústöðunum. Mér finnst ástæða til að taka þar af allan vafa, svo að fólk gangi ekki út frá túlkun sem er ekki rétt, og skýra frá því að eins og allir hv. þm. vita verða kjörin þannig að lánstíminn er 31 ár undir þessum lið en ekki 43 ár eins og í verkamannabústaðakerfinu og lánin eru miðuð við 80% af byggingarkostnaði í staðinn fyrir að í verkamannabústöðum eru það 80% miðað við staðalióúð. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram til þess að menn geri sér grein fyrir um hvað er verið að ræða. Það er mikill munur á þessu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að ræða þetta nánar hér. Ég vil endurtaka að ég tel ákaflega mikilvægt að koma þessu frv. í gegnum þingið svo að það verði að lögum áður en þingi lýkur núna í vor. Svo verður auðna að ráða hvort okkur tekst að útbúa frv. fyrir næsta þing svo að menn séu ekki í vafa um það hver staða þessa nýja forms, búsetuforms, verður, sem hlýtur vissulega að eiga rétt á sér hér á landi eins og í öðrum löndum, sú staða sem það kemur til með að fá gegnum löggjafann á næsta þingi.

Ég ætla ekki að eyða tímanum hér en ég er sannfærður um það að ríkisstj. mun vinna rösklega að því að ryðja braut nýrri stefnu í húsnæðismálum hér á landi. Það væri hægt að hafa langt mál um þetta. Við þurfum að ná tökum á þessum málum, við þurfum að fá lífeyrissjóðina til að vera virka í þessum málum, við þurfum að fá bankakerfið til að vera virkt í þessum málum. Þetta er hægt að gera og það frv. sem við erum að afgreiða hér ryður brautina að þessu markmiði.