14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5878 í B-deild Alþingistíðinda. (5245)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., nr. 305, og annað mál sem því tengist náið, 306. mál, varðar skattlagningu á bankastofnanir og tekjur ríkissjóðs af þeirri gjaldtöku. Það er rétt að ræða hér í upphafi svolítið almennt um þá stefnu sem birtist í þessum frv. ríkisstj. og hvernig hún kemur heim og saman við aðrar ráðstafanir sem ríkisstj. hefur staðið fyrir í sambandi við ríkisfjármálin, bæði nú að undanförnu og einnig í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Segja má að sú skattlagningarstefna, sem í þessum frv. báðum felst, falli mjög vel að því sem hefur verið að gerast í sambandi við skattlagningu hjá ríkisstj., bæði á síðasta ári og eins á þessu ári.

Við höfum orðið vitni að því að skattar hafa verið þyngdir á launafólk í landinu með ákvörðunum um tekju- og eignarskatt sem teknar voru af ríkisstjórnarliðinu á hv. Alþingi nýlega, þrátt fyrir gefnar yfirlýsingar um hið gagnstæða af hálfu stjórnarflokkanna og þvert ofan í þá kjarasamninga sem gerðir voru í febrúarmánuði, þar sem ákveðin fyrirheit voru gefin af ríkisstj. hálfu, m. a. í skattamálum.

Á sama tíma og þannig er gengið að launafólki í landinu hefur ríkisstj. ívilnað atvinnurekstri í landinu stórlega í sambandi við skattlagningu með ákvörðunum þar að lútandi fyrr á þinginu. Þessar ívilnanir á skattlagningu til fyrirtækjanna varða ekki mest framleiðslufyrirtækin í landinu, þó að þau falli einnig þar undir, heldur koma þar við sögu aðilar sem standa í hvers kyns rekstri, milliliðir og aðrir sem hafa betri aðstöðu til þess en flestir aðrir að skjóta sér undan þeirri skattlagningu sem ákveðin er lögum skv. og sem mjög hefur verið til umr. hér á hv. Alþingi að tilhlutan stjórnarandstöðunnar, þ. e. þau miklu brögð sem talin eru vera á réttum skattskilum. Þannig fellur þetta saman, afstaða hæstv. ríkisstj. annars vegar gegn launafólkinu í sambandi við skattheimtumál, þar sem um er að ræða íþyngingu, en á sama tíma og bætt er við sköttum á launamenn lækka þeir á fyrirtæki.

Þau frv. sem hér eru til umr., frv. til l. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta og frv. til l. um breytinga á lögum nr. 65 frá 19. maí 1982, um skattskyldu innlánsstofnana, falla vel að þessari almennu skattlagningarstefnu ríkisstj. En það vekur alveg sérstaka athygli þegar slík mál koma fram hér í þinginu sem varða hag ríkissjóðs svo tugum ef ekki hundruðum millj. skiptir í sambandi við tekjur til ríkissjóðs á þessu ári og næstu tveimur árum, að við erum að fjalla um það dagana á eftir að greidd hafa verið hér atkv. um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, um bandorminn fræga, gat fjmrh. sem stjórnarflokkarnir gerðu tilraun til að stoppa upp í, gat, sem þeir sjálfir áttu drjúgan hlut í að mynda og báru alla ábyrgð á í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, en stækkað var vitandi vits af stjórnarflokkunum með þeim ákvörðunum sem teknar voru strax á síðasta ári varðandi fjármál ríkissjóðs og niðurfellingu á sköttum á því ári sem juku að sjálfsögðu á vandann þá en koma einnig inn í tekjudæmi ríkissjóðs á þessu ári.

Það má satt að segja undarlegt heita og ber ekki vott um að menn séu mjög vandir að virðingu sinni á þeim bæ, á búi hæstv. fjmrh., að á sama tíma og helsta úrlausnin til að fylla í fjárlagagatið vegna yfirstandandi árs eru hér borin fram enn og aftur frv. sem lúta að því að rýra tekjur ríkissjóðs. Og hverjir eru það sem eiga að njóta þessarar gjafmildi? Hver er litli maðurinn í því tilviki? Jú, það eru þær bankastofnanir í landinu sem gjaldeyrisviðskipti stunda og það eru innlánsstofnanir almennt í sambandi við skattlagningu og skattskil. Þetta er svo lýsandi afstaða sem hér kemur fram í þessum málum, eins og mörgu öðru sem á undan var gengið, að fyllsta ástæða er til að staldra við, þegar nú koma fram frv. af þessu tagi, og inna hæstv. fjmrh. m. a. eftir því, hvað komi næst í þessum efnum, hvað hann hafi á döfinni í sambandi við fjárlagagerðina fyrir komandi ár þegar þetta er liður í undirbúningi fyrir ríkissjóðsdæmið á komandi ári.

Komið hefur fram í máli hæstv. ráðh. annars vegar og í þeim álitum, sem minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. hefur gefið á tekjuáhrifum þessara frv., að þar munar mjög miklu. Þær tölur, sem hæstv. fjmrh. las og sagði að komnar væru frá sínu rn. að hluta til, ef ég hef skilið hann rétt, eru verulega aðrar og lægri en þær sem minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. tekur til í sínu nál. Nú skal ég ekki leggja neitt endanlegt mat á það hvaða tölur geta talist nær réttu lagi í þessu efni. En ég hef ástæðu til að ætla að hæstv. fjmrh. leggi sig nokkuð fram um að fegra þetta dæmi sem hann ber hér fram. Það er kannske ekki óeðlilegt því að nógu ljót er sú stefna samt sem þar býr á bak við, þegar tillit er tekið til þess hvers konar álögur það eru sem hæstv. ráðh. hefur borið hér fram gagnvart launafólki í landinu, hinum almenna skattgreiðanda og það ekki alls fyrir löngu þvert ofan í gefin loforð. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvort þær tölur, sem hann nefndi hér áðan og lofaði að komið yrði á framfæri við þm. og sem ég vænti að hæstv. ráðh. geri, eru fengnar frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og hvort það er fjárlaga- og hagsýslustofnun sem stendur að baki þessu mati.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. vitnaði til bankaeftirlitsins í þessu efni og ekki er að efa að það hafi lagt sitt mat á þessa þætti. En ég tel sem sagt að nauðsynlega þurfi að fara betur ofan í tekjuáhrifin, tekjutapið hjá ríkissjóði í sambandi við þessi efni. Ef það reynist svo, eins og minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. hefur dregið fram, að tekjutap vegna þessara frv. beggja á árinu 1984 nemi nálægt 50 millj. kr. á þessu ári og 100–200 millj. á næstu tveimur árum, þá er hér ekki um neinar smáupphæðir að ræða, m. a. miðað við þann niðurskurð sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram í sambandi við nýsamþykktar ráðstafanir í ríkisfjármálum og þær þrengingar sem virtust ríkja á stjórnarheimilinu í sambandi við það mál. Ekki fór fram hjá mönnum þá að kveinstafir miklir heyrðust í sambandi við þann niðurskurð. Ég skil vel að það var ekki sársaukalaust fyrir ýmsa fagráðherra, sem áttu að leggja í það púkk, að taka þar á málum. Enda reyndist uppskera hæstv. fjmrh. í sambandi við niðurskurð á ríkisútgjöldunum harla lítil. Hann og ríkisstj. höfðu það ráð helst fram að færa að bæta við erlendar lántökur landsmanna upp á samtals um röska 2 milljarða kr., ef ég man rétt.

Við skulum gefa okkur að sú tala sem hér er um að ræða á þessu ári sé um 50 millj. kr. eða eitthvað nálægt því, þó að ég taki gjarnan við öðrum útreikningi og sé reiðubúinn til að skoða hann. Við skulum líta aðeins á þessa tölu, m. a. með tilliti til afgreiðslu sem tillögur minni hl. fjvn. hér á Alþingi fengu, þær undirtektir sem tillögur hennar fengu hér við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.

Minni hl. fjvn. stóð sameinaður að einni brtt. Þessi brtt. minni hl. fjvn. fjallaði um það að hækkuð skyldu framlög til dagheimila í landinu um 20 millj. kr. á þessu ári. Það var sameinuð ósk stjórnarandstöðunnar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En undirtektir meiri hl. fjvn. og ríkisstjórnarliðsins hér á Alþingi voru augljósar í þessu máli. Till. var felld með sameinuðu afli atkv. beggja ríkisstjórnarflokkanna. Hér er um að ræða lægri upphæð en það sem hæstv. ráðh. ætlar nú að færa bankastofnunum í landinu á þessu ári, þessum aðþrengdu aðilum, sem hafa verið að sýna nú að undanförnu eins og mörg fyrirtæki í landinu, þar á meðal stórfyrirtæki með afkomu sem segja sína sögu. Og það gæti nú verið að það færi að skýrast fyrir mönnum táknmálið hæstv. fjmrh., sem fleygt varð í sjónvarpsviðtali, þar sem ríkisfjármálin voru til umr. og hann vísaði landslýðnum á vin litla mannsins í ríkisstj. Það gæti jafnvel verið að börnin á dagheimilum landsins færu að frétta af því hver hann væri og í hvaða líki hann væri, þessi vinur litla mannsins í ríkisstj.

En þær voru fleiri tillögurnar, sem sameinaður meiri hl. ríkisstjórnarliðsins felldi við afgreiðslu fjárlaga hér á liðnum vetri, tillögur sem vert er að rifja upp þegar hér eru til umr. frumvörp sem eiga að færa bankastofnunum í landinu verulegar upphæðir þeim til hagsbóta. Ég minni t. d. á að því var hafnað af ríkisstj. að verða við lágmarksleiðréttingum í sambandi við fræðslumálin í landinu. Ég veit að hæstv. menntmrh. man eftir því hvaða afgreiðstu tillögur stjórnarandstöðunnar um fjármál Námsgagnastofnunar fengu við fjárlagaafgreiðslu, stofnunar sem svo er aðþrengd nú að hún getur ekki sinnt lögboðnu lágmarkshlutverki og það bitnar á öllu skólastarfi í landinu. Tillögur stjórnarandstöðunnar um að bæta úr brýnustu þörf Námsgagnastofnunar með því að veita stofnuninni nokkrar millj. kr. umfram það sem meiri hl. fjvn. gerði ráð fyrir voru kolfelldar hér af ríkisstjórnarliðinu. En því var heitið á sama tíma að ríkisstj. tæki málefni stofnunarinnar til meðferðar á þessu ári með það fyrir augum að bæta þar úr brýnustu þörf, málefni Námsgagnastofnunar yrðu til sérstakrar meðferðar af hálfu ríkisstj. á þessu ári. Nú spyr ég hæstv. fjmrh., vegna þess að hann hefur efni á því að bera hér fram frv. til að létta á sköttum bankastofnana í landinu svo að tugum milljóna skiptir: Hverjar eru tillögur hans í sambandi við leiðréttingu á málefnum Námsgagnastofnunar á þessu ári? Í hverju verður það framlag fólgið, sem hæstv. ráðh. ætlar að veita Námsgagnastofnun, bæði til almennrar útgáfu, kennslugagna og sérkennslugagna þeirrar stofnunar, til að bæta úr því ástandi, sem líkja má við neyðarástand, sem þegar ríkir og augljóst er að mun versna til muna þegar kemur að næsta skólaári á komandi hausti?

Ég vil minna á það, að ein af tillögum okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við fjárlagagerðina fyrir jólin var um það að veita 15 millj. kr. til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu í staðinn fyrir 2 millj. kr. framlag, sem ríkisstj . ætlaði sér að skammta — og skammtaði í reynd til þessarar byggingar, sem á að hýsa aðalbókasafn landsmanna, byggingarframkvæmda sem nú hafa verið stöðvaðar af ríkisstj., sem metur það sem forgangsverkefni í staðinn að taka 600 millj. kr. erlend lán til að reisa höll suður á Keflavíkurflugvelli, flugstöð suður á Keflavíkurflugvelli margfalda að stærð og umfangi umfram það sem nokkur rök mæla með. Þessir sömu aðilar og stóðu að þeirri afgreiðstu að stöðva byggingu þjóðarbókhlöðu í landinu, en hleypa áfram og leggja allan kraft í að fara fram með byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, sem við vorum að fá fréttir af núna nýlega, ég held að það hafi verið í ríkisfjölmiðlunum í dag, að væri á fullu skriði. Það væri búin jarðvinnan og þar væri unnið á fullri ferð. Þetta gerist suður á Miðnesheiði á sama tíma og framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu Íslendinga hafa verið stöðvaðar. Og þetta gerist á sama tíma og Seðlabankabyggingin brunar áfram þrátt fyrir það að megn andstaða er eðlilega gegn þeirri framkvæmd bæði innan þings og vítt úti í þjóðfélaginu. Það er sannarlega táknrænt að ríkisstjórn, sem ekki telur sig hafa efni á því að halda áfram, þótt í litlu væri, byggingu yfir bókakost og handrit í landinu, þessi sama ríkisstj. hefur efni á því að bera hér fram frv. um að létta sköttum af bankastofnunum með þeim hætti sem fram kemur í þeim frv. sem hér eru til umr.

En það er fleira sem vert er að leiða hugann að þegar mál sem þessi eru hér til umr. Ein af till. okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við fjárlagagerð yfirstandandi árs var um það að hækka framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands úr 13.6 millj. kr. í 20 millj. kr. og bæta með því úr þeim vansa, sem við blasir og eftir er tekið, að framlag Íslendinga til þróunaraðstoðar er langt fyrir neðan það sem gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og er okkur til mikils vansa með tilliti til okkar aðstæðna. Þótt bágar séu taldar þessa stundina, þá eru þær ekki svo bágar, hæstv. fjmrh., að þær réttlæti það að á sama tíma og ríkisstj. telur ekki fært að auka að tillötu framtag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, þá skuli vera talin sérstök ástæða til þess að slaka, á skattheimtu hjá gjaldeyrisviðskiptabönkum landsins og skattlagningu á innlánsstofnanir. Það er þessi stefna, sem ástæða er til að vekja athygli á, þegar við erum að fjalla um mál sem þessi.

Og það voru fleiri atriði, sem til meðferðar voru við afgreiðslu fjárlaganna, þessara vísindalegu fjárlaga, sem hæstv. fjmrh. lofaði og prísaði á sínum tíma, tveimur eða þremur mánuðum áður en hann leit ofan í það ginnungagap sem næstum því var búið að gleypa ríkisstj. alla en henni tókst að stikla fram hjá með því að skella ofan í þetta ginnungagap erlendum lántökum upp á 2 milljarða kr. (Fjmrh.: Við sigldum í gegnum það.)

Við sigldum í gegnum það, sagði hæstv. fjmrh. Ja, það er von að hann segði það með nokkurri hreykni. Það verður ekki af hæstv. ráðh. skafið að hann er kokhraustur maður. Hann er ekki aðeins kokvíður, eins og segja má um ýmsa sem eru að gleypa eigin orð, eins og hæstv. félmrh. hér fyrr á þessu kvöldi, heldur er hann kokhraustur þegar hann heldur því fram að ríkisstj. hafi siglt í gegnum ginnungagapið fjárlaganna sem hæstv. ráðh. ber ábyrgð á. (Gripið fram í.)

Nú ætla ég að lofa hæstv. ráðh., sem er farinn að tala hér úr hliðarsal, að fá orðið svo að ég nemi hvað hann segir. Hvað var það sem hæstv. ráðh. sagði? (Fjmrh.: Ég sagði: Við sigldum á ykkar mistökum og fyrrv. ríkisstj. Það er gatið.) Hæstv. fjmrh. telur að hann hafi fleytt sér inn í ríkisstj. á mistökum stjórnarandstöðunnar. (Fjmrh.: Á mistökum fyrrv. ríkisstj.) Já, mistökum fyrrv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. reynir enn, þótt komið sé að ársafmæli ríkisstj. hans, að fleyta sér á lummum um mistök fyrrv. ríkisstj., maðurinn sem ber ábyrgð á fjárlögum ársins 1984, eins og þau voru lögð fyrir, maðurinn sem uppgötvaði tveimur mánuðum eftir að Alþingi hafði samþykkt þessi vísindalega unnu fjárlög, að þar vantaði á um 2 milljarða kr. segir okkur það, að hann hafi siglt með ríkisstj. alla í gegnum þetta ginnungagap. Ég held, hæstv. fjmrh., að málið sé ekki eins auðvelt og ráðh. vill vera láta. Ég hygg að hann eigi eftir að finna fyrir því þegar kemur lengra fram á árið, ég tala nú ekki um þegar hæstv. fjmrh. sest yfir fjárlagagerð komandi árs og lánsfjáráætlun ársins 1985, og hann muni kannske íhuga það hvort honum hafi alveg ratast rétt orð á munn aðfaranótt 15. maí 1984, að komið sé fram hjá ginnungagapinu.

En það voru fleiri þættir til meðferðar hér í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna sem voru unnir í merki þess að hæstv. ráðh. hafði séð ástæðu til að svipta ríkissjóð ýmsum tekjuliðum á s.l. ári, ákvarðanir sem að sjálfsögðu skipta máli í tekjudæmi þessa árs, ekki aðeins hins síðasta, og eiga eftir að koma fram í sambandi við fjárlagagerð á komandi ári. Þar er ég m. a. að minna á skattinn á ferðamannagjaldeyri, sem hæstv. ráðh. hafði frumkvæði að að fella niður á sínum tíma, og tollalækkanir á ýmsum innflutningi, sem ekki er nú svona talinn til nauðþurfta allur a. m. k., innflutningi sem hæstv. ráðh. lækkaði tollana á og lækkaði þar með í ríkiskassanum á árinu 1983 og einnig tekjumöguleika ríkissjóðs á þessu ári.

Og það er vert að minnast þess, vegna þess að við erum nú um þessar mundir að bíða eftir því hér í hv. Nd. að frv. ríkisstj. um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar komi hér til umr., að stjórnarliðið treysti sér ekki til þess við afgreiðslu fjárlaganna að verða við brtt. um hækkun framlaga til lækkunar húshitunarkostnaðar, heldur felldi þær tillögur með sameinuðu afli atkv. beggja stjórnarflokkanna. Raunar segir sú afgreiðsla ekki alla sögu, því að það liggur nú fyrir, hæstv. fjmrh., eins og hæstv. iðnrh. veit væntanlega manna best, að ríkisstj. gerðist svo djörf í þessu máli, sem átti að vera ein helsta skrautfjöður hennar í sambandi við kjararánið vorið 1983 og setningu brbl., sem sviptu launafólk umsömdum verðbótum og færðu tekjur launamanna niður um fjórðung á árinu 1983, þá átti ein helsta mildandi aðgerð að vera sú að bæta við 150 millj. kr. til þess að lækka húshitunarkostnað hjá þeim sem erfiðast eiga í þeim sökum. En síðan kemur það bara í ljós þegar kemur svolítið fram á árið 1984 og hæstv. iðnrh. þarf á því að halda að bæta eitthvað hlut sinn í sambandi við húshitunarkostnaðinn í landinu og heldur blaðamannafund til þess að tilkynna það fagnaðarerindi að nú verði varið fjármunum til orkusparandi aðgerða? Og víst er um það, að það geta verið gagnlegar aðgerðir. En fjármagnið til þessara aðgerða, hvaðan kom hæstv. iðnrh. fjármagnið? Jú, það hafði fundist í fjárhirslum hæstv. fjmrh. fjármagn, sem ætlað hafði verið til þess að lækka húshitunarkostnað hjá þeim verst settu á síðasta ári, fjármagn til þess að leggja í orkusparnaðaraðgerðir á þessu ári og komandi ári. Þá uppgötvaðist það nefnilega, hæstv. fjmrh., að milljónunum 150, sem hæstv. fjmrh. hafði heimild til að verja og setja reglur um á síðasta ári að varið yrði til að lækka húshitunarkostnað í landinu, þeim hafði bara ekki verið varið í þessu skyni, ekki einu sinni helmingi þeirrar upphæðar hafði verið varið til þess að lækka húshitunarkostnaðinn. Aðeins 70 millj. kr. höfðu komið út úr ríkissjóði á síðasta ári í þessa mildandi aðgerð, sem átti að vera ein helsta sárabótin fyrir það fólk sem þyngstar ber byrðarnar í þessum efnum, byrðar sem voru þyngdar stórlega af ríkisstj. á árinu 1983, bæði með hækkuðum húshitunarkostnaði og til viðbótar verulegum hækkuðum kostnaði heimilisrafmagns í landinu, þannig að nemur a. m. k. 10 þús. kr. á meðalfjölskyldu það sem menn þurftu að leggja til til viðbótar vegna beinna aðgerða ríkisstj.

Þetta eru aðgerðir ríkisstj. sem nú hefur efni á því undir þinglokin að ætla að knýja hér fram frumvörp til þess að bæta hag bankastofnana og fjármálastofnana í landinu. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig stóð á því, hvaða búhyggindi voru það sem réðu því að ekki var varið einu sinni helmingi þeirrar heimildar sem ríkisstj. taldi þörf á að afla sér á síðasta ári til að lækka húshitunarkostnað í landinu, að ekki einu sinni helmingi af því var varið í þessu skyni? Er það hæstv. fjmrh. sem ber ábyrgð á þeirri ráðstöfun eða er það hæstv. iðnrh. sem sótti ekki fjármagnið niður í fjmrn.? Ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðh. upplýsi okkur um það hver ber ábyrgð á þessari ráðsmennsku.

Nú var það tekið fram í þessum brbl. að það væri fjmrh. sem setja mundi reglur um nýtingu þessa fjármagns. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hverjar voru reglurnar sem hann setti og er það þá á hans ábyrgð að ekki var varið helmingi þessarar upphæðar, ekki nema 70 millj. kr. af 150 millj. kr. heimild í umræddu skyni? Ég spyr líka hæstv. fjmrh.: Er þá hugmyndin að þetta fjármagn, sem ekki var notað á síðasta ári, komi til greiðstu á þessu ári og í hvaða skyni og með hvaða hætti verður því þá varið? E,g tel að það sé aldeilis óhjákvæmilegt, þegar við erum að fjalla um frv. sem færa tekjur úr ríkissjóði yfir til fjármálastofnana í landinu, að við fáum upplýsingar um þætti sem þessa.

Þessi frv. sem við erum að ræða hér, og er komið fram undir miðnætti, þau eru vissulega ein varðan enn á vegferð núv. ríkisstj., sem lítur á það sem eitt helsta markmið sitt í ríkisfjármálum og í sambandi við fjármálatilfærslu í landinu að færa tekjur frá launamanninum yfir til litla mannsins fjmrh., fyrirtækjanna í landinu, milliliðanna í landinu, einkaaðila í landinu sem þjónustustarfsemi stunda. Það eru þessir aðilar sem eru litli maðurinn, sem fjmrh. hæstv. hugsar til í reynd, og við þetta bætast nú bankastofnanirnar með þeim frv. sem hæstv. ráðh. hefur mælt hér fyrir og hér eru til umr. Það er líka athyglisvert að sjá, jafnframt því sem við virðum fyrir okkur yfirbreiðslu hæstv. fjmrh. varðandi tekjuáhrif þessara frv., hvernig tekið er til orða í sambandi við það hvaða áhrif þessi breyting í frv. til l. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta muni hafa við kaup og sölu á erlendum gjaldmiðli. Í aths. með þessu stjfrv., í lok þess, segir: „Með niðurfellingu gjaldsins er þess að vænta að mismunur kaup- og sölugengis erlends gjaldmiðils verði ákveðinn með hliðsjón af breyttum aðstæðum svo og ýmis gjöld vegna þessara viðskipta endurskoðuð.“ „Þess er að vænta,“ segir hér. Sterkara er nú ekki tekið til orða. Og ég inni hæstv. fjmrh. eftir því hvaða tryggingu hann gefur okkur fyrir því að þessi breyting eigi sér stað, þessi breyting, sem ég var að gera hér grein fyrir. Er hæstv. fjmrh. farinn eitthvað að sljóvgast á nýjum degi — (Fjmrh.: Að sofna.) eða leggur ekki við hlustir sem skyldi? Hann er kannske að hugsa til litla mannsins og hverjar eigi að vera gjafirnar, næstu gjafirnar sem hann færir litla manninum, sem hann lætur sig vafalaust dreyma um, ekki aðeins að hann hugsi til hans í vöku, fyrirtækjanna, milliliðanna og bankastofnana í landinu sem er á hægra brjósti hæstv. ráðh.